Viðreisn

Málefnin

Atvinnumál

Landsþing 24. september 2016

Samkeppni, sjálfbærni og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum rekstri. Virk og öflug samkeppni ásamt markaðslausnum á sem flestum sviðum skilar bestum árangri. Stjórnvöldum ber skylda til að búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Stjórnendur eiga að taka höndum saman um að eyða kynbundnum launamun hvar sem hann er að finna.

Samkeppni og stöðugleiki skapar kraft
Viðskipta- og atvinnufrelsi á að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Búa þarf atvinnurekstri stöðugt og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi, án hafta, með stöðugan gjaldmiðil og viðunandi vaxtastig. Með því móti verður til þróttmikið atvinnulíf sem skapar menntuðu fólki atvinnu og þá er líklegra að erlend fyrirtæki laðist að Íslandi og að íslensk fyrirtæki vilji og geti haft höfuðstöðvar sínar hér á landi þó þau verði umsvifamikil á erlendum vettvangi.

Ríkisafskipti af atvinnuvegum eiga að vera í lágmarki. Hið opinbera á fyrst og fremst að skapa hagstæðan ramma um atvinnulífið og aðeins koma að samkeppnisrekstri ef ríkir almannahagsmunir krefjast þess. Reglur og eftirlit ríkisvaldsins verði skilvirkari og alltaf metið þannig að ávinningur verði meiri en tilkostnaður. Hófleg skattlagning og einfalt skattkerfi ýta undir atvinnurekstur og nýsköpun. Huga þarf sérstaklega að einyrkjum og smáfyrirtækjum með einfaldari skattlagningu og skattskilum. Rétt er að hækka lágmark fyrir virðisaukaskattskil í þrjár milljónir í stað einnar.

Sjálfbært atvinnulíf
Öll atvinnustarfsemi sem nýtir sérstöðu landsins skal þróuð og byggð upp af virðingu fyrir auðlindum Íslands. Efla ber atvinnurekstur sem nýtir auðlindir landsins á sjálfbæran hátt. Tryggja þarf jafnan aðgang landsmanna að auðlindum landsins á grundvelli markaðslausna. Menntakerfið þarf að geta sinnt þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Fjárfestingu í vísindastarfi, rannsóknum og þróunarstarfi þarf að auka á sem flestum sviðum. Sókn nýsköpunarfyrirtækja í erlenda samkeppnissjóði þarf að örva markvisst.

Heiðarleiki og samfélagsleg ábyrgð er nauðsynlegir þættir í því að atvinnustarfsemi njóti virðingar og nauðsynlegs trausts í samfélaginu.

Nýsköpun er forsenda framfara
Nýsköpun, frumkvæði og efling frumkvöðlastarfsemi er eitt af leiðarstefjum Viðreisnar. Alltaf þarf að leita þarf nýrra tækifæra til þess að auka framleiðni og skapa aukin verðmæti. Mikilvægt er að efla menntun á sviði nýsköpunar og tækniþróunar. Ýtt verði undir frumkvæði til stofnunar og reksturs frumkvöðlastarfsemi og leiðir til fjármögnunar straumlínulagaðar. Jafnframt verði skoðað hvernig skattaívilnunum og fjárfestingarhvötum verði best fyrir komið. Hækka þarf og helst afnema núverandi þak á endurgreiðslu til fyrirtækja vegna útlagðs kostnaðar til rannsókna og þróunar.

Tryggjum jafnrétti á öllum sviðum vinnumarkaðar
Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi því fylgir efnahagslegur ávinningur. Kynbundinn launamun á að uppræta. Jafnlaunavottun skal lögbundin hjá fyrirtækjum, stofnunum og samtökum.

Hið opinbera á að jafna kynjahlutföll meðal stjórnenda á næstu tveimur kjörtímabilum og ná 40/60 hlutfalli hið minnsta. Ráðningar og skipan í störf hjá hinu opinbera taki alltaf mið af jafnréttislögum.

Jafn réttur til fæðingarorlofs er grundvallaratriði til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Til þess að ná þessu markmiði beitir Viðreisn sér fyrir verulegri hækkun tekjuþaks og að bil milli fæðingarorlofs og dagvistunar verði brúað.

