Umhverfismál og hjól atvinnulífsins

Við undirritun og staðfestingu á Parísarsamkomulaginu um takmörkun útblásturs á gróðurhúsalofttegundum töluðu fulltrúar Íslands fjálglega um góða frammistöðu landsins í umhverfismálum og gáfu fögur fyrirheit um framtíðina í því efni. Á sama tíma var verið að reisa eða veita starfsleyfi fyrir nokkur kísilver hérlendis sem kalla á stórfellda aukningu útblásturs á gróðurhúsalofttegundum auk innflutnings og brennslu á um milljón tonnum af kolum og viðarkurli gangi áætlanir eftir. Hætt er við að hugur hafi heldur ekki fylgt máli hjá leiðtogum annarra þjóða við undirskrift Parísarsamkomulagsins. Ný stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa reyndar hafnað niðurstöðum vísindarannsókna á áhrifum útblásturs af mannavöldum og hafa ekki áhuga á takmarka vinnslu á jarðefnaeldsneyti.

Geta stjórnvöld, hvar í landi sem er, staðið gegn kröfum atvinnulífsins um orku og  eldsneyti til að viðhalda hagvexti og atvinnustigi til framtíðar? Svarið við þessu virðist vera nei, það bendir ekkert til þess að hjól atvinnulífsins verði stöðvuð til að ná fram markmiði um að halda hitastigshækkunum innan við tvær gráður þrátt fyrir þann góða vilja sem birtist í Parísarsamkomulaginu.

Fyrir nokkur þúsund árum var Sahara eyðimörkin gróðursæl vin. Ástæðan var meiri úrkoma vegna hlýinda sem stöfuðu þó ekki af mannavöldum heldur því að jörðin var næst sólu um hásumar á norðurhveli en ekki fjærst sólu eins og nú (deMenocal, 2000). Þótt margt sé á huldu um áhrifavalda loftslagsbreytinga sýnir sagan að tiltölulega litlar meðalhitastigsbreytingar tengjast gjarnan miklum sveiflum og snöggum (á fáum áratugum) á loftslagi og gróðurbeltum einkum á norðurhveli.

Í þessu ljósi þarf að undirbúa aðgerðir til að takast á við afleiðingarnar af verulegri hækkun hitastigs á næstu áratugum.  Þær sviðsmyndir sem dregnar hafa verið upp eru ískyggilegar svo ekki sé meira sagt. Hækki meðalhitastig fyrir næstu aldamót um fjórar gráður eins og allt stefnir í mun sjávarborð hækka um hálfan til einn metra auk verulegra tilfærslu á úrkomu- og loftslagsbeltum (WB 2012). Þetta þýðir að búsetusvæði hundruða milljóna manna munu skerðast með tilheyrandi fólksflótta og hungursneyðum. Flóttamannavandinn vegna Sýrlandsstríðsins verður barnaleikur hjá því sem mun gerast á næstu áratugum vegna loftslagsbreytinga.

Hafi Íslendingar áhuga á að standa við fyrirheit um minnkun útblásturs ætti að afturkalla starfsleyfi mengunarverksmiðja og sleppa því að endurnýja orkusamninga við álver. Með tengingu við Evrópu væri hægt að selja umframorku sem losnaði við slíkt. Jafnframt ber að hrinda í framkvæmd hugmyndum um rafvæðingu bíla, landgræðslu og fl. sem rætt hefur verið. Lítið efnahagslegt vit hefur verið í stóriðjustefnunni fram að þessu og ávinningurinn í engu samræmi við fjárfestingu. Það eru helst verktakar og verkfræðistofur sem hafa haft hagnað af atvinnu við uppbyggingu virkjana og iðjuvera. Óbættar eru óásættanlegar skemmdir á náttúru landsins.

Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir hinu versta. Fyrsta skrefið er að skipa hópa sérfræðinga til að meta annarsvegar áhrif verulegrar hitastigshækkunar á veðurfar og gróðurfar og hins vegar áhrif súrnunar hafsins ásamt hækkunar hitastigs á lífríki sjávar. Hvenær verða þessi áhrif til þess að breyta nýtingarmöguleikum fiskistofna? Tímanlegt mat á slíkum þáttum gerir kleyft að undirbúa næstu kynslóð til að bregðast við ógnum vegna loftlagsbreytinga af mannavöldum.  

 

Heimildir:

P. deMenocal et.al. Abrupt onset and termination of the African humid period: rapid climate responses to gradual insolation forcing, Quarterly Scence Reviews 19 (2000), 347-361.

 Potsdam Institue: Turn Down the Heat, Why a 4° Warmer World Must be Avoided. World Bank, 2012.[ http://www.worldbank.org/en/topic/climatechange/publication/turn-down-the-heat]