Tuttugu og sex milljarða sparnaður

Ný skýrsla segir að 372 millj­arða þurfi til þess að koma innviðum lands­ins í gott og eðli­legt horf. Það eru ekki nein­ir smá­aurar og eins gott að standa vel að verki. Með nýjum vinnu­brögðum mætti spara allt að 26 millj­örðum í bein­hörðum pen­ingum við þessi verk­efni.

Félag ráð­gjaf­ar­verk­fræð­inga og Sam­tök iðn­að­ar­ins kynntu tíma­móta­skýrslu á fundi í Hörpu í gær. Þar er fjallað um inn­viði, ástand og fram­tíð­ar­horf­ur. Skýrslan sýnir svart á hvítu að margt er óunnið og brýnt að taka til hend­inni á mörgum svið­um. Þakka ber fram­takið og fag­lega nálg­un.

Mat skýrslu­höf­unda er að ef koma eigi öllum innviðum í góða stöðu, þ.e. í ástand þar sem staðan er metin góð og eðli­legt við­hald þurfi til þess halda þeirri stöðu, þurfi sam­tals 372 millj­arða.

Gömul saga og ný

Það blasir við að til þess að ná þessu marki þarf tíma, fé, fram­sýni og skipu­lag. Ganga þarf þannig til verks að öll þau verk­efni sem ráð­ist er í skili hámarks árangri, hvort sem litið er til nyt­semi, arð­semi, gæða, verðs, verk­tíma eða for­gangs­röð­un­ar.

Þrátt fyrir allt renna að jafn­aði miklir fjár­munir til opin­berra fjár­fest­ing­ar­verk­efna á ári hverju. Nýja skýrslan sýnir svo ekki verður um villst að gera verður enn betur á kom­andi árum. Dæmi um slíkar fjár­fest­ingar eru veg­ir, brýr, virkj­an­ir, dreifi­kerfi, flug­vell­ir, bygg­ingar af ýmsu tagi, skólar og heil­brigð­is­stofn­an­ir. 

Það er gömul saga og ný að allt of mörg slík verk­efni rísa ekki undir þeim kröfum sem til þeirra hafa verið gerðar og þau upp­fylla ekki þær þarfir sem að var stefnt. Nægir að nefna að kostn­aður fer úr bönd­um, fram­kvæmda­tími verður miklu lengri en til stóð og oft veita þau ekki þann ávinn­ing sem að var stefnt.

Skýr­ingar á þessu eru örugg­lega marg­vís­legar og margar þeirra sam­verk­andi. Má nefna að þættir eins og póli­tískt und­ir­bún­ings­ferli, þarfa­grein­ing, ferli, for­sendur og skil­yrði sem þarf að upp­fylla til þess að ráð­ist sé í verk­efni eru ófull­nægj­andi. Þá má nefna slæ­lega stjórn og eft­ir­lit þegar verk­efni er á fram­kvæmda­stigi. Stundum er greini­legur skortur á hæfni og þekk­ingu, skýrar reglur eru ekki fyrir hendi og óhóf­leg bjart­sýni tekur völdin auk fjölda þátta sem koma við sögu þegar ráð­ist er í verk­efni á vegum hins opin­bera og almannafé er til ráð­stöf­un­ar.

Ný nálgun nauð­syn­leg

Því fer víðs fjarri að vanda­mál af því tagi sem hér hafa verið rakin séu bundin við Ísland. Þau er víða að finna. Það er líka fjarri því að íslensk stjórn­völd og þeir sem koma að opin­berum fjár­fest­ing­ar­verk­efnum geri ekki margt vel og að ekki sé víða að finna reglu­verk og ferla. Það er hins vegar hægt að gera miklu betur og það er eftir miklu að slægj­ast ef vel tekst til um úrbætur á þessu sviði, ekki síst í und­ir­bún­ings­ferli verk­efna. Það sýnir reynsla ann­arra þjóða glöggt.

Á síð­asta þingi lagði grein­ar­höf­und­ur, ásamt öðrum þing­mönnum Við­reisn­ar, fram til­lögu til þings­á­lykt­unar til þess að bregðast við þessum vanda. Þar er lagt til að gerðar verði við­eig­andi ráð­staf­anir til að tryggja að þegar um umfangs­mikil og kostn­að­ar­söm opin­ber fjár­fest­ing­ar­verk­efni er að ræða sé trygg­ing gæða, hag­kvæmni og skil­virkni slíkra verk­efna ávallt höfð að leið­ar­ljósi allt frá hug­mynda­stigi til fram­kvæmda og út áætl­aðan líf­tíma þeirra.

