Viðreisn

Jafnréttið er okkar

14.10.17

Viðreisn hefur ákveðið að beita sér fyrir þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta og leggja mikla áherslu á jafnréttismál í sinni víðustu mynd á komandi árum. Flokkurinn hefur náð margþættum árangri á þessu sviði á undanförnum mánuðum og þar ber auðvitað hæst jafnlaunastaðallinn sem festur var í lög undir forystu Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra og er vafalítið stærsti áfangi sem náðst hefur í jafnréttismálum í langan tíma. Á þessum öldufaldi vill Viðreisn skauta í átt til nýrra áfangasigra í jafnréttisbaráttunni.

Þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

Að meðaltali hafa konur 13% lægri laun en karlar. Helsta skýringin er sú að íslenskur vinnumarkaður er kynbundinn. Fjölmennar kvennastéttir í umönnunar- og kennslustörfum, t.d. leikskóla- og grunnskólakennarar, fá greidd lægri laun en fjölmennar karlastéttir enda þótt enginn efist um mikilvægi umönnunar- og kennslustarfa. Tilraunir hafa verið gerðar til að taka á þessum vanda með sértækum leiðréttingum einstakra starfsstétta. Þær leiðréttingar hafa undantekningarlítið orðið grunnur að almennum launakröfum á vinnumarkaði.

Sé vilji til þess að leiðrétta þennan mun þarf sameiginlega aðkomu hins opinbera sem launagreiðanda og allra stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði. Meta þarf umfang þessa launamunar og finna leiðir til þess að eyða honum án þess að það leiði til hefðbundinna víxlhækkana launa. Hlutverk stjórnmálanna verður að leiða samtal verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga og leggja þannig grunn að víðtækri sátt um þjóðarátak í átt til stóraukins launajafnréttis. Viðreisn telur þetta mál vera næsta stóra skrefið í að eyða kynbundnum launamun á íslenskum vinnumarkaði.

Lögfestum ábyrgð lífeyrissjóðanna á jafnrétti

Rúmlega 90% þeirra sem stýra ráðstöfun peninga á Íslandi eru karlar. Lífeyrissjóðirnir stýra í verulegum mæli aðgangi að fjármagni í atvinnulífinu. Konur eru um 50% félagsmanna en 10% stjórnenda. Viðreisn vill lögfesta skyldu lífeyrissjóða til þess að setja sér jafnréttisstefnu sem nái líka til fjárfestinga þeirra og skyldu til að gera grein fyrir framkvæmd stefnunnar í ársskýrslu.

Leikskólapláss frá 12 mánaða aldri

Margar fjölskyldur eiga í erfiðleikum vegna þess að dagvistunarkostir bjóðast ekki fyrr en á öðru ári barna. Sú staða veldur miklum vandræðum. Ríkið og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman um að leysa þennan vanda, þannig að öll börn á landinu eigi þess að kost að geta hafið leikskólagöngu við 12 mánaða aldur.

Hærri greiðslur í fæðingarorlofi

Greiðslur foreldra í fæðingarorlofi voru skertar verulega í hruninu og hafa enn ekki náð því að vera sambærilegar því sem þær voru fyrir hrun. Viðreisn vill hækka þak í fæðingarorlofi upp í 600 þúsund krónur. Það er liður í því að styðja við barnafjölskyldur, veita börnum dýrmætan stuðning og auka þátt feðra í fæðingarorlofi.

Kynbundið ofbeldi

Kynferðislegt ofbeldi og nauðganir eru samfélagslegt mein sem þarf að ráðast gegn með fræðslu, viðhorfsbreytingu og nauðsynlegum lagabreytingum.

Í vor lögðu þingmenn Viðreisnar fram frumvarp sem hefur að það markmiði að draga úr kynferðisafbrotum og setja samþykki í forgrunn við skilgreiningu á nauðgun. Viðreisn mun leggja frumvarpið fram að nýju.

Stafrænt kynferðisofbeldi.

Með stöðugt vaxandi þætti samfélagsmiðla og jafnvel sérstakra vefsíðna sem miðla stafrænu kynferðisofbeldi hefur tíðni glæpanna aukist verulega. Afar torvelt er, ef ekki útilokað, að eyða að fullu myndefni sem dreift hefur verið á netinu. Við þessu þarf að bregðast og mun Viðreisn leggja fram frumvarp um breytingar almennum hegningarlögum sem taka á þessu vandamáli.

Hinsegin jafnrétti

Hvað varðar réttindi hinsegin fólks erum við langt á eftir mörgum nágrannaþjóða okkar. Úr því vill Viðreisn bæta tafarlaust. Sjálfsákvörðunarréttur við skráningu á nafni sínu og kyni í samræmi við kynvitund og kyneinkenni er grundvallaratriði.

Auka þarf fræðslu um málefni hinsegin fólks til allra þeirra sem sinna nærþjónustu og sömuleiðis þeirra sem vinna með transbörn og ungmenni hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Fleiri greinar