Lánveiting með peningaprentun

Í nýlegri skýrslu um pen­inga­stefnu er kafli um mynt­ráð þar sem kostir og ókostir við mynt­ráðs­fyr­ir­komu­lag eru tíund­að­ir. Sví­arnir Fred­rik NG And­ers­son og Lars Jon­ung mæla sterk­lega fyrir mynt­ráði sem val­kost í pen­inga­stefnu lands­ins í sinni grein­ar­gerð. Höf­undar skýrsl­unnar kom­ast að annarri nið­ur­stöðu. Myntráðs­fyr­ir­komu­lag skapi óá­sætt­an­lega áhættu fyrir fjár­mála­stöð­ug­leika. Ástæðan er einkum sú að lán­veit­andi til þrauta­vara er ekki til­tækur fyrir íslenskar fjár­mála­stofn­anir í mynt­ráðs­fyr­ir­komu­lagi.

Aug­ljós­lega er hægt að tryggja þrauta­vara­lán með marg­vís­legum hætti þótt það sé ekki talið meðal verk­efna hefð­bund­ins mynt­ráðs. Mynt­ráð getur haft umfram­forða af gjald­eyri sem beita má við lausa­fjár­stýr­ingu banka­kerf­is­ins og rík­is­sjóður getur aflað láns­fjár með samn­ingum um lána­línur eða dregið á t.d. kvóta hjá AGS ef nauð­syn­legt er talið að bjarga banka í vanda. Sví­arnir leggja til að stöð­ug­leika­sjóður gæti haft slíkt hlut­verk.

Sá lán­veit­andi til þrauta­vara sem höf­undar skýrsl­unnar telja svo nauð­syn­legan fyrir fjár­mála­stöð­ug­leika, og mynt­ráðs­fyr­ir­komu­lag býður ekki upp á, hlýtur því að vera nokkuð sér­staks eðl­is. Hér um ræðir aðila sem getur prentað í orðs­ins fyllstu merk­ingu ótak­markað magn af pen­ingum til að leggja til í banka sem verður fyrir áhlaupi. En úti­lokun á þessum mögu­leika er einmitt ein af grunda­vallar hug­myndum á bak við mynt­ráðs­fyr­ir­komu­lag sem leið til að tryggja verð­gildi pen­inga. Ein­faldasta leiðin til að veita traustan gjald­miðil (e. sound money), er að bak­tryggja pen­inga með erlendum gjald­miðli svo sem evru eða dal líkt og gert var með gull­fæt­inum á sínum tíma. Með traustum gjald­miðli er átt við pen­inga sem fólk treystir að haldi kaup­mætti sínum gegnum þykkt og þunnt.

Pen­ingar eru ávísun á þjóð­ar­fram­leiðslu. Í litlu hag­kerfi er þjóð­ar­fram­leiðslan fábreytt og því þarf inn­flutn­ingur að sjá fyrir flestum þörfum neyt­enda. Öðru máli gegnir um risa­hag­kerfi eins og hið banda­ríska. Umheim­ur­inn hefur nán­ast óbilandi trú á fram­leiðslu­getu Banda­ríkj­anna og hefur tekið við, fram að þessu að minnsta kosti, öllum ávís­unum á banda­ríska hag­kerfið með glöðu geði. Stór­felld lausa­fjár­fyr­ir­greiðsla banda­ríska (og evr­ópska) seðla­bank­ans hefur haft til­tölu­lega lítil verð­bólgu­á­hrif enn­þá. Lágir vextir og mikið laust fé hefur aftur á móti auð­veldað mikla hækkun hluta­bréfa og leitt til meiri skulda­söfn­unar á heims­vísu en áður hefur sést.

Ekki er hægt að heim­færa aðstæður í risa­hag­kerfum á lítil opin hag­kerfi eins og það íslenska. Bara mögu­leik­inn á mik­illi útgáfu ótryggðra seðla grefur undan verð­gildi og trausti á gjald­miðl­in­um. Traustur gjald­mið­ill getur aldrei verið lak­ari und­ir­staða fyrir fjár­mála­stöð­ug­leika en veikur og og ótrú­verð­ugur gjald­mið­ill.

Að öðru leyti er lítið nýtt í umfjöllun skýrslu­höf­unda um jákvæðar og nei­kvæðar hliðar mynt­ráða og sumt orkar tví­mælis í túlkun þeirra eins og geng­ur. Ógetið er um einn stóran kost mynt­ráðs sem vert er að hafa í huga. Í mynt­ráðs­fyr­ir­komu­lagi er verð­trygg­ing láns­fjár sjálf­krafa óþörf þar sem pen­inga­legar eignir eru óbeint geng­is­tryggð­ar. Sem dæmi um óheppi­leg áhrif verð­trygg­ingar er að síð­ustu árin hefur íbúða­verð hækkað mjög á höf­uð­borg­ar­svæð­inu en lítið sem ekk­ert á lands­byggð­inni. En verð­tryggð lán hafa hækkað hjá íbúum lands­byggð­ar­innar miðað við vísi­tölu, eins og hjá íbúum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, þótt eignir hafi ekki hækk­að. Í mynt­ráðs­fyr­ir­komu­lagi væri slíkt misvægi ekki fyrir hendi.

Ótti skýrslu­höf­unda við að fjár­mála­stöð­ug­leika sé sér­stak­lega ógnað í mynt­ráðs­fyr­ir­komu­lagi er byggður á mis­skiln­ingi. Eftir stendur að upp­taka mynt­ráðs getur tryggt efna­hags­legar fram­farir með mun ein­fald­ari og ódýr­ari hætti en núver­andi pen­inga­stefna. Besta fyr­ir­komu­lag pen­inga­mála feng­ist þó með fullri aðild að ESB og inn­göngu í evru­svæð­ið.

Höfundur er hagfræðingur. Greinin birtist á Kjarnanum þann 3.8.2018.