Áfangastaðurinn Austurland

Austurland stendur á tímamótum. Ferðaþjónusta hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár og hefur verið ört stækkandi atvinnugrein í fjórðungnum. Merkisviðburðir eins og Eistnaflug, Bræðslan og LungA hafa, ekki bara staðist tímans tönn heldur orðið að eftirtektarverðum viðburðum á landsvísu.

Athygli sem þessir viðburðir hafa kallað fram hefur skilað sér í ferðafólki, íslensku sem erlendu sem sækir fjórðunginn heim. Þá hafa ferðaþjónustufyrirtæki, hótel og gististaðir unnið gott markaðsstarf. Segja má að hin síðari ár hefur grasrótin verið að verki hér í fjórðungnum. Afrakstur grasrótarinnar hefur m.a. skilað sér í hönnun Áfangastaðins Austurlands, þar sem Ferðamálasamtök Austurlands og Austurbrú hafa borið hitann og þungann af starfinu. Gríðarlegur undirbúningur hefur verið unninn í þessu verkefni og metnaður er mikill. Staðan á verkefninu í dag er góð, hönnunarferli að ljúka og framkvæmdaferlið að taka við.

Í framkvæmdaferlinu hefst markaðssetning undir sameiginlegu merki Áfangastaðarins Austurlands. Lagt verður út frá hugmyndafræði sem undirbúningur í hönnunarfasa hefur skilað. Þar eru grunnatriði eins og góð þjónusta með gott hráefni úr fjórðungnum eitt aðalatriðið. Áfangastaðnum Austurlandi er ætlað að vera gæðamerki fjórðungsins. Vonandi heldur jákvæð uppbygging ferðaþjónustu áfram á Austurlandi öllum Austfirðingum til hagsbóta.

Ætlum við að keyra?

Gríðarlega mikilvægt atriði í öllu þessu eru samgöngur, vegakerfi og flugsamgöngur.

Vegakerfi landsins er að springa, það hefur legið ljóst fyrir um árabil. Vegagerðin bendir á að stórauka þurfi fjármagn til að fara í nauðsynlegar endurbætur á því. Hringvegurinn, þjóðvegur nr. 1 er enn með fjölda einbreiðra brúa. Enn eru vegkaflar með malaryfirborði og þjóðvegur nr. 1 er að hluta til ekki þjónustaður allan ársins hring. Merkilegt nokk þá eru öll þessi atriði á austur hluta þjóðvegarins.

Þetta verður að laga. Ekki er ásættanlegt fyrir Austfirðinga að korter í kosningar sé hægt að henda fjármagni í vegabætur, sem svona eiga einhvern tíman að verða framkvæmdar. Hafi fjármagn verið til, til að setja í vegaframkvæmdir til að útrýma einbreiðum brúm átti það að vera komið inn til Vegagerðarinnar.

Þjóðvegur nr. 1 um Breiðdalsheiði, hvað er nú það, ég bara spyr. Vegurinn er ekki þjónustaður yfir vetrartímann. Erlendir ferðamenn velja „öruggu leiðina“ og fara veg númer 1. og lenda í ógöngum trekk í trekk. Færa þarf þjóðveg nr. 1 úr núverandi veglínu yfir á Fagradal milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Það kallar líka á samgöngubætur í Fáskrúðsfirði þar sem gamall og úrsérgenginn vegur er sunnanmegin í firðinum. Þessi færsla þjóðvegar nr. 1 er auk þess inn á snjóléttara svæði.

Ætlum við að fljúga?

Þá komum við að flugsamgöngum – ó mæ god! Ívar Ingimarsson hefur verið ötull talsmaður baráttuhóps um bættar flugsamgöngur og bent á „fáránlega verðlagningu á flugfargjöldum“ í innanlandsflugi. Fjögurra manna fjölskylda þarf að borga stórar fjárhæðir til að nýta flugsamgöngur, t.d. til að sækja höfuðborgina heim, sækja nám eða til að erinda hitt og þetta. Þarna hefur Viðreisn séð hið augljósa og gert hugmyndir sem Ívar hefur haldið á lofti að sínum. Þarna verðum við að fá úrbætur.

Ef Áfangastaðurinn Austurland á að blómstra þarf fólk að komast þangað. Ég legg til að það verði gert.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.