Ert þú til í breytingar?

Viðreisn er stofnuð til berjast fyrir réttlátara samfélagi, þar sem hagsmunir fólksins í landinu eru settir í fyrsta sæti. Aðilar sérhagsmunanna  verða að læra að lúta því.  Ert þú til í slíkar breytingar?

Nýr stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður. Viðreisn, flokkur sem hefur það að meginmarkmiði að berjast fyrir réttlátara samfélagi, þar sem allir, óháð stöðu eiga að fá rétt á njóta verðleika sinna. Flokkurinn hafnar forsjárhyggju flokkapólitíkurinnar og vill berjast fyrir réttlátara samfélagi þar sem hagmunir borgaranna verða teknir fram fyrir sérhagsmuni þeirra afla sem telja að almennt réttlæti og siðferði eigi ekki að gilda um sig. Flokkurinn byggir á frjálslyndum viðhorfum til  þeirra mála sem varða stjórn landsins og hagsmuna almennings.

Umræða undanfarinna ára fyrir og eftir hrun hefur oft á tíðum verið á furðulegum nótum. Viðtekin gildi um réttlæti, siðferði og heilindi hafa flust til um leið og orð hafa fengið nýjar merkingar. Að „lofa“ einhverju þýðir til að mynda hjá sumum að ekki þurfi að efna það sökum allskonar „ómögulegheita“ sem hafa eða verða fundin upp. Strax þýðir svo það sem hver vill og hentar hverju sinni. Skilin á milli þess em er sagt og þess sem eftir stendur eru orðin svo loðin að ekki verður við unað.

Stjórnarskráin

Stjórnarskráin er til  fyrir fólkið , en  fólkið er ekki til  fyrir stjórnarskrána.  Leikreglur um hvernig við skulum haga okkar málum með hagsmuni Íslands og Íslendinga í fyrirrúmi er gömul stjórnarskrá, skrifuð á ofanverðri 19. öld fyrir konungsveldið Danmörku.  Hún getur varla átt að vera leiðarvísir lýðveldisins Íslands inn í 21.öldina. Gera verður  auknar kröfur um aðgang almennings að ákvörðunum.  Það er löngu komin tími á alvöru breytingar á stjórnarskrá okkar og  að því mun  Viðreisn stefna.

Nýting auðlinda

Ísland er ríkt land, hvort heldur af mannauði eða náttúruauðlindum. Við eigum öll að geta haft það gott og notið verðleika okkar og hæfileika. En til þess að svo geti orðið þurfa að verða  breytingar. Við verðum að setja okkur ný viðmið, nýjan sáttmála um skiptingu gæðanna þar sem öruggt er að arður af nýtingu auðlinda okkar gangi til uppbyggingar sameiginlegra þarfa okkar, frekar en til auðsöfnunar fárra útvaldra. Fyrsta skrefið í þá átt hlýtur að vera breyting á fjármálalegri hlið fiskveiðistjórnunarkerfisins þar sem tryggt verði um aldur og eilífð arður þjóðarinnar og í framhaldi annarra auðlinda hennar. Það er réttur fólksins.

Það er skylda okkar að skoða möguleikana

Tækifæri framtíðarinnar eru mörg. Það er skylda okkar að kanna og hafa opin augu fyrir  þeim möguleikum sem eru í stöðunni til að bæta kjör okkar.  Það getur ekki talist skynsamlegur kostur að hafna samningum fyrirfram áður en slíkir hafa verið gerðir vegna þess að viðkomandi telji sig vita hver niðurstaðan verður. Viðreisn leggur áherslu á að fram fari kosningar um áframhald aðildarviðræðna við ESB, þær kláraðar verði vilji til þess og kosið verði um niðurstöðuna að lokum. Við viljum að þjóðin ráði í þessu máli, fremur en kreddur afturhaldssinna.

Jöfnuður tækifæranna

Aukin ójöfnuður er um leið  skerðing á frelsi þeirra sem minna hafa. Þeir hafa ekki sömu möguleika til að efla hæfileika sína og lífskjör. Mikilvægt er að sá ójöfnuður sem hlotist hefur m.a  í gegnum misskiptingu skattkerfisins verði jöfnuð. Með einföldun skattkerfisins og afnámi undanþágna í því má vinna á þeim ójöfnuði. Jöfnun nýtingar tækifæranna tryggir um leið  betra og heilbrigðara samfélag.

Hversvegna Viðreisn?

Þær miklu breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum hafa opinberað visst óréttlæti í garð hins venjulega borgara kalla á breytingar. Það var hvatinn að stofnun Viðreisnar. Það er mat þeirra sem nú hafa komið saman að stjórnmál framtíðarinnar eigi að snúast fyrst og fremst um velferð og tækifæri borgaranna frekar en gegndarlausa þjónkun við hagsmunaðila með óljósan tilgang. Gamla pólitíkin þar sem hagmunir almennings eru ekki í fyrsta sæti á að heyra fortíðinni til. Viðreisn er stofnuð til berjast fyrir réttlátara samfélagi, þar sem hagsmunir fólksins í landinu eru settir í fyrsta sæti. Aðilar sérhagsmunanna  verða að læra að lúta því.  Ert þú til í slíkar breytingar ?

Þórunn Benediktsdóttir, hjúkrunarfræðingur