Hvernig maður er Benedikt Jóhannesson?

Benedikt Jóhannesson er fjármálaráðherra og alþingismaður, en hvaða mann hefur hann að geyma? Nokkrir samferðamenn Benedikts segja frá kynnum sínum af honum.

Benedikt Jóhannesson er fjármálaráðherra og alþingismaður, en hvaða mann hefur hann að geyma? Nokkrir samferðamenn Benedikts segja hér á eftir frá kynnum sínum af honum.

Fljótur að átta sig

Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Heimavalla og fyrrverandi forstjóri Útgerðarfélags Akureyrar, vann fyrst með Benedikt Jóhannessyni sem var kosinn í stjórn ÚA á svipuðum tíma og Guðbrandur var ráðinn forstjóri. Guðbrandur segir: „Benedikt var fljótur að setja sig inn í hlutina, óhræddur að spyrja og gagnrýna það sem miður hafði farið, en jafnframt duglegur að hrósa því sem vel var gert.

Ég tel að hann hafi átt mikilvægan þátt í að byggja upp einstaklega skemmtilegt og árangursríkt samstarf stjórnar og stjórnenda ÚA sem umbreytti félaginu og skilaði því í fremstu röð á sínum tíma. Við höfum verið góðir vinir síðan og tel ég það mikil forréttindi að hafa fengið tækifæri til að bæði kynnast manninum og vinna með honum í návígi.

Benedikt, sem er stærðfræðingur, er einstaklega fljótur að greina hluti og átta sig á því sem skiptir máli. Hann er dagfarsprúður og tillitssamur í umgengni við þá sem hann vinnur með. Benedikt hefur komið víða við og hefur þannig aflað sér yfirgripsmikillar reynslu á mörgum mikilvægum þáttum þjóðlífsins. Hann er hreinn og beinn og talar opinskátt um hlutina og er óhræddur að viðra sínar skoðanir, en er þó tilbúinn í umræðuna og að hlusta á rök þeirra sem hafa aðra skoðun en hann sjálfur. Ég hef aldrei séð Benedikt fara fram með offorsi eða yfirgangi, það sem einkennir hann er ábyrgð og yfirvegun. Hann hefur auk þess næman skilning á því sem er gerlegt eða ekki. Benedikt er skemmtilegur í vinahóp og mikill húmoristi og er fljótur að sjá hinar spaugilegu hliðar á hinum ýmsu málum.“

Benedikt er fylginn sér eins og hann hefur sýnt af sér í pólitíkinni undanfarin misseri. Það má helst gagnrýna hann fyrir að vera mjög fastur fyrir í þeim málum þar sem hann er búinn að mynda sér ákveðnar skoðanir á og að erfitt er að hnika honum í þeim málum.

Mikill prinsippmaður

Jón G. Hauksson, sem vann lengi með Benedikt sem ritstjóri Frjálsrar verslunar sagði í viðtali við DV árið 2003. „Benedikt er afar heiðarlegur maður og réttsýnn. Hann er glöggur og eldfljótur að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Hann er hugrakkur og lætur engin mál slá sig út af laginu. Stjórnarformennska er í eðli sínu eftirlitshlutverk þar sem fylgst er með gangi mála og unnið að stefnumótun og markmiðssetningu. Í slíkri vinnu er mjög gott að hafa mann sem heldur sig við aðalatriðin og sér þau strax,” segir Jón G. Hauksson.

„Benedikt er einn mesti húmoristi sem ég hef kynnst,” segir Jón og fleiri taka undir það við DV. Og hann er alls ófeiminn við að koma fram, nýtur þess satt að segja. Hann þykir góður ræðumaður, talar gjarnan blaðalaust, og er ósjaldan fenginn í hlutverk veislustjóra. Kímnigáfa hans þykir þó á stundum svolítið sérstök og stingandi. Og hnjóti menn um eitthvað sérstakt í fari Benedikts er það helst að hann þykir stundum svolítið stífur á meiningunni sem aftur má rekja til þess að hann er mikill prinsippmaður. Sumum kann að finnast hann þver á stundum en hann stendur þannig að málum að síður kastast í kekki milli hans og þeirra sem kunna að vera á öndverðum meiði.

Hreinn og beinn

Kolbeinn Kristinsson, fyrrverandi forstjóri Myllunnar, hefur unnið náið með Benedikt. Hann sagði í viðtali við DV: „Auk þess að vera eldklár og snöggur að sjá aðalatriði máls er hann alltaf hreinn og beinn. Maður veit nákvæmlega hvar maður hefur hann.“

Viðmælendur DV voru allir sammála um að Benedikt sé afar hæfileikaríkur leiðtogi sem leiðir vinnu hóps manna án þess þó að skipta sér of mikið af daglegu starfi. Þá er hann stálminnugur og fullyrt að fletta megi í honum eins og bók.

