Lýðskrum til hægri og vinstri

Benda má á aðra tegund af popúlisma, sem lengi hefur reynst stjórnmálamönnum vel. Samfélaginu er skipt upp í gott fólk og vont fólk. Vonda fólkið getur verið af ýmsu tagi. Það getur verið elítan, eina prósentið, stjórnvöld, innflytjendur, menningarvitar, stórmarkaðirnir, trúfélög, bankarnir. Allt spillta forréttindaliðið. Góða fólkið er allur almenningur og stjórnmálamaðurinn sem talar máli hinna óspilltu.

Popúlismi er ekki nýr af nálinni, líklega jafngamall stjórnmálunum. Alltaf hafa verið til stjórnmálamenn sem telja sig geta veitt almenningi allt fyrir ekkert. Lægri skattar og meiri útgjöld hljóma eins og ljúfasta tónlist í eyrum kjósenda. Við borgum seinna, eða látum aðra borga, er viðkvæði popúlistanna. Hrægammana, ríka fólkið, börnin eða Mexíkó. Á tímum ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens árið 1981 tók ríkið erlent kúlulán á 14,5% vöxtum, lán sem átti að greiða upp eftir 35 ár og var í umræðunni almennt kallað barnalánið. Börnin máttu borga.

Vinstri hreyfingin – græn framboð setti fram tillögur um útgjaldaaukningu ríkissjóðs upp á 334 milljarða króna síðastliðið vor. Þó að þingmenn flokksins séu allra manna málglaðastir í pontu var því aldrei svarað hvernig ætti að fjármagna þessi útgjöld, nema hvað skattar á almenning áttu ekki að hækka. Einhverjir aðrir áttu að borga. Kjósendur sáu reyndar í gegnum þennan málflutning því líklega hefur enginn flokkur tapað jafnmiklu fylgi í kosningabaráttunni og VG haustið 2017.

Fleiri flokkar stunda það að lofa upp í annarra ermar. Þeir segjast ætla að útrýma fátækt með einu pennastriki. Nánast allir flokkar hafa verið á móti málum í stjórnarandstöðu en tryggja svo innleiðingu þeirra þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn eða öfugt.

Benda má á aðra tegund af popúlisma, sem lengi hefur reynst stjórnmálamönnum vel. Samfélaginu er skipt upp í gott fólk og vont fólk. Vonda fólkið getur verið af ýmsu tagi. Það getur verið elítan, eina prósentið, stjórnvöld, innflytjendur, menningarvitar, stórmarkaðirnir, trúfélög, bankarnir. Allt spillta forréttindaliðið. Góða fólkið er allur almenningur og stjórnmálamaðurinn sem talar máli hinna óspilltu.

Popúlistanum finnst ekkert að því að tala um að skattar skuli vera almennir á sama tíma og hann predikar að „góðar atvinnugreinar“ eins og fjölmiðlar eða ferðaþjónusta borgi lægri skatta en aðrir.

Eitt versta dæmið um misbeitingu popúlisma í íslenskri pólitík voru réttarhöldin gegn Geir Haarde. Samflokksmenn Geirs hafa nú leitt fimm af þeim sem stóðu að ákærunni á hendur honum í æðstu valdastóla á Íslandi.

Þverstæðan er sú að stundum er málpípan hluti af hinum útvöldu, hópnum sem hún talar gegn. Menn sem segjast vera rödd guðs eru yfirleitt taldir galnir, en þeir sem segjast vera rödd fólksins, eins og Trump, tala oft með svipuðum hætti. Bernie Sanders og fylgismönnum hans fyndist eflaust afleitt að vera líkt við Trump, en Sanders er dæmigerður vinstri lýðskrumari.

Íslenska orðið lýðskrum er miklu gagnsærra hugtak en popúlismi. Því miður var helsta niðurstaða síðustu kosninga að lýðskrum og sérhagsmunastefna náðu undirtökum. Vonandi tekst að lágmarka skaðann af því.

Birtist í Morgunblaðinu 30. janúar 2018.