Ísland tækifæranna: vinnumarkaður

Aðgengi innflytjenda að íslenska vinnumarkaðnum mætti vera miklu betra. Ísland stendur enn lakast að vígi allra Norðurlanda í þeim samanburði.

Þessari umfjöllun verður skipt í þrennt:

  • Einkageirinn
  • Opinberi geirinn
  • Sjálfstætt starfandi

Hér verður fjallað um hvern þessara hluta og lagðar breytingar.

Einkageirinn

Byrjum á einkageiranum og byrjum á því sem er jákvætt. Á Íslandi er tiltölulega lítið um lög sem með sértækum hætti takmarka aðgengi útlendinga að tilteknum störfum í einkageiranum. Það eru engar sérstakar reglur, mér vitandi, um að lögmenn, blaðamenn eða atvinnubílstjórar þurfi að vera með íslenskan ríkisborgararétt. Sem er gott.

En hið almenna aðgengi útlendinga utan EES að vinnumarkaðnum í heild sinni er því miður ekki nægilega gott. Dvalar- og atvinnuleyfi eru veitt tímabundið til 1-2 ára í senn. Þá eru leyfin bundin við tiltekið starf hjá tilteknum vinnuveitanda.

Hér mætti hugsa sér ýmsar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem verið gætu til bóta.

Í fyrsta lagi mætti hugsa sér kerfi þar sem hægt væri að veita opið atvinnuleyfi innan ákveðinnar starfsstéttar. Dæmi: Í túristalöndum vantar til dæmis alltaf kokka. Kokkur sem kemur til Íslands um þessar mundir mun finna vinnu, við þurfum því ekki að binda atvinnuleyfi hans við tiltekinn veitingastað.

Nokkur lönd eru með slíka „jákvæða lista“, lista af starfaflokkum þar  sem gera má ráð fyrir að atvinnuleyfið verði nokkuð örugglega veitt.

Hér má finna dæmi um slíka lista:

DanmörkKanada

Þá mætti hugsa sér að í ákveðnum atvinnugreinum, þar sem sérhæft starfsfólk er sérstaklega eftirsótt (til dæmis í tækni- og vísindagreinum, en ekki bara) myndu dvalarleyfin gefa víðtæk mjög réttindi. Þar er oft um að ræða fólk sem tekur ákvörðun um að flytjast búferlum með alla fjölskylduna og vill síður gera það ef það heldur að það þurfi að flytja til baka vegna lagalegrar óvissu.

Frakkar bjuggu nýlega til slíkt dvalarleyfi, sem veitir fólki með meistaragráðu í tækni- og raungreinum 4 ára óbundin atvinnuréttindi ásamt því að gefa mökum þeirra sömu réttindi.

Opinberi markaðurinn

Ekki eru settar sérstakar kröfur á ríkisborgararétt hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Ríkið gerir hins vegar slíkar kröfur. Krafan um íslenskan/EES ríkisborgararétt er enn til staðar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þó að það sé reyndar tiltekið að það megi ráða aðra „þegar sérstaklega stendur á“.

Best væri einfaldlega að fella þessa kröfu burt (en hún myndi áfram gilda um embættismenn, s.s. dómara eða lögreglumenn). Það var raunar það sem þingmenn Viðreisnar lögðu til á seinasta þingi, að yrði gert.

Sjálfstætt starfandi

Byrjum á hinu jákvæða, hér á landi eru ekki settar neinar almennar eða sérstakar hömlur á atvinnurekstur eða verktöku útlendinga, hafi þeir að ótímabundið dvalarleyfi, eða séu EES-borgarar. Hins vegar eru lög um útlendinga sorglega skýr þegar kemur að réttindum fólks fyrstu árin:

Útlendingi er óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema viðkomandi sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Þessar reglur stafa eflaust af ótta við „gerviverktöku“, eru tiltölulega nýlegar, og allt of íþyngjandi.

Almennt er ekki gert ráð fyrir að útlendingar utan EES starfi sjálfstætt, séu atvinnurekendur eða fjárfestar, aðeins launamenn. Einhver bakdyraleiðir kunna að vera til staðar fyrir fólk frá löndum sem við höfum gert viðskipta- eða fríverslunarsamninga við. En fólk frá öllum öðrum löndum má ekki vera atvinnurekendur fyrstu árin. Sem er alger sóun á hæfileikum margra.

Best væri bara að leyfa útlendingum að vinna sem verktakar, og búa til sérstök dvalarleyfi fyrir fólk í atvinnurekstri, eins og Finnar hafa til dæmis gert.

Samantekt

Hér eru semsagt tillögurnar:

  1. „Jákvæður listi“ yfir starfstéttir þar sem vantar fólk.
  2. Sérfræðileyfi gefi víðtakari rétt.
  3. Burt með kröfuna um að ríkisstarfsmenn þurfi að vera með EES-ríkisborgararétt
  4. Heimila verktöku útlendinga.
  5. Búa til atvinnuleyfi fyrir atvinnurekendur/sjálfstætt starfandi.

Í næsta pistli verður fjallað um börn og fjölskyldusameiningar.

 

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. Greinin birtist á pawel.is 16. ágúst.