Miðaldra karlmaður hrósar ungri konu

„Ég þarf að segja þér eitt mjög mikilvægt,” sagði maður einn á fundi í kjördæminu. „Takk fyrir að velja stjórnmál sem starfsvettvang”.

Eftir fundinn settist ég inn í bíl, staldraði um stund og velti þessu fyrir mér. Ég var honum þakklát, enda tel ég mjög mikilvægt að ungt fólk láti til sín taka í stjórnmálunum og þá sérstaklega ungar konur. Það gladdi mig að hann, eldri maður, tæki undir þetta sjónarmið. Þó ég sé honum þakklát, þá velti ég líka fyrir mér hvort miðaldra karlmaður fengi sérstakt hrós fyrir þátttöku í stjórnmálum. Líklega ekki.

Verandi ung kona, móðir, að feta mín fyrstu spor í stjórnmálum, eru þetta málefni sem eru mér mjög hugleikin. Ég hef sterkar skoðanir á því hvernig bæta megi samfélagið og skýra sýn um hlutverk stjórnmálanna. Ég vil taka þátt í því að bæta lífskjör á Íslandi, gera landið allt að aðlaðandi stað fyrir komandi kynslóðir.

Líklega er ég ekki eina unga móðirin sem hef þessa skoðun en því miður erum við of fáar sem stígum það skref að taka þátt í stjórnmálum. Til þess að stjórnmálin verði aðlaðandi umhverfi fyrir ungt fólk þarf nefnilega ákveðna hugarfarsbreytingu. Aðgengið þarf að vera jafnt fyrir bæði kynin, umræðuhefðinni þarf að breyta.

Þetta var ástæðan fyrir því að ég gekk til liðs við Viðreisn og stíg mín fyrstu skref í stjórnmálum í flokki þar sem jafnrétti er leiðarstef í allri stefnumótun. Þótt flokkurinn sé ekki kominn á þing er fyrsta þingmálið tilbúið, að uppræta óútskýrðan kynbundinn launamun. Það er enda óásættanlegt að við konur stöndum frammi fyrir því í daglegu lífi að þegar tekið hefur verið tillit til allra málefnalegra þátta sem skilja á milli starfsmanna — vinnustundir, menntun, reynsla og geta — stendur eftir að við fáum að meðaltali 10% lægri laun en karlar fyrir sama starf. Þetta er ekki fyrsta þingmálið af tilviljun. Í Viðreisn eru konur 50% frambjóðenda og 50% oddvita lista. Jafnrétti í verki er ein af stóru kerfisbreytingunum sem Viðreisn beitir sér fyrir.

Ég er í framboði fyrir Viðreisn vegna þess að ég vil geta haft áhrif á mótun íslensk samfélags til framtíðar og ég tel Viðreisn vera það afl sem kemur nauðsynlegum breytingum til framkvæmda. Ég vil búa í samfélagi þar sem frjálslyndi og jafnrétti er haft að leiðarljósi og að Ísland verði eftirsóknarverður staður að búa á.

 

Lee Ann Maginnis

Höfundur skipar 2. sætið á lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.