Jafnrétti í Landsrétti

Alþingi hefur nú samþykkt breytingar á lögum um dómstóla sem gefur hæfisnefnd leyfi til að meta hæfi umsækjenda um dómarastöður við hinn nýja Landsrétt, rétt eins og aðra dómstóla. Það er ekki hægt að árétta nægilega mikið hversu mikilvægt það er, að í Landsrétt veljist hæfar konur jafnt sem hæfir karlar.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sagði í ræðustól Alþingis þann 7. febrúar í svari við fyrirspurn Jón Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar: „Ég myndi hallast að því að lög sem almennt gilda í landinu gildi auðvitað um öll svið samfélagsins, þar með talið dómstóla.“ Þar var ráðherrann að ræða um jafnréttislög í tengslum við skipan dómara við Landrétt. Ég tek undir með ráðherra, að við hljótum að ganga út frá því að dómstólar og ráðherra sjálfur fari að jafnréttislögum þegar kemur að skipan dómara.

Mat á hæfi er að mörgu leyti huglægt og við slíkt mat er ekki óeðlilegt að fólk leiti í eigin reynsluheim, jafnt áþreifanlegan sem óáþreifanlegan. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem mikil áhersla var lögð á að í umræddri hæfisnefnd yrðu sem jöfnust kynjahlutföll og nú sitja þar 3 konur og 2 karlar. Þessi staðreynd, til viðbótar við jafnréttislög, hlýtur að leiða til þess að við getum endanlega kvatt þá tíma þegar karllæg sjónarmið voru allsráðandi við ráðningar dómara. Og í kjölfarið þá tíma þegar þau sömu sjónarmið skinu í gegn í mörgum dómum.

Við afgreiðslu málsins á Alþingi vorum við þingmenn Viðreisnar gagnrýndir af hluta stjórnarandstöðunnar fyrir að taka ekki undir tillögu þeirra um að árétta enn frekar að ráðherra skyldi „gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“ Þar var það einfaldlega mat okkar að jafnréttissjónarmið við mönnun hæfisnefndar og jafnréttislög dygðu til. Ef svo reynist ekki vera þá þurfum við öll, hvar í flokki sem við stöndum, að endurskoða hvernig við nálgumst jafnréttismál!