Ársafmæli Viðreisnar

Það er að sumu leyti ótrúlegt að það sé bara eitt ár frá því að við troðfylltum sal í Hörpu og á fimmta hundrað manns stofnaði Viðreisn. Þá fylktum við liði undir slagorðinu: Almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Auðvitað átti stofnunin sinn aðdraganda og við höfðum rætt um nauðsyn á nýjum flokki allt frá árinu 2014. Við héldum lengst af að kosningarnar yrðu í lok apríl 2017, en atburðarásin varð öðruvísi en ætlað var. Atburðir vorið 2016 sýndu skýrt að ekki varð unað við óbreytt stjórnmál.

Það var hugur í öllum þennan vordag fyrir réttu ári. Við gengum bjartsýn út af fundinum, sannfærð um að með góðan málstað myndum við fá góðan meðbyr.

Næstu mánuðir voru ævintýri líkastir. Við fengum stórskotalið í framboð, 63 konur og 63 karla. Kosningabaráttan var stórskemmtileg og við fengum 10,4 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Síðan var Viðreisn í nánast öllum stjórnarmyndunarviðræðum næstu tvo mánuðina og þó að við værum nýgræðingar lærðum við heilmargt á ferlinu og vorum orðin nokkuð sjóuð í byrjun janúar þegar ný ríkisstjórn tók við.

Viðreisn fékk mikilvæg ráðuneyti og þingmenn okkar leika stórt hlutverk í störfum þingsins. Nú höfum við átt þingflokk í sjö mánuði og setið í ríkisstjórn í fjóra og hálfan mánuð. 

Í stjórnarsáttmála náðust mörg stefnumál Viðreisnar í gegn, þ.á.m. endurskoðun á gjaldtöku í sjávarútvegi, jafnlaunavottun, endurskoðun peningastefnunar og forgangsröðun í þágu velferðarkerfisins. Einnig að þingflokkur Viðreisnar muni í lok kjörtímabils leggja fram þingsályktunartillögu um að Ísland haldi áfram umsóknarferli um aðild að ESB.

Um þessar mundir er þingflokkurinn í óðaönn við að koma ýmsum málum í gegnum þingið, á borð við jafnlaunavottun og fjármálaáætlun. Það sem af er þessu þingi hafa fjórir varamenn tekið sæti á þingi, þeirra á meðal yngsti þingmaður í sögu lýðveldisins, Bjarni Halldór Janusson.

Á sama tíma hefur okkar öfluga grasrót unnið óeigingjarna málefnavinnu í þágu flokksins, líkt og allt frá því fyrir stofnun, en þar nefni ég sérstaklega opna þriðjudagsfundi okkar þar sem við höfum tekið fyrir ótalmörg málefni á öllum sviðum. Þá er undirbúningur fyrir sveitastjórnarkosningar þegar hafinn, en líkt og fyrir Alþingiskosningar tökum við góðan tíma til að fara yfir öll helstu málefni sem hafa frjálslyndi að leiðarljósi.

Aðalatriðið er þó að við erum í aðstöðu til þess að vinna að framgangi okkar mála. Rauði þráðurinn er alltaf: Almannahagsmunir framar sérhagsmunum.

Ég óska öllu Viðreisnarfólki til hamingju með þennan merka og glæsilega árangur!