Viðreisn

Landsþing Viðreisnar

12.03.18

Landsþing Viðreisnar 2018 var haldið um helgina. Hundrað manns voru skráð á þingið, sem var að sögn þátttakenda bæði kraftmikið og uppörvandi. Á þinginu var samþykkt stjórnmálaályktun þar sem fram kom að eftir hagfellda þróun efnahagsmála séu viðvörunarljós farin að loga á ný og því sé nauðsynlegt að ráðast í umbætur á peningastefnu þjóðarinnar, í þágu heimila og fyrirtækja.

Í ályktuninni kom jafnframt fram að brúa þurfi bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar með því að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði, auka heimild til nýtingar á séreignarsparnaði við kaup á húsnæði, ljúka viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, rýmka heimildir til skattafrádráttar nýsköpunarfyrirtækja og afnema samkeppnishindranir á innlendum mörkuðum. Þá kom fram í ályktuninni að jafnvægi í gengismálum og lægri vextir séu landsbyggðinni sérstaklega mikilvæg þar sem stór hluti fyrirtækja á landsbyggðinni byggi á útflutningi.

Á landsþinginu var kjörin ný stjórn flokksins. Þorgerður Katrín var kosin formaður með 95,3% atkvæða eða 61 atkvæði af 64 greiddum og Þorsteinn Víglundsson var kjörinn nýr varaformaður með 98,5% atkvæða eða 65 atkvæðum af 66 greiddum. Í stjórnarkjöri voru 66 atkvæði greidd. Þar var Benedikt Jóhannesson hlutskarpastur með 58 atkvæði og aðrir sem hlutu kjör voru Hildur Betty Kristjánsdóttir með 54 atkvæði, Sara Dögg Svanhildardóttir með 47 atkvæði og Karl Pétur Jónsson og Sveinbjörn Finnsson sem hlutu 44 atkvæði hvor. Varamenn í stjórn voru kjörin Ingunn Guðmundsdóttir með 36 atkvæði og Friðrik Sigurðsson með 23 atkvæði.

Síðan í janúar hafa 78 manns skráð sig í flokkinn og má segja að áhugi á starfinu hafi aldrei verið meiri. Innan flokksins starfa nú tólf landshluta- og bæjarmálafélög, öldungaráð og tvær ungliðahreyfingar, Uppreisn á landsvísu og Uppreisn í Reykjavík. Þá má ekki gleyma Hinseginfélagi Viðreisnar sem stofnað var með stæl á síðasta degi landsþingsins.

Stjórn og starfsmenn flokksins þakka kærlega fyrir landsþingið og hlakka til starfsins sem framundan er, í þágu almannahagsmuna, frjálslyndis og jafnréttis.

Fleiri greinar