Einstakir þættir

Innviðir ferðaþjónustu byggðir upp og tekið bílastæðagjald
Nýta þarf tækifæri og hámarka arðsemi ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta byggir á því að nýta náttúruauðlindir landsins á sjálfbæran hátt. Efla ber tekjulindir sveitarfélaga af ferðaþjónustu og auðvelda uppbygginu innviða. Tekið verði upp bílastæðagjald við ferðamannastaði. Þannig fæst bæði tekjustofn og tæki til aðgangsstýringar.

Treysta þarf innviði til að mæta vaxandi ferðamannafjölda og horfa þar sérstaklega til nauðsynlegra verkefna í vegagerð og vegaviðhaldi, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, fjarskiptaþjónustu og löggæslu. Tryggja þarf öflugar flugsamgöngur innanlands t.d. með betri tengingu við Keflavíkurflugvöll.

Markaðsleið í sjávarútvegi tryggi sátt um greinina
Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar.  Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári. Þannig fæst sanngjarnt markaðstengt afgjald fyrir aðgang að auðlindinni og umgjörðin um atvinnugreinina verður stöðug til frambúðar. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarks arðsemi þegar til lengri tíma er litið. Einnig opnast leið fyrir nýliðun.

Landbúnaður verði venjuleg atvinnugrein
Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni og sömu almenn lög gildi um hann og annan atvinnurekstur. Stuðningi við bændur á að breyta þannig að hann stuðli að aukinni hagræðingu, framleiðniaukningu og nýsköpun í greininni. Bændur eiga að fá frelsi til þess að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stuðla að innri samkeppni í greininni. Allri framleiðslu- og sölustýringu af hálfu ríkisvaldsins á að hætta en í staðinn verði veittir beinir styrkir til bænda í formi búsetu- og svæðisstyrkja.

Tollar og innflutningshöft  á landbúnaðarvörur verði afnumin í skynsamlegum áföngum samtímis því að landbúnaðurinn stígur inn í samkeppnisumhverfi með breyttu stuðningskerfi.

Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun í landbúnaði með stuðningi við hluti á borð við skógrækt, landgræðslu, vöruþróun, lokun framræsluskurða, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Þriggja fasa línur auka orkugæði og skapa möguleika á smávirkjunum sem væri nýr atvinnumöguleiki í sveitum.

Heilbrigt rekstrarumhverfi styður allar greinar
Fyrirtæki, stór og smá, í almennum iðnaði, verslun og þjónustu eru mikilvæg fyrir samfélagið. Verk- og tæknimenntun þarf að mæta þörfum iðnaðarins og þess vegna verður að finna leiðir til þess að ungt fólk sæki sér þessa menntun. Sama gildir um fólk með sérhæfða menntun á sviði ferðaþjónustu. Fyrst og fremst þurfa þó fyrirtækin stöðugleika í efnahagslegri umgjörð og einföldun regluverks eins og allur annar rekstur.

Samgöngukerfin þarf að bæta
Bæta þarf vegakerfi landsins þannig að það uppfylli kröfur umferðarþunga og burðargetu flutningatækja. Ráðast þarf í bráðaaðgerðir þar sem augljóst er að slysahætta er óviðunandi, t.d á Suðurlandsvegi.

Reykjavíkurflugvöllur á að standa þar til ný lausn er fundin á innanlandsflugi. Bæta þarf aðstöðu og tryggja búnað á alþjóðaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum þannig að þeir geti betur sinnt sínu hlutverki.

Samgöngutæki landsins nýti sem flest endurnýjanlega og innlenda orkugjafa (rafmagn og metan) með beinum ávinningi fyrir neytendur og umhverfið. Markmið til lengri tíma er að útrýma kolefnisorkugjöfum í samgöngum á landi.

Rafræn stjórnsýsla og fjarskipti
Leggja þarf mun ríkari áherslu á rafræna þjónustu opinberra aðila þannig að staðsetning skipti fyrirtæki og einstaklinga minna máli fyrir aðgengi að þjónustunni.  Ráðist verði í stórfelldar fjárfestingar í rafrænni stjórnsýslu. Það sem RSK hefur gert á þessu sviði er gott fordæmi fyrir heilbrigðiskerfið, menntakerfið, leyfisumsóknir, skráningu fyrirtækja og stjórnsýsluna alla. Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri.

Gott fjarskiptakerfi verður að ná til landsins alls. Það verði byggt með skipulegum hætti á næsta kjörtímabili.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Auðbjörg Ólafsdóttir, er formaður málefnanefndar um atvinnumál.