Verum opin

Það er mikilvægt að læra af öðrum en ekki síður mikilvægt að vera opin fyrir því að deila með öðrum því sem við gerum vel og einkennir okkur.

Ég fékk tækifæri til að taka til máls á tveimur fundum erlendis fyrir skömmu og mig langar að deila með ykkur dæmum um það hvernig við getum nýtt alþjóðasamstarf bæði til hagsmunagæslu fyrir Ísland en líka til að kynna menningu lands og þjóðar.

Á fundi Norðurlandaráðs fyrir nokkru ræddi ég um mikilvægi fjölþjóðasamstarfs gegn mansali. Það er mikilvægt málefni í sjálfu sér en fyrst við nutum þjónustu túlka þá nýtti ég líka tækifærið og tók til máls á íslensku. Íslenskan er nefnilega partur af því sem að við eigum að kynna og miðla á alþjóðavettvangi. Hún er einstök og samgróin menningu okkar og sjálfsmynd.

Þá sótti ég þingmannaráðstefnu um utanríkis- og öryggismál ESB og vakti þar athygli á mikilvægi þess að konur séu þátttakendur í umræðum og ákvarðanatöku um varnar- og öryggismálum. Ísland nýtur virðingar og það er litið til okkar þegar kemur að baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og við eigum því að nýta hvert tækifæri til að kynna okkar málstað í þeim efnum. Þannig byggjum við upp jákvæða ímynd landsins og þannig getum við haft jákvæð áhrif langt út fyrir landsteinana!

Nú er tekið að vora og ferðamenn streyma á Suðurlandið. Tölum við þá um íslenskuna, segjum „Góðan daginn“, „takk“ og „bless“, kynnum þeim sérstöðu lands og þjóðar. Þannig erum við öll þátttakendur í hagsmunagæslu fyrir Ísland á alþjóðavettvangi.

Greinin birtist fyrst í Suðra.