Þar sem bleikur fíll hittir strút fyrir

Það verður seint sagt að umræða um Evr­ópu­mál hafi verið áber­andi hér á landi und­an­farin miss­eri. Frá síð­ustu alþing­is­kosn­ingum hefur samt ýmis­legt gerst í henni Evr­ópu. Tíðar fréttir ber­ast af vand­kvæðum  Breta vegna fyr­ir­hug­aðrar útgöngu úr Evr­ópu­sam­band­inu en að sama skapi jákvæðar fréttir um stöðugan hag­vöxt innan sam­bands­ins og auk­inn stuðn­ing við Evr­ópu­sam­starfið á meg­in­land­inu. Kynntar hafa verið hug­myndir um fram­tíð­ar­þróun sam­bands­ins og innri mark­að­ar­ins. Lítið fer hins vegar fyrir umræðu um hvernig þessi atvik hafa áhrif á íslenskan veru­leika. Vissu­lega hafa sumir ráða­menn reynt að gera því skóna að Brexit við­ræð­urnar feli ein­hvers konar bull­andi tæki­færi í sér fyrir íslenska þjóð. Það hefur þó farið lítið fyrir því að menn séu beðnir um að útlista nánar í hverju þessi tæki­færi fel­ast. 

Það er nán­ast orðin við­tekin venja hér á landi er líður að kosn­ingum að menn dæsi og segi að Evr­ópa sé bara ekki á dag­skrá, ekki núna. Ef það svar dugar ekki, kemur iðu­lega í kjöl­farið að við séum svo vel sett með EES samn­ing­inn að ekki þurfi að ræða þessi mál frek­ar. Er það svo? Eru kannski Evr­ópu­málin bleiki fíll­inn í her­berg­inu? 

Á und­an­förnum árum höfum við séð hvernig EES samn­ing­ur­inn er að þró­ast í átt til auk­innar sam­ræm­ingar á reglum innri mark­að­ar­ins og fram­sals fram­kvæmda­valds til sjálf­stæðra ­eft­ir­lits­stofn­ana. Reglur um evr­ópsk fjár­mála­eft­ir­lit sem færa evr­ópskum stofn­unum beint og óbeint eft­ir­lits­vald með íslenskum fjár­mála­mark­aði eru nær­tækt dæmi. Nú er það svo að mati und­ir­rit­aðrar að hér er um afar mik­il­vægar reglur að ræða sem eru til bóta bæði fyrir íslenska neyt­endur og íslensk fjár­mála­fyr­ir­tæki. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að þessi þróun reynir á þan­mörk íslenskrar stjórn­skip­un­ar. Í lýð­ræð­is­sam­fé­lagi þarf að ræða slíka þró­un, ekki bara í upp­hrópun­ar­stíl part úr degi á Alþingi. 

Nýverið flutti for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands ræðu í Flór­ens­borg sem beðið hafði verið með nokk­urri eft­ir­vænt­ingu enda var gerði hún þar grein fyr­ir fram­tíð­ar­á­formum Breta í kjöl­far útgöngu úr Evr­ópu­sam­band­inu. Í ræð­unni kom skýrt fram að það væri úti­lokað að EES samn­ing­ur­inn kæmi til greina sem lausn á fram­tíð­ar­sam­bandi Breta og ESB. Ástæðan væri sú að í því fyr­ir­komu­lagi fælist lýð­ræð­is­halli sem ekki væri ásætt­an­legur fyrir Breta. Bretar yrðu að taka upp allar reglur innri mark­að­ar­ins án þess að koma að gerð þeirra. 

Þessi orð for­sæt­is­ráð­herr­ans breska hljóta að vekja okkur til umhugs­un­ar. Flest erum við sam­mála því að EES samn­ing­ur­inn hafi fært okkur bæði efna­hags­lega vel­sæld og aukin rétt­indi. Sam­keppn­is­regl­ur, neyt­enda­vernd, umhverf­is­vernd, rétt­indi á vinnu­mark­aði og svo margt fleira í okkar lagaum­hverfi í dag á rætur að rekja til EES samn­ings­ins. Þá myndu fæstir vilja gefa eftir rétt­inn til að ferð­ast óhindrað í Evr­ópu, taka þar upp búsetu vegna náms eða starfa og eiga hindr­un­ar­laust við­skipti. 

Það er hins vegar sjálf­sögð og eðli­leg krafa að tekin sé umræða um hvort óhjá­kvæmi­legur lýð­ræð­is­halli EES samn­ings­ins sé ásætt­an­legur með til­liti til hags­muna allra, ekki bara sumra. Vega og meta hvort það kunni að þjóna almanna­hags­munum betur að ganga alla leið með fullri aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Hið minnsta verður að gefa almenn­ingi kost á því að taka afstöðu til þess hvort málin verði könnuð til hlít­ar. 

Ann­ars erum við bara eins og strút­ur­inn sem rekur höf­uðið þráð­beint í sand­inn þegar bleiki fíll­inn birt­ist. 

Höf­undur er stjórn­ar­maður í Já Ísland og vara­þing­maður Við­reisn­ar. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 4. október 2017.