Viðreisn

Málefnin

Grunnstefna Viðreisnar

Landsþing 24. september 2016

Við viljum byggja upp samfélag þar sem einstaklingar vilja og geta nýtt hæfileika sína til fulls. Mikilvægt er að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og gæta þess að traust ríki í stjórnmálum og í garð stofnana ríkisins. Við viljum stunda málefnalega umræðu og stuðla að góðum stjórnarháttum með áherslu á gegnsæi og gott siðferði.

Almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki skulu njóta jafnræðis.

Náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar. Þær ber að nýta skynsamlega og greiða markaðsverð fyrir.

Félagslegt réttlæti sem byggt er á samhug og ábyrgð tryggir jafnan rétt til menntunar og velferðarþjónustu.

Vestræn samvinna eykur hagsæld þjóðarinnar og er forsenda sterkrar samkeppnishæfni Íslands.

Jafnrétti stuðlar að aukinni velmegun og tryggir einstaklingnum frelsi til að nýta hæfileika sína og krafta til fulls.

Hagsmunir neytenda eiga að vera í fyrirrúmi.

Þróttmikið menningarlíf er sérhverri þjóð nauðsyn og ber að styðja og efla.

Lýðræði

Opin, upplýst og málefnaleg umræða er nauðsynleg til að unnt sé að taka réttar ákvarðanir. Greiður aðgangur að upplýsingum er forsenda þekkingar. Upplýsingaskyldu opinberra aðila gagnvart almenningi ber að efla. Ljúka þarf endurskoðun stjórnarskrárinnar með víðtækri sátt, meðal annars til þess efla beint lýðræði þannig að almenningur geti komið að ákvörðunum um mikilvæg málefni. Skerpa á þrískiptingu ríkisvaldsins. Vægi atkvæða skal vera jafnt, óháð búsetu. Sérhagsmunir skulu víkja fyrir almannahagsmunum.

Frjálslyndi og jafnrétti

Einstaklingar setji fram skoðanir sínar og hagi lífi sínu og athöfnum að vild, enda bitni frelsi eins ekki á rétti annars. Stjórnsýsla á að vera opin og gegnsæ. Ákvarðanir stjórnvalda skulu byggjast á skýrum markmiðum og upplýsingum um hagsmunatengsl þannig að stjórnarathafnir séu hafnar yfir allan skynsamlegan vafa.

Velferð

Rekið verði heildstætt heilbrigðiskerfi, byggt á hagsmunum almennings. Skipulagi og rekstri verði jafnan hagað þannig að fjármunum sé eins vel varið og völ er á. Mikilvægt er að tryggja að á Íslandi sé vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem hafi nýjasta búnað og tækni sem hagkvæmt er að reka á Íslandi. Allir skulu hafa rétt til heilbrigðisþjónustu, menntunar og félagslegrar þjónustu. Þróttmikið atvinnulíf byggt á samkeppni skapi tekjur sem standi undir öflugu mennta- og velferðarkerfi. Félagslegt réttlæti ríki, þar sem frelsi, ábyrgð, samhugur og mannréttindi verði í öndvegi íslensks samfélags.

Velferðarkerfið hvetji alla til að nýta hæfileika sína og krafta til fulls og stuðli að því að allir vinni sem hafa til þess getu. Stuðlað verði kerfisbundið að því að tryggja fjölskyldusamfélag sem stenst samanburð við Norðurlöndin, meðal annars í húsnæðismálum.

Vel menntað og hæfileikaríkt fólk er grunnstoð atvinnulífsins. Því þarf að bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir sem vinna með atvinnustefnu landsins. Hagsæld og framþróun byggjast á þekkingu og nýsköpun.

Samkeppni og neytendur

Samkeppni, gott viðskiptasiðferði og frjáls markaður veita aðhald og stuðla að efnahagslegum framförum, hagsæld almennings og nýsköpun á öllum sviðum. Nýta skal markaðslausnir sem víðast, þar sem þeim verður við komið. Ríki og sveitarfélög eiga ekki að stunda samkeppnisrekstur, en veita nauðsynlega þjónustu á sviðum þar sem almannahagsmunir krefjast. Stöðugt efnahagsumhverfi eykur líkur á því að erlendir aðilar vilji fjárfesta á Íslandi. Taka skal rétt neytenda framyfir sérhagsmuni. Almenningur og fyrirtæki búi ekki að þarflausu við hærri tilkostnað en tíðkast í samkeppnislöndunum. Hindrunum í alþjóðlegum samkeppnisgreinum verði rutt úr vegi.

Umhverfi og stöðugleiki     

Sérhver kynslóð skili landinu í sama eða betra horfi til komandi kynslóða, hvort sem horft er til umhverfis eða náttúruauðlinda. Verðmætasköpun og landvernd haldist hönd í hönd. Ósnortin náttúra er auðlind. Rekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga verði að jafnaði hallalaus og skuldir hóflegar.

Skýr löggjöf móti umgjörð um efnahagslífið með stöðugleika og þjóðhagsleg varúðarsjónarmið að leiðarljósi. Viðskiptahættir byggist á góðri siðvenju, trausti og öryggi.

Þjóð meðal þjóða

Efnahagslegur stöðugleiki, samkeppnishæfni og lífskjör séu að minnsta kosti jafngóð og í nágrannalöndum Íslands. Samvinna við önnur ríki á Norðurlöndum og samstarf vestrænna þjóða hafa aukið hagsæld og velferð sem byggð er á styrkum stoðum lýðræðis, velferðar, laga og réttar. Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu til þess að ná megi aðildarsamningi sem borinn verði undir þjóðina. Ísland á að taka þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi, meðal annars móttöku flóttamanna.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.