Víða komið við. Sjötta vikan í fjármálaráðuneytinu (BJ)

Verkefnin í fjármálaráðuneytinu eru fjölmörg og dagskráin þéttskipuð frá morgni til kvölds. Ég get ekki neitað því að mér finnst þetta mjög skemmtilegt, sannast sagna varla hægt að segja að upp renni leiðinlegt andartak.

Í lífinu skiptast á skin og skúrir. Á föstudag í liðinni viku var Ólöf Nordal borin til grafar. Ólöf var gegnheil kona og henni mátti treysta í stóru sem smáu. Það er afar mikilvægt fyrir þjóðina að til pólitískrar forystu veljist traust og gott fólk og skiptir þá engu hvort um er að ræða samherja eða andstæðinga. Þess vegna er mikill missir að mannkostakonu eins og Ólöfu úr forystu stjórnmálanna.

Þegar ég settist á þing í haust vonaðist ég til þess að ná að vinna með Ólöfu. Hún var einn þeirra þingmanna sem ég þekkti vel og mat mikils. Því miður urðu örlögin önnur, en mér þótti vænt um að hún skyldi koma á móttöku forseta Íslands á Bessastöðum 1. desember og við hjón hittum hana þar. Þá þegar vissi ég að þessi stund yrði mikils virði, þó að sannarlega vonaði ég að það yrði ekki kveðjustund.

Jarðarförin var falleg og virðuleg. Það fór ekki á milli mála að Ólöf naut vinsælda og virðingar meðal þingmanna hvar í flokki sem þeir stóðu.

Fjármálaráðuneytið er annað tveggja ráðuneyta sem vinnur þvert á önnur ráðuneyti. Forsætisráðuneytið má líta á sem yfirstjórn allra málaflokka meðan fjármálaráðuneytið vinnur að samræmingu og rekstri. Ef tekinn er samanburður við fyrirtæki er hægt að hugsa sér að hliðstæðan sé fjármálastjórn, bókhald, innheimta, mannauðsstjórn, innra eftirlit og önnur starfsemi sem ekki snýr að meginstarfsemi fyrirtækisins og er reyndar til í flestum fyrirtækjum, óháð því hver reksturinn er.

Á ríkisstjórnarfundum kynna ráðherrar sín mál og þar eru teknar ákvarðanir um stærstu mál. Mörg mál eru undirbúin á ráðherranefndarfundum. Ég hafði ekki hugmynd um tilvist eða starfsemi ráðherranefndarfunda. Þrjár ráðherranefndir starfa núna og í þeim eru formenn stjórnarflokkanna fastafulltrúar en aðrir ráðherrar koma öðru hvoru til fundanna. Í ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um efnahagsmál eru eðli málsins samkvæmt oftast til umfjöllunar mál frá fjármálaráðherra. Á fundunum eru auk ráðherra allmargir embættismenn. Segja má að þeir hafi bæði það hlutverk að fylgja málum eftir þar sem þekking ráðherrans hrekkur ekki til, en ekki síður að fylgjast með því sem fram fer þannig að þeir eigi auðveldara með að vinna verkefnin áfram.

Á mánudaginn var ávarpaði ég fund hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um fjármálastefnuna. Í ljós hefur komið að það reynist sveitarfélögunum erfitt að standa við samkomulag um að skila hallalausum rekstri í ár. Skýringar eru eflaust margar, en það er afar mikilvægt að ríki og sveitarfélög sameinist um markmið stefnunnar, því með aðhaldi hins opinbera á þenslutímum vaxa líkur á því að vextir lækki vegna þess að þá þarf Seðlabankinn ekki að sýna sama aðhald í peningamálum og ella. Á því græða bæði ríkið og sveitarfélögin, einstaklingar og fyrirtæki.

Auk hinna formlegu ráðherrastarfa drífur ýmislegt á dagana. Jón Þorvaldsson, vinur minn, fékk mig til þess að afhenda verðlaun á skákmóti sem hann stóð fyrir. Þá datt honum í hug að veita mér verðlaun líka vegna skákmóts sem ég vann fyrir 50 árum, en gleymdist að afhenda verðlaun fyrir. Það var mjög skemmtilegt. Friðrik Ólafsson afhenti mér bók eftir Mikael Tal, en þeir Friðrik og Tal voru einmitt mínir uppáhaldsskákmenn. Við Friðrik tókum svo stutta skák þar sem hann var fljótur að sýna hæfileika sína. Þetta fannst mér skemmtileg uppákoma.

