Viðreisn

Málefnin

Byggðastefna

Landsþing 11. mars 2018

Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar í íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er að viðhalda þeim auðlindum og þeirri aðstöðu sem þar er að finna og geta skipt þjóðina máli til lengri og skemmri tíma. Auka þarf verulega fjárfestingar í innviðum til að styrkja og stækka atvinnusvæði á landsbyggðinni. Mikilvægt er að stuðla áfram að sameiningu og stækkun sveitarfélaga svo unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu. Styrkja þarf tekjugrunn sveitarfélaganna, auka aðkomu þeirra að lykilákvörðun um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar og þróunar á landsbyggðinni.

Tryggja verður fjölbreytt atvinnutækifæri á grundvelli nýsköpunar og sjálfbærni. Hagsmunir og þarfir einstakra svæða eru mismunandi og því mikilvægt að tryggja áhrif heimamanna á áherslur í uppbyggingu sem grundvallist á styrkleika þeirra, auðlindum og sérkennum. Varast ber að hagsmunum einstakra landsvæða sé stillt upp sem ósamrýmanlegum þáttum svo sem þegar höfuðborg er stillt upp gegn landsbyggð. Konum hefur fækkað hlutfallslega meira en körlum á landsbyggðinni. Í þessu samhengi verður ljóst að öll opinber stefnumótun verður að vera með afdráttarlausa sýn á hvernig komið er til móts við jafnréttissjónarmið.

FJÁRFESTING Í INNVIÐUM - STÆRRI ATVINNUSVÆÐI - BETRI ÞJÓNUSTA
Fjölbreytt atvinnulíf og blómlegt mannlíf byggist á traustum innviðum. Nauðsynlegt er að auka fjárfestingu í innviðum á landsbyggðinni. Bæta þarf samgöngur til að stækka atvinnusvæði og draga þannig úr áhrifum af breyttum atvinnuháttum. Efla þarf stuðning við nýsköpun. Styrkja þarf raforkuflutningskerfi landsins og fjarskiptainnviði og tryggja aðgang að háhraðaneti um land allt. Treysta þarf aðgengi að menntun á landsbyggðinni og tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Síðast en ekki síst þarf að huga sérstaklega að stuðningi við menningartengda starfsemi á landsbyggðinni.

FÉLAGSLEGIR INNVIÐIR
Tryggja þarf aðgengi íbúa að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Skilgreina verður lágmarksréttindi þegna er varða aðgengi að mennta- og heilbrigðiskerfi. Skilgreiningin verður að taka mið af fjarlægð frá þjónustu og taka til lágmarksinntaks slíkrar þjónustu. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru í ójafnri stöðu miðað við sambærilegar einingar á höfuðborgarsvæðinu og æ erfiðara verður að manna stöður sérfræðinga úti á landi. Bregðast verður við slíku ástandi og draga úr aðstöðumun fólks milli einstakra landshluta og búsetukostnaði sem af honum hlýst.

Unnt er að bregðast við með því að koma upp kerfi farandlækninga, þar sem miðlæg teymi sérfræðilækna fer á skilgreind svæði með ákveðnu millibili. Slíka þjónustu mætti bjóða út til einkaaðila og ná þar með fram auknu hagræði. Áfram þarf að efla fjarlækningar og kanna tækifæri sem felast í upplýsingatækni.

Halda þarf áfram þeirri þróun að einfaldara sé að bæta við sig menntun í heimabyggð. Gera þarf sveitarfélögunum auðveldara að skapa íbúum aðstöðu til náms og fjarkennslu.

Eftir hækkun lögræðisaldurs hefur myndast ákveðið bil þar sem skólaskyldu lýkur á sextánda aldursári. Koma þarf til móts við þær fjölskyldur sem eiga unglinga á aldrinum 16-18 ára en eiga ekki heimangengt í framhaldsskóla í næsta nágrenni. Ein leiðin er að nýta aðstöðu grunnskóla heima í héraði til fjarnáms.

HAGRÆNIR INNVIÐIR
Ljúka þarf ljósleiðaravæðingu landsins á tilsettum tíma (2020). Nýta þarf þau tækifæri sem munu felast í aðgangi íbúa landsins að háhraðaneti.

