Aðal kosningamál Viðreisnar verður að breyta kerfinu

Viðreisn er ekki stofnuð til þess að viðhalda óbreyttu ástandi.

Sumir eru í stjórnmálum til þess að gæta sérhagsmuna. Aðrir fara í stjórnmál til þess að ná frama. Loks eru þeir sem telja að hlutverk sitt í pólitík sé að vernda kerfið og setja það á oddinn í kosningum.

Viðreisn er ekki stofnuð til þess að viðhalda óbreyttu ástandi. Þegar stjórnkerfið og siðferði stjórnmálamanna er svo sjúkt að tugþúsundir mæta á Austurvöll, þá er það ekki ákall um óbreytt ástand, stjórnmál þar sem hvorki forseti né ríkisstjórn vildi setja sér siðareglur, hvað þá fara eftir þeim. Það er ekki margir sem telja að slíkt siðferði sé sómi Íslands.

Viðreisn vill gera grundvallarbreytingar í þágu almennings:

  1. Ríkið á ekki að úthluta gæðum landsins til ákveðinna hópa án endurgjalds.
  2. Sjávarútvegur greiði markaðstengt auðlindagjald með því að árlega fari ákveðinn hluti kvótans á markað.
  3. Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni. Innflutningshöft og tollar á landbúnaðarvörur verði afnumin í áföngum. Bændur verði leystir úr fátæktargildru.
  4. Aldraðir og öryrkjar verði hvattir til vinnu meðan þeir geta. Ríkið hætti að refsa þeim fyrir atvinnuþátttöku og engum verði bannað að vinna vegna aldurs. Þjóðfélagið þarf reynslu og þekkingu allra, eins lengi og þeir hafa vilja og getu til þess að vinna.
  5. Lækkum vexti og verðbólgu til samræmis við nágrannalönd. Meðan Íslendingar þurfa að borga hærri vexti en samkeppnisþjóðirnar lendum við alltaf í B-flokki.
  6. Kosningaréttur á að vera óháður búsetu. Jafnrétti þegnanna er grundvallarhugsjón lýðræðisins.
  7. Endurskoðun stjórnarskrárinnar þarf að ljúka, meðal annars til þess að efla beint lýðræði og skilgreina betur hlutverk forseta.
  8. Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli aðildarviðræðum við Evrópusambandið til þess að ná aðildarsamningi sem borinn verður undir þjóðina. Núverandi stjórnarflokkar lofuðu kosningum en sneru svo við blaðinu og slitu viðræðum án þess að ræða málið á Alþingi. Þjóðin þarf ekki þingmenn sem svíkja loforð.

Viðreisn er ekki flokkur fyrir þá sem vilja persónulega greiða eða vilja viðhalda sérhagsmunum. Þeir sem telja að slíkt kerfi sé heppilegt kjósa kerfisflokkana, flokka sem vilja viðhalda sérhagsmunum á kostnað almennings.

Spurðu þess vegna ekki hvað Viðreisn getur gert fyrir þig. Spurðu hvað Viðreisn getur gert fyrir Ísland.

Benedikt Jóhannesson 

Greinin birtist fyrst á www.heimur.is