Besta fólkið

Á Íslandi eigum við einn Trump en marga Cartera. Fáir hafa miklar hugsjónir sem sína pólitísku leiðarstjörnu og ólíklegt að þjóðin taki stökk fram á við undir þeirra leiðsögn. Í stjórnarmyndunarviðræðum nú í haust var flest falt og grimmt slegið af.

Oft finnst okkur lítið liggja eftir stjórnmálamenn. Við spyrjum: Hvort göngum við saman til góðs eða færumst aftur á bak? Þegar litið er um öxl er oft eins og ekkert hafi gerst. Samt sjáum við auðvitað að margt hefur breyst á löngum tíma, en sjaldan í stökkum fram á við eða til baka.

Mér er minnisstætt þegar vinur minn einn, sem hafði fylgst náið með störfum Alþingis í heilan vetur, sagði að yfirleitt væri hæfasta fólkið innan hvers hóps formenn stjórnmálaflokkanna. Ég hafði aldrei hugsað út í það og taldi þetta reyndar fyrst fráleitt þegar ég hugsaði til fólks í stjórnmálum sem ég var sjaldan sammála. Við nánari umhugsun breytti ég um skoðun. Þetta fólk sem pirraði mig var einfaldlega best í því að koma á framfæri málstað síns flokks, málstað sem ég var ósáttur við.

Einmitt þetta setur mikla ábyrgð á þá sem eru í forystu flokkanna. Fyrir þjóðina er það mikilvægt að stjórnmálamenn vinni fyrst og fremst það sem best er fyrir heildina, jafnvel þó að það þjóni ekki pólitískum hagsmunum þeirra til skamms tíma. Hættan felst nefnilega ekki í því að vont fólk geri slæma hluti. Við því er að búast. En ef gott fólk hættir að gera góða hluti erum við í vanda.

Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn séu í aðstöðu til þess að ná stórkostlegum árangri fyrir þjóð sína. Á síðustu öld hafa afrek Viðreisnarstjórnarinnar fyrri í frelsismálum og aukaaðild Íslands að Evrópusambandinu á síðasta áratug aldarinnar orðið Íslendingum til mestra heilla. Höft og fjötrar undir stjórn Framsóknar á þriðja og fjórða áratugnum voru varanleg ógæfuspor sem langan tíma tók að afmá. Full aðild að Evrópusambandinu væri stökk af fyrri gerðinni; Brexit er sambærilegt við skemmdarverk Hriflu-Jónasar.

Í Bandaríkjunum ætti sannarlega að vera af mörgu afburðafólki að taka en fæstir foringjar þar hafa unnið varanleg afrek. Tveir ólíkir menn, sem báðir eru enn á lífi, urðu forsetar fyrst og fremst vegna þess að þeir voru ekki innvígðir. Hvorugur varð góður forseti. Hvorki Jimmy Carter né Donald Trump voru hluti af „klíkunni“ í Washington. Carter, sem var talinn vandaður maður, þjáðist af þeim kvilla að geta ekki tekið ákvarðanir. Trump er allt öðruvísi. Hann lifir í eigin veruleika, einhvers konar hliðstæðum heimi þar sem fjölmiðlar flytja falsfréttir, en hann sjálfur og verk hans eru langbest í heimi.

Á Íslandi eigum við einn Trump en marga Cartera. Fáir hafa miklar hugsjónir sem sína pólitísku leiðarstjörnu og ólíklegt að þjóðin taki stökk fram á við undir þeirra leiðsögn. Í stjórnarmyndunarviðræðum nú í haust var flest falt og grimmt slegið af. Að lokum var samið um það „sem allir eru sammála um“, svo vitnað sé til formanns Framsóknar. Það er huggun harmi gegn, að minni skaði er að Carterum en Trumpum.

Birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2017