Viðreisn

Í skugga valdsins: yfirlýsing stjórnar

01.12.17

Viðreisn stendur heilshugar að baki þeim konum sem hafa rofið þögnina um kynferðislegt áreiti, ofbeldi og valdbeitingu í stjórnmálum. Sögur kvennanna voru sláandi og lýstu háttsemi sem á ekki að líðast, hvorki innan okkar flokks né annars staðar á sviði stjórnmálanna. Núna reynir á alla að beita sér fyrir breytingum og skapa betri framtíð, enda er mikilvægt að þátttaka í stjórnmálum einkennist af fjölbreytni, jafnrétti og gagnkvæmri virðingu. Stjórnmálaflokkar mega ekki líta undan og við munum sýna stuðning okkar í verki.

Þær konur sem hófu umræðuna sýndu mikinn styrk og við berum öll sameiginlega ábyrgð á því að tryggja að umræðunni sé haldið áfram. Við ætlum að taka þar virkan þátt. Við þurfum líka að stuðla að bættri menningu og aukinni virðingu þegar kemur að samskiptum kynjanna. Viðreisn mun skipuleggja viðburði innan flokks og í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka um ábyrgð, virðingu og ofbeldi í samskiptum í stjórnmálastarfi.

Við þurfum að gæta þess, jafnt innan þings og utan, að raddir þolenda heyrist og að tekið sé mark á þeim. Innan flokksins þurfum við að koma á skýrum verkferlum sem tryggja að þolendur eigi alltaf stuðning vísan og að gerendum í málum sem þessum sé ljóst að framkoma þeirra sé ekki liðin. Stjórn flokksins felur því málefnahópi Viðreisnar um jafnréttismál og Uppreisn að vinna sameiginlega aðgerðaáætlun um fræðslu, viðburði og drög að verkferlum fyrir næsta landsþing. Við erum meðvituð um að um viðvarandi verkefni er að ræða.

Við munum taka óhikaða afstöðu með þolendum, bæði í fortíð, nútíð og framtíð. Við munum læra af reynslu þeirra sem á undan okkur hafa komið og gæta þess að hlusta, meðtaka og líta í eigin barm. Aðeins þannig getum við unnið saman að því að þátttaka í stjórnmálastarfi verði örugg og jákvæð reynsla fyrir alla.

Samþykkt á fundi stjórnar 1. desember 2017

Fleiri greinar