Góðar fyr­ir­myndir

Mörg lönd hafa tekið þessi mál föstum tökum og greini­legur árangur komið í ljós. Hér má sér­stak­lega nefna Nor­eg, einkum reglu­verk norska fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins Ordn­ing for kva­litets­sikring av store statlige in­vester­in­ger og sam­starfs­verk­efn­ið Concept sem rekið er af NTNU (Nor­ges teknisk-nat­ur­vit­en­skapelige uni­versitet). Um 16 ár eru frá því að Norð­menn hófu sína vinnu. Þar benda rann­sóknir til þess að af 40 meiri háttar fjár­fest­ing­ar­verk­efn­um, sem ráð­ist hefur verið í og aðferða­fræð­inni verið beitt, hafi 80% verk­efna stað­ist ytri ramma kostn­að­ar- og tíma­á­ætl­ana. Enn fremur hafi þessum verk­efnum verið skilað með um 7% lægri með­al­til­kostn­aði en áætlað var. Norð­menn meta það svo að hið nýja fyr­ir­komu­lag hafi valdið algjörum við­snún­ingi þar í landi og nú sé ekki lengur meg­in­regla að verk­efni fari úr bönd­um. 

Félag ráð­gjaf­ar­verk­fræð­inga og Sam­tök iðn­að­ar­ins hafa einmitt leitað í smiðju til Norð­manna um fyr­ir­mynd að sinni skýrslu. Það ættu stjórn­völd einnig að gera. Tak­ist að ná þeim árangri sem orðið hefur í Nor­egi má ætla að beinn fjár­hags­legur sparn­aður gæti numið 26 millj­örðum af þeim 372 sem hin nýja skýrsla telur þörf fyr­ir. Það eru heldur engir smá­aurar, auk alls ann­ars ávinn­ings sem fylgja aðferða­fræði Norð­manna.

Menntun og rann­sóknum á sviði verk­efna­stjórn­unar og verk­efna­stjórn­sýslu hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á alþjóða­vísu. Hér­lendis á nám á háskóla­stigi í verk­efna­stjórnun sér frekar stutta sögu en slíkt nám er nú í boði við Háskól­ann í Reykja­vík til MPM-gráðu (Master of Project Mana­gement) og við Háskóla Íslands til MS-gráðu. Mik­il­vægt er að efla rann­sóknir og miðla reynslu og þekk­ingu á svið­inu til hags­bóta fyrir sam­fé­lagið allt.     

Það þarf að byrja strax

Mik­il­vægt er að líta á þetta sem við­var­andi ferli úrbóta og lær­dóms sem leiðir hægt og bít­andi til árang­urs. Þetta er alls ekki átaks­verk­efni sem hægt er að ljúka á skömmum tíma. Þess vegna þarf að hefj­ast handa án taf­ar.

Þings­á­lykt­unin var ekki flók­in:

„Al­þingi ályktar að fela fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra að útfæra og leggja fram frum­vörp og und­ir­búa reglu­gerðir sem hafa það að mark­miði að tryggja gæði, hag­kvæmni og skil­virkni opin­berra fjár­fest­inga allt frá hug­mynda­stigi til fram­kvæmda og út ætl­aðan líf­tíma þeirra. Ráð­herra skipi fimm manna starfs­hóp til þess að stofna til form­legs sam­starfs­vett­vangs stjórn­valda, atvinnu­lífs og fræða­sam­fé­lags um gerð ramma­á­ætl­ana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekk­ingu og færni og efla rann­sóknir á sviði gæða, hag­kvæmni og skil­virkni opin­berra fjár­fest­inga. Ráð­herra leggi fram og kynni Alþingi til­lögur sínar eigi síðar en 1. mars 2018.“

Mik­il­vægt er að taka þessi mál föstum tök­um. Án vafa mun arður sam­fé­lags­ins af þeirri vinnu og fjár­munum sem verður varið til úrbóta á þessu sviði skila sér marg­falt til baka með betri árangri og hag­kvæm­ari verk­efn­um.

Höf­undur er þing­maður Við­reisnar í suð­vest­ur­kjör­dæmi. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 6. október 2017.