Ísland tækifæranna: ótímabundið dvalarleyfi

Stór hluti innflytjenda. EES-borgarar, hefur í reynd rétt til að dvelja á Íslandi ótímabundið. En staða hinna er í raun miklu veikari en hún var fyrir tuttugu árum.

Búið er að lengja biðtíma eftir ótímabundnu dvalarleyfi úr þremur í fjögur.

Þá veita ekki öll dvalarleyfi rétt til að fá ótímabundið dvalarleyfi. Staðan í dag er þessi:

Þessi leyfi telja inn í búseturétt:

  • Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar
  • Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki
  • Dvalarleyfi fyrir íþróttafólk
  • Dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar
  • Dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða
  • Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið

Þessi gera það stundum:

  • Dvalarleyfi vegna náms (ef menn klára framhaldsnám og fá vinnu sem sérfræðingar)
  • Dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða og trúboða (fyrir skráð trúfélög)

Þessi gera það ekki:

  • Dvalarleyfi vegna samninga Íslands við erlend ríki
  • Dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings
  • Dvalarleyfi vegna vistráðningar
  • Dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals
  • Dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals
  • Dvalarleyfi vegna sérstaks og lögmæts tilgangs
  • Bráðabirgðarleyfi

Best væri að við myndum fara til ástandsins eins og það var einu sinni: Að öll lögleg dvöl teldi til ótímabundins dvalarleyfis. Ef við nauðsynlega viljum takmarka réttinn við eitthvað ætti það takmarkast við au-pair leyfin og útsenda starfsmenn.

Þá yrði það algerlega að skaðlausu að stytta biðtímann úr fjórum árum í þrjú. Það myndi líka minnka skriffinnsku og álag á Útlendingastofnun.

Þá ætti að slaka á framfærsluviðmiðum dvalarleyfa. Framfærsluviðmiðin eru hugsuð til að innflytjandinn geti framfleytt sér sjálfur, en í einhverjum tilfellum (t.d. í tilfelli námsmanna) eru þau líklegast of há og auk þess hefur maður heyrt að stíf túlkun þeirra leiðir til þess að fólk með ekkert vesen lendir í vandræðum ef það verður tekjulítið yfir einhvern smá tíma.

Samantekt yfir tillögur

  • Öll lögleg dvöl telji inn í ótímabundið dvalarleyfi
  • Biðtími styttur úr fjórum árum í þrjú
  • Endurskoða kröfur um framfærsluviðmið