Ég hef haldið áfram að heimsækja stofnanir ráðuneytisins. Á þriðjudag fór ég í framkvæmdasýsluna og í ÁTVR á fimmtudag. Báðar heimsóknirnar voru bæði skemmtilegar og fróðlegar. Með því móti að fara í allar undirstofnanir ráðuneytisins gefst mér bæði tækifæri til þess að kynnast rekstri þeirra og heyra hvað betur mætti fara í honum, auk þess sem stjórnendur hafa komið fram með margar ábendingar til mín um stefnumörkun sem koma þarf úr ráðuneytinu.

Eftir heimsóknirnar hef ég skrifað forráðamönnum stofnananna bréf og dregið saman áherslur mínar og hugmyndir. Samferðamenn mínir urðu fyrir vonbrigðum með veitingarnar í ÁTVR, sem vissulega voru glæsilegar. Samt held ég að þau hafi vonast eftir einhverju öðru en ávöxtum og konfekti. Fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins fannst óviðeigandi að birta mynd af mér í ÁTVR á sama tíma og verið var að ræða frægt frumvarp um áfengismál á Alþingi. Sú tímasetning var alger tilviljun!

Ég tel afar brýnt að ríkisstjórnin eigi gott samband við aðila vinnumarkaðarins. Við hittum fulltrúa stéttarfélaga á fundum í vikunni formenn stjórnarflokkanna auk félagsmálaráðherra. Samtal af þessu tagi er nauðsynlegt ef takast á að mynda traust milli þessara aðalleikara í efnahagslífinu. Flestir þessir aðilar hafa þegar komið á einn eða fleiri fundi í fjármálaráðuneytinu; kannski ætti ég að tala um efnahagsráðuneytið í því samhengi. Niðurstaða mín eftir alla þessa fundi er sú sama: Við getum náð að tryggja farsæld og efnahagslegan stöðugleika til langs tíma ef við höldum rétt á spöðunum. Svo getum við líka endurtekið leikinn frá 2007-8 og leikið af okkur unninni stöðu fyrir samfélagið allt.

Tvisvar í viku svara ráðherrar óundirbúnum fyrirspurnum. Ráðherrar skiptast aðeins á að mæta og reyna að koma að minnsta kosti í annað skiptið. Það vakti athygli mína að minnihlutinn virðist halda að aðeins sé tveggja flokka ríkisstjórn við völd, því allar fyrirspurnirnar bárust til ráðherra Viðreisnar og Bjartar framtíðar. Svo verð ég að viðurkenna að mér hlýnaði um hjartarætur að heyra að formaður VG eyðir greinilega sínum frítíma í að horfa á gamla sjónvarpsþætti með mér og spurði nú í vikunni út í rúmlega þriggja vikna gamlan Kastljósþátt þar sem ég sat fyrir svörum.

Ég hef átt nokkra fundi með formönnum minnihlutaflokkanna því ég tel að mörg mál í fjármálaráðuneytinu séu þess eðlis að upplýsa þurfi alla stjórnmálaflokkana um stöðu og áform. Margt í stjórnsýslunni er óháð stjórnmálastefnu og eðlilegt að allir komi að mótun stefnu á því sviði, sérstaklega þegar um er að ræða mál sem hugsuð eru til langs tíma. Þá er óeðlilegt að skipt sé um kúrs um leið og nýr ráðherra tekur við. Svo er ekki ólíklegt að í slíku spjalli komi fram góðar ábendingar sem verði til þess að stefnan verði óbrotgjarnari en ella.

Á föstudag sótti ég ársfund Íslandspósts. Fróðlegt og ánægjulegt er að sjá að reksturinn hefur tekið stakkaskiptum til hins betra, en betur má ef duga skal. Fyrirtækið fæst við óvenjulegan vanda að því leyti að samskiptavenjur eru allar aðrar en áður og almennum bréfasendingum snarfækkar. Fyrirtækið hefur verið að laga sig að nýjum veruleika og þarf að halda hratt áfram á þeirri braut. Það verður að draga meira úr rekstrarkostnaði því ekki er forsvaranlegt að hækka gjald fyrir þjónustuna meira. Auk þess er mikilvægt að afnema einkaleyfi þess á léttustu póstsendingum. Engum er hollt að vinna á einokunarmarkaði.

Verkefnin í fjármálaráðuneytinu eru fjölmörg og dagskráin þéttskipuð frá morgni til kvölds. Ég get ekki neitað því að mér finnst þetta mjög skemmtilegt, sannast sagna varla hægt að segja að upp renni leiðinlegt andartak. Vonandi heldur það svona áfram, en fyrstu vikurnar lofa að minnsta kosti góðu.