Viðreisn

Vel heppnað landsþing Viðreisnar að baki

Ný forysta kosin og málefnaáherslur mótaðar
24.09.16
Höfundur: Viðreisn

Landsþing Viðreisnar fór fram í dag þegar um 300 flokksfélagar mættu í Hörpu til að móta stefnu flokksins fyrir kosningar.

Benedikt Jóhannesson, oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, var endurkjörinn formaður, Jóna Sólveig Elínardóttir oddviti flokksins í Suðurkjördæmi var kjörin varaformaður og eins var kosið í stjórn flokksins og önnur embætti.

Áherslur flokksins inn í komandi kosningabaráttu voru mótaðar í öllum málaflokkum og er ályktanir þingsins hægt að finna hér

Níu frambjóðendur tóku máls og ræddu um helstu stefnumál Viðreisnar í komandi kosningum. Þorgerður Katrín ræddi um innanríkismál og tók þar sérstaklega fyrir jafnan atkvæðisrétt Íslendinga óháð búsetu. 

Ég tel til dæmis algjört forgangsatriði að tryggja að atkvæðisréttur allra landsmanna verði jafn, óháð búsetu þeirra. Fötluð kona í Hafnarfirði á að hafa sama rétt og trillukarl fyrir austan, fyrirtækjaeigandi fyrir vestan á að hafa sama atkvæðisrétt og kennari í Kópavoginum – þetta er ósköp einfalt” sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem skipar 1. sæti í Suðvesturkjördæmi. 

Þorsteinn Víglundsson fór yfir stefnu Viðreisnar í jafnréttismálum og minntist þar á jafnrétti kynjanna, kynbundið ofbeldi og mikilvægi þess að við Ísland sé fordómalaust samfélag. En hann benti sérstaklega á þá sorglegu staðreynd að launamunur kynjanna er enn til staðar og virðist ekki haggast. 

Sjálfur á ég þrjár dætur sem aldrei munu sætta sig við að fá 10% lægri laun en jafnaldrar þeirra af hinu kyninu. Þær eiga heldur ekki að gera það né sætta sig við að stjórnmálamenn lofi öllu fögru en taki aldrei á vandanum. Hið opinbera á að gera gangskör í að útrýma þessu óréttlæti í starfsemi sinni” sagði Þorsteinn Víglundsson sem skipar 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi Norður. 

Nýkjörinn varaformaður Viðreisnar, Jóna Sólveig Elínardóttir, tók fyrir atvinnumál þar sem hún ræddi um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál en einnig hversu mikilvæg ferðaþjónustan er okkar samfélagi. 

Við erum komin á þann stað að ferðaþjónustan þarf að fá þann sess sem henni ber sem einn af grunnatvinnuvegunum á Íslandi. Við verðum að halda vel utan um greinina og þá aðila sem þjónusta gestina okkar” sagði Jóna Sólveig sem leiðir lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi. 

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, lokaði fundinum og minnti flokksmenn á hver ábyrgð þingmanna er og þá sorglegu staðreynd að svo lítill hluti þingheims tók afstöðu í nýafstöðnum búvörusamningi. 
Traust almennings á Alþingi er lítið. Aftur og aftur hrista menn höfuðið yfir vinnubrögðum og störfum alþingismanna. En er það skrítið að þjóðin beri litla virðingu fyrir þingmönnum þegar þingmenn bera enga virðingu fyrir þjóðinni. Það voru ekki nema liðlega 10% þingmanna sem stilltu sér upp við hlið neytenda þegar úrelt landbúnaðarkerfi var fest í sessi til tíu ára. Það voru reyndar ekki nema 30% þingmanna sem studdu búvörusamninganna með jái. Sumir sátu hjá, að sögn vegna þess að þeir voru á móti samningunum, aðrir sátu hjá vegna þess að þeir styðja samningana. Loks var stór hluti þingmanna úti í bæ að gæða sér á peruköku. [...] Er furða þó að almenningi blöskri? Ég sé að sumir vinir okkar tala um Viðreisn sem mögulegt þriðja hjól undir vagni ríkisstjórnarflokkanna. En ríkisstjórnin þarf greinilega ekkert þriðja hjól. Hún hefur þegar þriðja hjólið og það fjórða. Meira að segja varadekk þegar kemur að því að vernda kerfið” sagði Benedikt sem skipar 1. sæti í Norðausturkjördæmi.  

Fleiri greinar