Efnahagsmál

Aukið viðskiptafrelsi, markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur efnahagslegra framfara, aukinnar framleiðni og varanlegrar kaupmáttaraukningar. Markaðslausnir verði nýttar þar sem þeim verður við komið.

 

  • Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi, m.a. með uppbyggingu alþjóðlegra atvinnugreina
  • Full aðild að ESB og upptaka evru, eykur verðmætasköpun, kaupmátt og bætir lífskjör
  • Markaðslausnir sem treysta hagsmuni almennings
  • Hagstjórn og fjármálastjórn sem treystir stöðugleika og kjör almennings
  • Réttlát og hófleg skattlagning
  • Ábyrg ríkisfjármál
  • Hagvaxtar- og atvinnustefna sem eflir samkeppnishæfni atvinnulífs og lífskjara.

 

Landsþing 11. febrúar 2023

Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi, m.a. með uppbyggingu alþjóðlegra atvinnugreina

Lykill að bættum lífskjörum á Íslandi er aukin alþjóðleg samvinna, aukið frelsi í viðskiptum og stöðugt efnahagslíf. Framtíðarvöxtur atvinnulífs þarf að verða í vel launuðum alþjóðlegum þekkingar- og tæknigreinum til að unnt sé að auka framleiðni, verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör.

 

Viðskipta- og atvinnufrelsi þarf að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Búa þarf atvinnurekstri stöðugt viðskiptaumhverfi, með stöðugan gjaldmiðil, til að tryggja samkeppnishæfni, verðmætasköpun og hagvöxt. Með því móti eflist nýsköpun og þróttmikið atvinnulíf sem skapar ný og fjölbreytt störf. Einhæfni í atvinnulífi skapar hættu á sveiflum og gerir hagkerfið viðkvæmara fyrir áföllum. Margs konar tækifæri eru til nýsköpunar á Íslandi. Stuðla þarf að því að þau verði gripin. Stöðugleiki skiptir þar mestu máli, en einnig stuðningur við nýsköpun með styrkjum og hvötum til fjárfestinga í nýsköpun.

 

Full aðild að ESB og upptaka evru, eykur verðmætasköpun, kaupmátt og bætir lífskjör

Mikill og fjölbreytilegur ávinningur er nú þegar af samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir með samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið. Stórauka mætti þann ábata með fullri aðild að Evrópusambandinu. Það væri risaskref fyrir aukið sjálfstæði Íslands, þar sem við hefðum tækifæri til að hafa áhrif á þá löggjöf sem landið tekur nú þegar upp sem samningsaðili að Evrópska Efnahagssvæðinu.

 

Með fullri aðild og upptöku evru væri tryggður ytri stöðugleiki, bætt viðskiptakjör, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og fjölbreyttari viðskiptatækifæri, aukin samkeppnishæfni atvinnulífs og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni allri til hagsbóta.

 

Full aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir aukið aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum Evrópusambandsins, sem efla myndu byggðir og landbúnað.

 

Full aðild myndi tryggja virka samkeppni á fjármála- og tryggingamarkaði og auka samkepnishæfni atvinnulífs, efla útflutning, hagvöxt og framleiðni,ásamt lægra vöruverði vegna tollalækkana. Þannig myndu forsendur skapast fyrir stöðugleika, lægri vöxtum á húsnæðislánum, auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma . Þannig myndu forsendur skapast fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.

 

Full aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru er eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið á sviði efnahags-, sjálfstæðis- og stjórnmála hér á landi, enda myndi það efla sjálfstæði og áhrifamátt landsins, ásamt því að bæta kaupmátt og lífskjör alls almennings. Þess vegna telur Viðreisn brýnt að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, að undangengnu samþykki þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu, fyrst um áframhald viðræðna og síðar um samninginn, þegar hann liggur fyrir.

 

Markaðslausnir sem treysta hagsmuni almennings

Lög og reglur skulu stuðla að samkeppni, aukinni nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Hið opinbera dragi sig út úr samkeppnisrekstri og gefi einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að ná fram hagræðingu og tryggja góða og aðgengilega þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.

 

Markaðir tryggja hagkvæma framleiðslu og dreifingu stærsta hluta þess sem framleitt er í samfélaginu, öllum til hagsbóta. Þung rök þurfa að vera til staðar ef víkja á frá þeirri meginreglu. Viðreisn berst gegn kreddum og hagsmunagæslu sem vilja draga úr vægi markaðslausna. Einfalda skal rekstrarumhverfi fyrirtækja og auka samkeppni og fjölbreytni eins og kostur er. Miklu hagræði má ná í opinberri þjónustu með auknum útboðum verkefna, einkarekstri og markaðslausnum, þó að opinberir aðilar greiði fyrir þjónustuna.

 

Hagstjórn og fjármálastjórn sem treystir stöðugleika og kjör almennings

Efnahagslegur stöðugleiki er forgangsmál. Megináhersla þarf að vera á stöðug ytri skilyrði og ábyrgan rekstur hins opinbera. Með stöðugleika skapast tækifæri fyrir langtíma uppbyggingar hagsældar og fjölbreytts atvinnulífs sem býður sem flestum tækifæri þar sem hæfileikar þeirra nýtast.

 

Traust hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, eru forsenda stöðugleika og hagsældar. Viðreisn vill draga úr ríkisumsvifum, lækka skuldir hins opinbera og einfalda stjórnsýslu.

 

Ábyrg ríkisfjármál

Viðreisn leggur áherslu á að ríkissjóður sé rekinn í jafnvægi og rekstur hans taki tillit til aðstæðna í hagkerfinu. Velferðin verður ekki tekin að láni. Tryggja þarf fjármögnun allra útgjalda til velferðarmála. Ríkið þarf að leggja mun ríkari áherslu á að styðja hagstjórnina þannig að dregið sé úr þenslu í hagkerfinu með útgjaldalækkunum þegar þörf er á og stutt við hagkerfið með aukinni fjárfestingu þegar slaki er.

 

Hið opinbera þarf að leggja aukna áherslu á hagræðingu og skilvirkni í rekstri. Auka þarf aðhald með stofnunum ríkisins og leita leiða til að sameina stjórnsýslueiningar. Auka þarf aðhald með stofnunum ríkisins, sameina þær og einfalda stjórnsýsluna.

 

Réttlát og hófleg skattlagning

Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu, þar sem allir bera réttlátar byrðar. Viðreisn leggur áherslu á að við endurskoðun skattlagningar fjármagnstekna sé mikilvægt að taka tillit til raunávöxtunar.

 

Viðreisn leggur áherslu á að auka vægi grænna gjalda og auðlindagjalda. Tekjur af þeirri skattlagningu má nýta til að lækka aðra óhagkvæmari skatta.

 

Unnið skal markvisst gegn skattaundanskotum bæði innanlands, jafnt sem erlendis í formi skattaskjóla. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðlegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.

 

Hagvaxtar- og atvinnustefna sem eflir samkeppnishæfni atvinnulífs og lífskjara

Viðreisn vill að skapaður verði grundvöllur fyrir uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs, sem skapar samfélaginu ábata til lengri tíma og býr til tækifæri fyrir fólk til að lifa og starfa við sem best skilyrði í öllum landsbyggðum. Leggja skal áherslu á vöxt atvinnulífs og svæða, m.a. með uppbyggingu klasa, aðstöðu fyrir nám á háskólastigi og rannsóknarstarf og samstarf við atvinnulíf, þar sem lögð verði áhersla á sérstöðu og styrkleika hvers svæðis fyrir sig.

——
Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Flokkar
Málefnin