Vinir og bandamenn

Hund­rað ár full­veldis og nær 75 ár sjálf­stæðis eru vita­skuld merkir áfangar í sögu Íslands. Margt hefur á daga þjóð­ar­innar drifið á þessum árum bæði í þróun sam­fé­lags­ins sjálfs og ekki síður í heims­málum sem hafa um margt mótað og stýrt því hver fram­vindan hefur orðið hér á landi, til góðs eða ills.

Í öllum aðal­at­riðum hefur Ísland verð heppið á veg­ferð sinni hingað til. Nátt­úru­auð­lind­ir, lega lands­ins og hag­felld áhrif af fram­vindu alþjóða­mála lengst af hefur leitt til þess að íslenskt sam­fé­lag er til fyr­ir­myndar á mörgum svið­um, þó vissu­lega sé það ekki full­kom­ið. Allt er þetta ánægju­efni og gefur til­efni til þess að fagna því sem vel hefur tek­ist.

Frjáls­lyndi er leið­ar­ljós

Eng­inn er eyland. Kraftar að utan hafa áhrif á lífs­kjör á Íslandi. Án far­sælla sam­skipta og sam­vinnu við önnur ríki megum við okkur lít­ils. Þetta hefur alltaf átt við en hefur og mun hafa enn meiri áhrif í fram­tíð­inni. Fyrir okkur Íslend­inga er mik­il­vægt að frjáls­lyndi, umburð­ar­lyndi og opin og hindr­un­ar­laus sam­skipti og við­skipti hafi yfir­hönd­ina í sam­skiptum á alþjóða­vett­vangi. Þess vegna eigum við hik­laust að skipa okkur í sveit með þeim þjóðum og stjórn­mála­öflum á alþjóða­vett­vangi sem hafa þessi mark­mið. Þar eigum við að beita okkur og leggja það af mörkum sem við get­um.

Góðir vinir og sam­herjar eru gulls ígildi fyrir alla á lífs­leið­inni. Sama gildir í sam­fé­lagi þjóð­anna. Ísland getur valið hverja það kýs að binda trúss sitt við, hvaða þjóðir og alþjóða­sam­tök það vill gera að sínum vinum og banda­mönn­um. Hvaða við­horf, stefnur og strauma það vill kenna sig við og efla.

Skeinu­hættur popúl­ismi

Upp­gangur þröng­sýni, sér­hags­muna, vernd­ar- og ein­angr­un­ar­hyggju og popúl­isma víða í hinum vest­ræna heimi er mikið áhyggju­efni og getur orðið Íslandi og íslenskum hags­munum skeinu­hætt­ur.

Rauna­legt er að horfa til þeirrar þró­unar sem hefur orðið í Banda­ríkj­unum og utan­rík­is­stefnu þeirra undir for­ystu ólík­inda­t­óls­ins Trumps. Ísland hefur löngum litið á Banda­ríkin sem sinn helsta banda­mann og litið mjög til þeirra sem fyr­ir­myndar og stutt á alþjóða­vett­vangi. Úti­lokað er annað en tor­tryggja mjög og gagn­rýna stefnu Trumps. Hún felur í sér grímu­laust aft­ur­hvarf frá þeirri skipan heims­við­skipa sem er okkur Íslend­ingum lífs­nauð­syn­leg. Frjáls­lyndi og umburð­ar­lyndi virð­ist fjærri hug­ar­heimi Trumps og gildir þá einu hvort horft er til mála inn­an­lands eða sam­skipta við önnur ríki á sviði við­skipta eða örygg­is- og varn­ar­mála. Popúl­ism­inn virð­ist taka Banda­ríkin helj­ar­tök­um. Von­andi bráir af þeim fyrr en seinna.

Bret­land er á leið úr Evr­ópu­sam­band­inu. Breskum popúlistum tókst með ósvífnum hætti að draga bresku þjóð­ina í þá ferð með inn­an­tómum fag­ur­gala. Brexit ævin­týrið er allt með hinum mestu ólík­indum og virð­ist eng­inn hvata­maður Brexit hafa hugsað það til enda. Nú stökkva þeir hver um annan þveran frá borði, ráð­herr­arnir David Davis og Boris Johns­son en þeir Mich­ael Gove og Liam Fox vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Íslenskir ráða­menn hafa sumir hverjir fylgst með þessum kump­ánum fullir aðdá­unar og talið að fram­ganga þeirra myndi færa Íslend­ingum mikil tæki­færi. Þau tæki­færi virð­ast nú eins og hvert annað glópa­gull og þeim fækkar ört í Bret­landi sem hafa trú á því að Bretum farn­ist betur utan Evr­ópu­sam­bands­ins en inn­an.

Vítin ber að var­ast

Þró­unin innan Banda­ríkj­anna og Bret­lands sýnir glöggt að illa getur farið þegar mis­vitrir menn seil­ast til valda með fag­ur­gala og ein­földum lausnum við öllum vanda og benda helst á ímynd­aðan óvin sem öllu veld­ur. Þetta er gömul saga og ný sem fer alltaf á sama veg þó blæ­brigðin séu mis­mun­andi. Sagan endar alltaf illa.

Evr­ópu­sam­bandið hefur ekki farið var­hluta af upp­gangi popúlista innan aðild­ar­ríkja sinna. Hrikt hefur í stoðum sam­bands­ins vegna efna­hags­legra erf­ið­leika og mik­ils álags vegna straums flótta­manna. Þessa áraun hefur Evr­ópu­sam­bandið stað­ist hingað til. Það er hins vegar ekki sjálf­gefið að svo verði áfram tak­ist ekki að veita popúlistum við­nám og frjáls­lynd öfl haldi und­ir­tök­un­um.

Að skipa sér í sveit

Ísland hefur kosið að bind­ast öðrum Evr­ópu­ríkjum föstum bönd­um. Sam­starf Evr­ópu­ríkja er auð­vitað þétt­ast og mest innan Evr­ópu­sam­bands­ins, en hingað til höfum við Íslend­ingar látið okkur duga auka­að­ild að ESB í formi EES-­samn­ings­ins. Það er ekki full­nægj­andi fyrir hags­muni okkar til lengri tíma.

Ísland á að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem hafa með sér nán­ast sam­starf byggt á frjáls­lyndum gildum og mann­rétt­ind­um. Á þeim vett­vangi þarf að leggja öll lóðin á þá vog­ar­skál til þess að styrkja sam­starfið enn frek­ar.

Ísland á að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem geta og vilja verja frjáls­lyndi og umburð­ar­lyndi, en spyrna gegn popúl­is­ma, þröng­sýni, sér­hags­mun­um, vernd­ar- og ein­angr­un­ar­hyggju á alþjóða­vett­vangi.

Ísland á að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem hafa með sér sam­vinnu og sam­starf sem skapar íslenskum heim­ilum og atvinnu­lífi tæki­færi á við það sem best þekkist, hvort sem horft er til lífs­kjara, vaxta, efna­hags­legs stöð­ug­leika, sam­keppn­is­stöðu eða vaxt­ar­skil­yrða fyrir hug­vit og nýsköp­un.

Vel er við hæfi að íhuga á þessum tíma­mótum hvernig full­veldi Íslands og sjálf­stæði verði fund­inn bestur far­vegur til hag­sældar og vel­ferðar um kom­andi ár.

Höf­undur er þing­maður Við­reisn­ar. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 12. júlí 2018.