Viðreisn

Málefnin

Efnahagsmál

Landsþing 24. september 2016

Stöðugleiki og ábyrg hagstjórn byggð á langtímamarkmiðum
Stjórn efnahagsmála hafi stöðugleika að meginmarkmiði, byggi á varúðasjónarmiðum og leggi grunn að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma. Áhersla skal lögð á stöðugt gengi, heildstæða og vandaða áætlanagerð hins opinbera, markvissa opinbera fjárstjórn sem styður stöðugt gengi og verðlag, skilvirka starfsemi, ásamt virku eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda.

Stöðugt gengi tryggt með myntráði
Tekið verði upp myntráð í stað núverandi peningastefnu, hliðstætt því sem tíðkast í fjölmörgum smærri ríkjum. Upptaka myntráðs mun skapa varanlegan gengisstöðugleika, draga verulega úr vaxtamun við útlönd og skapa forsendur langvarandi verðstöðugleika, til hagsbóta fyrir almenning jafnt sem atvinnulíf.

Myntráð krefst öflugrar og traustrar hagstjórnar
Samstillt hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, er forsenda góðs árangurs á þessu sviði. Með myntráði sem stutt er agaðri stjórn fjármála hins opinbera er lagður grunnur að lágri verðbólgu, hóflegu vaxtastigi og auknum fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja og einstaklinga. Þannig er jafnframt lagður grunnur að bættri samkeppnisstöðu þjóðarinnar, aukinni framleiðni og almenningi tryggð kaupmáttaraukning til framtíðar.

Ísland sé virkur þátttakandi í alþjóðavæðingu
Aðild Íslands að erlendum mörkuðum og þátttaka í alþjóðavæðingu, m.a. innri markaði ESB/EES, hefur styrkt samkeppnishæfni þjóðarinnar. Útflutningur hefur aukist, sem og verðmætasköpun og framfarir á fjölmörgum sviðum. Viðreisn telur að vestræn samvinna sé hornsteinn að þjóðaröryggi, viðskiptafrelsi og bættum lífskjörum Íslendinga.

Aukin framleiðni er forsenda varanlegrar kaupmáttaraukningar
Markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru lykilforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar.

Framleiðni á Íslandi er mun lægri en í nágrannalöndum okkar. Þá hefur hagvöxtur á Íslandi um árabil byggst á lengri vinnutíma en þekkist annars staðar. Ástæður lágrar framleiðni eru margþættar, en stafa m.a. af fámenni, litlum heimamarkaði, fákeppni, íþyngjandi reglum á viðskiptalíf, óskilvirkri auðlindastjórnun, skorti á samkeppni og sérmenntuðu vinnuafli ásamt óhagkvæmni í rekstri hins opinbera. Allt þetta gerir uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs erfiða, sem hefur orsakað flutning arðvænlegra fyrirtækja úr landi.

Lækkun vaxta - stærsta húsnæðismálið
Varanleg lækkun vaxta á húsnæðislánum til lengri tíma er stærsta hagsmunamál kaupenda og leigjenda húsnæðis. Myntráð er sú leið sem best tryggir varanlegan stöðugleika í gengismálum meðan við höfum krónuna sem gjaldmiðil.

Taka þarf sérstaklega á erfiðri aðstöðu kaupenda fyrstu íbúðar. Þeim verði m.a. gert heimilt að stofna skattfrjálsa sparnaðarreikninga í aðdraganda íbúðarkaupa. Þá þarf að tryggja að áfram verði hægt að ráðstafa séreignarsparnaði til íbúðakaupa í ákveðinn árafjölda.

Endurskoða þarf vaxtabótakerfið þannig að það styðji betur við fyrstu íbúðakaup, t.d. með því að stuðningur við kaupendur fyrstu eignar verði í formi eingreiðslu. Jafnframt þarf að auka framboð húsnæðis og draga úr byggingakostnaði, m.a. með endurskoðun byggingareglugerða.

Sjálfbær nýting auðlinda og markaðsgjald
Greitt verði markaðsgjald fyrir sérréttindi til nýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, bæði endurnýjanlegum og óendurnýjanlegum.

Tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi, greitt markaðsverð fyrir nýtingu orkuauðlinda og tekið upp afgjald í ferðaþjónustu til að stuðla að ábyrgri aðgangsstýringu og dreifingu ferðamanna, uppbyggingu og skipulagi innviða og vernd náttúru landsins. Afgjaldi verði varið til uppbyggingar innviða.

Rekstur hins opinbera sé skilvirkur og byggi á langtímaáætlunum
Leggja þarf kapp á vandaða áætlanagerð og markvissa stjórn fjármála hins opinbera, bæði hvað varðar þróun útgjalda og tekna, með það að markmiði að halda skuldum niðri, tryggja forgangsröðun og stuðla að agaðri stjórn til lengri tíma. Innleidd verði regla um hámarksaukningu ríkisútgjalda á ári. Ákvarðanir um útdeilingu fjár byggi á aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar.

Skattkerfið verði endurskoðað með það að markmiði að auka skilvirkni þess, fækka undanþágum og íþyngjandi reglum og auðvelda einstaklingum og smáum sem stórum fyrirtækjum að fara að reglum.

Stofnanakerfi ríkisins verði endurskoðað og rekstur þess gerður skilvirkari og hagkvæmari. Stofnanir með eðlislík verkefni verði sameinaðar og lagafyrirmæli sett m.a. um stærð stofnana, stofnun þeirra, starfsemi og niðurlagningu. Tryggja þarf áframhaldandi hagræðingu í innkaupum ríkisins með því að nýta stærðarhagkvæmni ríkisins. Sett verði skýr markmið um árlega hagræðingu við innkaup.

Beitt verði markaðslausnum við þjónustu við borgarana
Ríkið á að draga sig út úr samkeppnisrekstri eða gefa einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að auka samkeppni og ná fram hagræðingu. Markmiðið á alltaf að vara að tryggja góða þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.

Tryggt verði að þær eignir, sem lagðar hafa verið til ríkisins sem hluti stöðugleikaframlags fjármálafyrirtækja, verði seldar í gegnsæju og vönduðu ferli og söluandvirðið nýtt til lækkunar skulda ríkissjóðs með hag almennings í forgrunni. Spornað verði gegn  samþjöppun eignarhalds og samkeppni tryggð.

Sérstök áhersla verði lögð á að ná fram hagræðingu í bankakerfinu. Stuðlað verði að aukinni samkeppni með sölu innlends banka til alþjóðlegra fjármálastofnana í tengslum við upptöku myntráðs.

Horfst verði í augu við skuldavanda Íbúðalánasjóðs og hlutverk hans endurskoðað eða gert markvissara.

Kjarasamningar hins opinbera verði einfaldaðir og samræmdir eins og kostur er að reglum hins almenna vinnumarkaðar.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Sveinbjörn Finnsson er formaður málefnanefndar um efnahagsmál.