Samgönguáætlun þarf að hugsa til lengri tíma en 4 og 12 ára. Samgönguáætlanir þurfa að vera faglega unnar og gæta að heildstæðu viðhaldi samgöngumannvirkja í öllum landshlutum. Þannig má stuðla að auknu umferðaröryggi og færri slysum. Aðkoma einkaaðila hefur tekist vel til á fjölförnum vegum. Athuga ber hvort samfélagslegur ávinningur geti hlotist af því að einkaaðilar og sveitarfélög reisi í samstarfi stærri vegamannvirki líkt og hin vel heppnuðu Hvalfjarðargöng. Gæta þarf að því að hið opinbera beri ekki fjárhagslega áhættu af slíkum framkvæmdum.

Íbúar landsbyggðarinnar sækja ýmsa sértækari þjónustu í þéttari byggðir. Í því ljósi er mikilvægt að koma til móts við íbúa fjarri höfuðborgarsvæðinu með styrkjum til nauðsynlegra ferðalaga. Einnig er mikilvægt að sköpuð verði skilyrði til þess að raunverulegur samkeppnismarkaður verði til á markaði fyrir innanlandsflug.

MENNINGARLEGIR INNVIÐIR
Mikilvægt er að byggðarsjónarmið séu einnig höfð í huga þegar opinberum styrkjum er úthlutað til menningartengdrar starfsemi. Gerð verði krafa um að ríkisstofnanir, sem gegna menningarhlutverki, sinni einnig landsbyggðinni eins og efni og aðstæður leyfa.

Opinber stefnumörkum í fjölmiðlum taki einnig fullt tillit til staðbundinna fjölmiðla, s.s. héraðsfréttablaða.

Mikilvægt er að opinber byggðastefna taki áfram einnig til höfuðborgarsvæðisins. Áframhaldandi borgaruppbygging er mikilvægur þáttur í samkeppnishæfni Íslands til allrar framtíðar. Skilgreina þarf hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands, bæði með hliðsjón af réttindum og skyldum.

FJÖLBREYTT OG BLÓMLEGT ATVINNULÍF BYGGT Á NÝSKÖPUN OG SJÁLFBÆRNI
Vöxtur ferðaþjónustu hefur á margan hátt gerbreytt stöðu ýmissa svæða á landsbyggðinni. Mikilvægt er að hlúa áfram að greininni og leyfa henni að þróast á eigin forsendum án mikilla ríkisafskipta. Við opinbera stefnumörkun verður að hafa umhverfissjónarmið í forgrunni og að ferðaþjónusta verði sjálfbær og arðbær atvinnugrein til framtíðar.

Mikilvægt er að efla nýsköpunarsjóði sem styðja við verkefni á landsbyggðinni. Fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf er mikilvægt til að forðast að einstök landsvæði verði um of háð einstökum atvinnugreinum.

Í stað þess að miðast við sérgreindar atvinnugreinar og framleiðslumagn, þarf stuðningur ríkisins í auknum mæli að miðast við búsetu og nýsköpun.

STÆRRI OG STERKARI SVEITARFÉLÖG - AUKIN AÐKOMA AÐ ÁKVÖRÐUNUM
Áfram verði markvisst unnið að því að styrkja sveitarstjórnarstigið með frekari sameiningum. Lögbinda þarf lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, ekki síst með tilliti til þess að verkefni sveitarfélaganna og ábyrgð hafa aukist umtalsvert á síðustu árum. Stefna skal að frekari yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga ásamt því að styrkja tekjugrunn sveitarfélaga með hlutdeild í fleiri tekjustofnum ríkisins svo sem virðisaukaskatti og tekjuskatti lögaðila.

Öflugt sveitarstjórnarstig er mikilvægur þáttur í eflingu landsbyggðarinnar. Styrkja þarf aðkomu sveitarstjórna að ákvörðunum um uppbyggingu atvinnulífs og innviða.

AUÐLINDAGJÖLD RENNI AÐ HLUTA TIL INNVIÐAUPPBYGGINGAR
Mikilvægt er að tekjur vegna auðlindagjalda, hvort sem er af sjávarútvegi, orkuiðnaði, ferðaþjónustu eða annarri auðlindatengdri starfsemi, renni að hluta til innviðauppbyggingar í heimabyggð. Stærstur hluti tekna ríkissjóðs af slíkum auðlindagjöldum verður til á landsbyggðinni. Mikilvægt er að hluti þeirra renni til innviðauppbyggingar á forræði viðkomandi sveitarfélaga.

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.