Viðreisn

Ungt fólk á flótta

Ungliðahreyfing Viðreisnar hélt málþing um ungt flóttafólk og stöðu þess, miðvikudaginn 12. október.
13.10.16
Höfundur: Viðreisn

Á málþinginu fluttu erindi Anna Lára Steindal, verkefnastjóri móttöku flóttamanna hjá Rauða krossinum, og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF. Fundarstjóri var Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst og frambjóðandi í 2. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Erindi Önnu Láru bar yfirskriftina „Með lífið að veði“ og sagði hún að flestir, ef ekki allir, hælisleitendur sem hún hefur unnið með hafi upplifað sem svo að sjálft líf þeirra velti á svarinu sem þeir biðu frá Útlendingastofnun. Á meðan fólkið bíður málsmeðferðar er það enn fremur í millibilsástandi þar sem það getur varla talist partur af samfélaginu – hefur ekki kennitölu, getur ekki unnið og ekki sótt sér læknisþjónustu nema í bráðatilvikum. Fyrir ungt fólk skiptir öllu máli að hafa eitthvað fyrir stafni en í núverandi kerfi eru fá úrræði fyrir þau ungmenni sem komin eru af skólaskyldualdri. Þá þyrfti einnig að huga betur að andlegri heilsu og líðan ungs fólks sem sótt hefur um alþjóðlega vernd á Íslandi. Ekki síst þeirra sem koma sem fylgdarlaus ungmenni.

Bergsteinn Jónsson fjallaði í fyrirlestri sínum um hvernig við þurfum að endurhugsa beitingu mannréttinda í kerfinu og að mannréttindafræðslu, sérstaklega um réttindi barna, væri ábótavant, bæði í skólakerfinu og stjórnsýslunni. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið lögfestur á Íslandi en að mati Bergsteins vantar víða þekkingu hjá stjórnvöldum um framfylgd hans. Ljóst er að mörg mál væru unnin á annan og farsælli hátt ef slík væri raunin. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að hunsa mannréttindi; þurfum að hugsa meira í mannréttindum, fræða hvort annað um mannréttindi og hafa mannréttindi að leiðarljósi í allri okkar stefnumótun.

Anna Lára og Bergsteinn voru sammála um að það væri afar varhugavert þegar mannúð og siðferði eru talin handan stjórnmálanna og þegar kerfin sem við búum til geti ekki meðhöndlað slík mál. Viðhorf stjórnvalda skipti einnig meginmáli við úrlausn mála flóttamanna og hælisleitenda.

Við þökkum þeim báðum kærlega fyrir erindin, fyrir að veita okkur innsýn inn í aðstæður ungs flóttafólks og benda okkur á þau skref sem þörf er á að taka til að byggja upp mannúðlegra kerfi við móttöku þeirra.

Fleiri greinar