Viðreisn

Málefnin

Heilbrigðis- og velferðarmál

Landsþing 24. september 2016

Forgangsraða þarf í ríkisfjármálum í þágu fjárfestingar í heilbrigðismálum. Ljúka þarf endurbyggingu Landspítala við Hringbraut fyrir árið 2022. Leggja þarf sérstaka áherslu á uppbyggingu í öldrunarþjónustu, til dæmis heimahjúkrun og öldrunarheimili. Styrkja þarf heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað og einfalda leið fólks um heilbrigðiskerfið. Biðlista eftir heilbrigðisþjónustu þarf að stytta eins og framast er unnt. Skilgreina þarf þjónustu sem allir eiga rétt á í sinni heimabyggð. Þarfir notenda, gott starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna og gott eftirlit með þjónustunni á að fara saman.

Velferðarkerfið stuðli að því að allir hafi möguleika til vinnu og geti nýtt hæfileika sína og krafta til fulls. Á Íslandi verði fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð innan Norðurlanda, meðal annars í húsnæðismálum og umönnun barna og aldraðra. Ríki og sveitarfélög samræmi stefnu og vinni saman að því að veita heildstæða þjónustu.

Bætum heilsu og eflum forvarnir með markvissri lýðheilsustefnu
Heilsuefling og forvarnir eiga að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni sem langtímafjárfesting í heilbrigði og vellíðan þjóðarinnar. Tryggja þarf hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu. Skólar og sveitarfélög verði virk við heilsueflingu og forvarnir. Sett verði markviss og mælanleg lýðheilsustefna og tillit tekið til áhrifa á heilsu og heilbrigði þjóðarinnar í allri stefnumótun ríkisins. Hækkandi lífaldur og vaxandi hlutfall lífsstílssjúkdóma undirstrika mikilvægi heilsueflingar og forvarna.

Bætum forvarnir og meðhöndlun geðsjúkdóma
Lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir í tengslum við þau. Bætt verði aðgengi að sálfræðiþjónustu og hún fari í skrefum inn í tryggingakerfið. Vanlíðan er oft rót heilsufarsvandamála og mikilvægt er að styðja við börn og ungmenni með sálfræðihjálp. Þannig má mögulega draga úr brottfalli úr skólum, þunglyndi og vanlíðan.

Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga endurskoðuð
Greiðsluþátttaka verði byggð á sanngirni og miðist við hverja fjölskyldu. Útfærslan taki mið af greiðslugetu allra samfélagshópa. Of mikil greiðsluþátttaka getur valdið því að einstaklingar leiti ekki eftir læknisþjónustu og nauðsynlegum lyfjum í tæka tíð. Heildarkostnaður samfélagsins verður þá meiri á endanum.

Hagkvæmari rekstur með meiri afköstum
Afkastageta heilbrigðiskerfisins verði aukin, biðlistar styttir og þjónusta bætt. Komið verði á fjármögnunarkerfi þar sem fjármagn fylgir einstaklingunum. Lokið verði við  samræmingu skráningar í heilbrigðiskerfinu öllu svo að upplýsingar fylgi sjúklingi. Nýttir verði kostir fjölbreyttra rekstrarforma til þess að ná ofangreindum markmiðum, m.a. með hliðsjón af rekstrarformi heilbrigðisþjónustu í nágrannalöndum.

Ávallt verði leitast við að hámarka afkastagetu heilbrigðiskerfisins og unnið í samræmi við viðurkennda alþjóðlega gæðastaðla. Boðið verði upp á fjölbreyttar þjónustuleiðir og samræmingu verkferla í heilbrigðiskerfinu. Efla þarf samvinnu milli heilbrigðisstofnana. Fjarlækningar verði efldar sem og fjarþjónusta á sviði sálfræði og stuðningsþjónustu.

Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verði hraðað og lokið eigi síðar en 2022.

Tryggja þarf að íslenska heilbrigðiskerfið sé og verði eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að og heldur í hæft starfsfólk.

Einfaldari almannatryggingar með minni skerðingum
Lífeyriskerfi almannatrygginga verði einfaldað og dregið verulega úr skerðingum vegna annarra tekna. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Umbætur verði gerðar á vinnumarkaði til að bregðast við hækkandi eftirlaunaaldri og opnað fyrir þann möguleika að hefja töku lífeyris almannatrygginga samhliða hlutastarfi. Nýtt verði vinnuframlag allra sem hafa starfsorku og reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur afnumdar.

Aðgengi fyrir alla og samningur Sameinuðu þjóðanna
Greitt aðgengi hreyfihamlaðs fólks er forsenda virkni í samfélaginu. Vinna þarf sérstaklega að því að bæta aðgengi fyrir alla. Með hækkandi lífaldri fjölgar þeim sem búa við skerta hreyfigetu og við því þarf að bregðast. Viðreisn leggur áherslu á að nýstaðfestum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði fylgt eftir með lögum.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Þröstur Emilsson, er formaður málefnanefndar um heilbrigðis- og velferðarmál.