Landbúnaður 21. aldarinnar

Staðan í dag er þannig að það fer allt of mikil orka og athygli í stagl milli þeirra sem vilja engu breyta og þeirra sem vilja öllu breyta. Til þess að sjá tækifærin sem blasa við okkur þurfum við að staldra við, taka skref aftur á bak, og beina orkunni í að hugsa íslenskan landbúnað inn í framtíðina.

Tækifæri

Áhugi á Íslandi er gríðarmikill um þessar mundir. Um sveitirnar keyra hundruðir þúsunda forvitinna, erlendra ferðamanna sem ólmir vilja kynna sér og kaupa íslenskar vörur. Í mínum huga er alveg kýrskýrt að ferðamenn eru alveg jafn mikilvægir neytendur íslenskra landbúnaðarafurða og við Íslendingar, þeir eru meira að segja mun fleiri. Í þessu felast tækifæri til nýsköpunar í innlendri markaðssetningu og sóknarfæri í alþjóðlegri markaðssetningu og vöruþróun sem við eigum að grípa. Ferðamenn eru neytendur sem við verðum að kynna fyrir afurðunum okkar með það að markmiði að þeir neyti þeirra líka þegar þeir fara aftur heim til sín. Við eigum að markaðssetja afurðirnar okkar með þetta í huga og beina þeim til ferðamanna og inn á erlenda gæðamarkaði. Við eigum að hugsa stórt! Hvenær hafa viðlíka tækifæri blasað við íslenskum landbúnaði? Sennilega aldrei.

Aukið frelsi

Til þess að auðvelda bændum að nýta þessi sóknarfæri verður að einfalda kerfið, einfalda regluverkið og auka frelsi bænda til að bregðast við eftirspurn. Það á t.d. að vera sjálfsagt að geta selt ferðamönnum afurðir beint frá býli og kerfið á styðja við þá bændur sem hafa áhuga lífrænni ræktun, að breyta yfir í lífræna framleiðslu. Við eigum að auka frelsi bænda til athafna. Með auknu athafnafrelsi, bættu aðgengi að erlendum mörkuðum, einföldun stuðningskerfisins og regluverki sem styður nýsköpun skapast aðstæður til að grípa þessi tækifæri og blása til nýrrar sóknar í landbúnaði. Og fyrir þessu talar Viðreisn.

Óbilandi trú

Virk samkeppni er lykilforsenda þess að atvinnugreinar þróist og dafni. Landbúnaður er þar engin undantekning. Markviss lækkun innflutningshindrana – í áföngum – er skynsamlegasta leiðin að því marki, en aðstæður til að ráðast í slíkar breytingar hafa sennilega aldrei verið hagstæðari. Íslenskar landbúnaðarvörur eru hágæðavörur og kemur því ekki á óvart að rannsóknir, m.a. á neyslu grænmetis, sýna að fólk er tilbúið að greiða hærra verð fyrir innlenda framleiðslu. Það er til marks um óbilandi trú og metnað fyrir hönd íslensks landbúnaðar að vilja skapa honum umhverfi til að grípa tækifæri 21. aldarinnar. Við í Viðreisn höfum metnað og kjark til nýta þær kjöraðstæður sem skapast hafa til að ráðast í nauðsynlegt umbótastarf öllum til heilla. Við getum gert betur og tækifærin eru núna – grípum þau!