Benedikt er mikið fyrir göngutúra og spilar körfubolta reglulega árla morguns með félögum sínum. Heimildir herma að hann sé Valsari að upplagi. Hann les heil ósköp og á ferðalögum erlendis má oft sjá eftir honum inn í bókabúðir. Annars er Benedikt lýst sem ferðaglöðum fjölskyldumanni.

Gerir miklar kröfur til sjálfs sín

Guðrún Ragnarsdóttir meðeigandi og ráðgjafi hjá Strategíu kynntist Benedikt Jóhannessyni fyrst þegar hann kenndi henni stærðfræði í Verslunarskóla Íslands fyrir allmörgum árum síðan. Leiðir þeirra lágu svo saman aftur fyrir nokkrum árum og eftir það höfum þau unnið saman að nokkrum verkefnum. Hún segir:

„Það er óhætt að segja að Benedikt er besti stærðfræðikennari sem ég hef haft, bæði fyrr og síðar. Benedikt á mjög auðvelt með að útskýra flókna hluti á einfaldan hátt sem gerir hann að einstaklega góðum kennara. Sá kostur hefur að mínu mati nýst honum vel sem fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann er oft að glíma við flókin viðfangsefni sem getur verið erfitt að útskýra á einfaldan hátt. Benedikt er mjög hreinn og beinn og hlustar vel á þær ábendingar sem beint er að honum. Hann leggur sig alltaf 100% fram í því sem hann er að vinna að hverju sinni enda gerir hann miklar kröfur til sjálfs sín. Á sama tíma á hann auðvelt með að treysta fólki og upplifir maður það mjög sterkt þegar maður vinnur með honum.“

Hún bætir við: „Benedikt er mikill húmoristi en þar sem hann er oft frekar alvörugefin á svipinn getur húmorinn misskilist. Það er því ákveðin hætta á því að menn átti sig ekki á því hvenær hann er að grínast og hvenær ekki. Benedikt hættir til að detta ofan í smáatriðin og vil ég meina að þar sé kennarinn í honum að tala en hann er yfirleitt fljótur að átta sig á því og nær þá að hífa sig upp. Loks má nefna að þar sem Benedikt gerir miklar kröfur til sjálfs sín gerir hann einnig miklar kröfur til annarra.“

Hjálpsamur og gott að leita til hans

Finnur Oddsson forstjóri Nýherja kynntist Benedikt fyrst fyrir um 10 árum síðar, þegar Finnur starfaði hjá Viðskiptaráði Íslands: „Þar leituðum við gjarnan til hans sem álitsgjafa um hagfræðileg málefna, allt frá peningamálum til hagstjórnar, vegna útgáfu, funda eða ráðstefnuhalds á vegum Viðskiptaráðs. Kynni mín af Benedikt á þessum tíma voru kannski ekki mikil, en það var ávallt gott að leita til hans, hann hafði uppbyggilega skoðun á málefnunum og var óhræddur við að tjá sig um þær skoðanir. Því má svo bæta við að Benedikt hafði sem framsögumaður á ráðstefnum alltaf gott lag á því að gera hlutina áhugaverða, stutt í húmorinn, stundum örlítið gráan, en alltaf skemmtilegan.“

Finnur var ráðinn til Nýherja árið 2012: „Samstarf okkar Benedikts var með miklum ágætum. Sem formaður stjórnar veitti hann okkur stjórnendum félagsins víðtækt umboð til að gera nauðsynlegar breytingar til að rétta af rekstur og gengi félagsins. Um leið gætti hann aðhalds, bar gott skynbragð á reksturinn og helstu viðfangsefni. Þessi stuðningur Benedikts og stjórnar réði úrslitum fyrir viðsnúning í rekstri Nýherja á árunum eftir 2013.“

Finnur þekkir margar hliðar á Benedikt: „Ég veit það af fenginni reynslu að það eru margir kostir í fari Benedikts og færri ókostir. Hann er mjög hjálpsamur og gott að leita til hans með úrlausnarefni, eða bara í spjall, sem hann hefur gaman af. Benedikt er svo sanngjarn og heiðarlegur, mikill prinsipp maður og sem slíkur sérlega hreinskiptinn í samskiptum. Mín reynsla er sú að það sé alltaf hægt að treysta því að Benedikt segi sína meiningu og þannig veit maður ávallt hvar maður hefur hann.

Að hluta geta fyrrgreindir kostir Benedikts líka talist til galla. Það getur t.d. stundum sviðið undan beinskeyttum skilaboðum Benedikts og hann á það til að vera ekki að velta því of mikið fyrir sér ef hann strýkur fólki öfugt. En skilaboðunum er þá a.m.k. komið á framfæri, þeim fylgir uppbyggileg meining, og ef eitthvað þarf að laga, þá er það hægt.“