Frumvarp um breytingar á lögum um opinbera starfsmenn

18.05.17

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar mælti með frumvarpi um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (brottfall kröfu um ríkisborgararétt). Að frumvarpinu stendur þingflokkur Viðreisnar. Frumvarpið er í takt við stefnu Viðreisnar í málefnum innflytjenda og flóttamanna en þar segir m.a. „Fólk utan EES eigi greiðari leið að vinnu og búsetu”.

Frumvarpið leggur til sú kvöð sem er að finna í fyrrnefndum lögum í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. verði afnumin, en þar segir:  

„Íslenskur ríkisborgararéttur. Þó má ráða ríkisborgara frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum til starfa með sömu kjörum og íslenska ríkisborgara. Einnig má víkja frá þessu ákvæði þegar um er að ræða aðra erlenda ríkisborgara ef sérstaklega stendur á.“

Flutningsmenn telja að þessar reglur gætu verið hamlandi og geta dregið úr sveigjanleika á hinum opinbera vinnumarkaði. Að mati flutningsmanna eiga málefnalegar kröfur um menntun og í einhverjum tilfellum sérstök starfsleyfi að duga. Enda hefur framkvæmdin í þegar orðið sú á stærstu vinnustöðum landsins, í Háskóla Íslands og Landspítalanum.

Breytingin tekur ekki til embættismanna, svo sem lögreglumanna, dómara eða annarra sem fara með opinbert vald.

Þess ber að geta að öll Norðurlöndin hafa fallið frá kröfum um ríkisfang við opinber störf. Afnám þessa skilyrðis myndi því færa okkar löggjöf til svipaðs horfs og þekkist í nágrannalöndunum.

Málið gekk til umfjöllunar hjá Efnahags- og viðskiptanefnd.

Frumvarpið í heild sinni má finna hér.

Fleiri greinar