Frumvarp Viðreisnar um breytingar á hegningarlögum

18.05.17

Á þriðjudag mælti Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar fyrir frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, en þingflokkur Viðreisnar leggur málið fram. Í frumvarpinu er lagt til að nauðgun verði skilgreind út frá því hvort samþykki hafi verið fyrir hendi fremur en að skilgreina nauðgun út frá verknaðaraðferðum eins og nú er.  Með öðrum orðum að sá, sem á samræði eða önnur kynferðismök við aðra manneskju  án samþykkis, sé sekur um nauðgun. Þannig er það skortur á samþykki til samræðis eða annarra kynferðis­maka sem skilgreinir nauðgun.

Hin nýja 1. mgr. 194. greinar verður því svohljóðandi í heild sinni verði frumvarpið að lögum:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlega er það öllum sameiginlegt að varða kynlíf fólks og er ætlað að vernda frelsi á því sviði. Hagsmunir þeir sem ákvæðin eiga að vernda eru fyrst og fremst friðhelgi einstaklingsins, þ.e. kynfrelsi og sjálfsákvörðunarréttur hvað varðar kynlíf, líkama og tilfinningalíf. Hver einstaklingur hefur þannig frelsi til að ákveða að hafa samræði eða önnur kynferðismök en jafnframt rétt til þess að hafna þátttöku í kynferðislegum athöfnum. Nauðsynlegt er að mati flutningsmanna að skilgreina nauðgun út frá skorti á samþykki til þess að unnt sé að veita kynfrelsi fullnægjandi réttarvernd.   

Ljóst er að breytt skilgreining á nauðgun í almennum hegningarlögum breytir því ekki að sönnunarstaða í kynferðis­brotamálum verður alltaf þung. Þessi nýja skilgreining á nauðgun er því vissulega engin töfralausn og samhliða nútímalegri skilgreiningu á nauðgun er nauðsynlegt að gæta þess að lögregla og ákæruvald sem og aðrir fagaðilar sem að málaflokknum koma búi yfir nýjustu þekkingu á hverjum tíma. Á  hinn bóginn er þessi skilgreining til þess fallin að stuðla að viðhorfsbreytingu til brotsins. Verði nauðgun skilgreind út frá skorti á samþykki, eins og frumvarp þetta leggur til, mun áhersla á samþykki aukast við rannsókn og saksókn nauðgunarbrota. Þá mun slík skilgreining jafnframt fela í sér að mikilvægi kynfrelsis verður gert hærra undir höfði en áður og mun stuðla að því, samhliða aukinni fræðslu, að fólk verði meðvitað um mikilvægi þess að samþykki liggi fyrir þegar kynferðislegar athafnir eiga í hlut.

Kynferðislegt ofbeldi og nauðganir eru samfélagslegt mein sem þarf að sporna við eins og nokkur kostur er með fræðslu, viðhorfsbreytingu sem og nauðsynlegum lagabreytingum. Nýleg tölfræði sýnir að staðan í þessum málaflokki er grafalvarleg.

Árið 2014 voru 129 nauðganir tilkynntar til lögreglu en ári síðar voru naugunarmálin 178.

Á síðasta ári leituðu 169 einstaklingar á Neyðarmóttöku Landspítala vegna nauðgana en þeir hafa aldrei verið fleiri. Árið 2015 leituðu 145 einstaklingar til NM.

Þrátt fyrir þetta hefur nauðgunarkærum til lögreglu ekki fjölgað.

Nauðgunarmálum sem komu inn á borð Stígamóta fjölgaði um 58 milli 2015 og 2016. Talskona Stígamóta sagði í samtali við mbl.is fyrir skömmu að það væri nærtækt að álykta að nauðgunarfaraldur hefði orðið.

27 lyfjanauðganir voru tilkynntar til Stígamóta 2016 en 13 árið 2015.

29 hópnauðganir voru tilkynntar til Stígamóta 2016 en 11 árið 2015.

Í framsöguræðu sinni á þriðjudag sagði  Jón Steindór:

„Frumvarp þetta er liður í því að breyta viðhorfum. Viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefur skapað og eru enn ríkjandi eða eimir sterkt af á mörgum stöðum. Með frumvarpinu er horfið frá þeim karllægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður nánast rétt á kynlífi með konu. Má í því sambandi benda á þau viðhorf að tiltekin hegðun eða klæðaburður kvenna séu nánast ögrun eða tilboð um kynlíf sem karlmenn geti ekki staðist. ... Það er skylda okkar háttvirtra þingmanna að lögin séu sanngjörn og sporni gegn úreltum viðhorfum. Það á svo sannarlega við í þessu efni og til þess er þetta frumvarp lagt fram.“

Frumvarpinu var vísað til umfjöllunar í Allsherjar- og menntanefnd og verður tekið fyrir þar. 

Fleiri greinar