Viðreisn

Málefnin

Innanríkismál

Landsþing 24. september 2016

Þjóðin þrífst best með blómlegri byggð. Til þess þarf góðar samgöngur, atvinnutækifæri, háhraðanettengingu og aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Innviði á að byggja upp á grunni jafnréttis, jafnræðis borgaranna og ákvarðanir á að taka með góðum stjórnarháttum.

Íslenskt samfélag á að tryggja mannréttindi og öryggi borgara sinna. Vægi atkvæða landsmanna á að vera jafnt. Neytendur eiga að búa við umhverfi þar sem hagsmunir þeirra eru í fyrirrúmi. Dómstólar eiga að vera skilvirkir og njóta trausts almennings.

Almannaöryggi

Ríkið tryggi öryggi og vernd borgaranna
Lögreglan gegnir mikilvægu hlutverki og verður að geta starfað í samræmi við nútímakröfur. Fjárveitingar, menntun og þjálfun lögreglunnar taki mið af því. Lögreglan þarf að vera í stakk búin til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi í samstarfi við erlendar löggæslustofnanir.

Markvisst samstarf um almannavarnir og björgun
Efla þarf markvisst og náið samstarfi allra sem sinna almannavörnum og björgunarstarfi. Björgunarmiðstöð á að starfrækja á Íslandi í samstarfi við aðrar þjóðir sem eiga hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi.

Hraður aðgangur að bráðaþjónustu
Leita þarf hagkvæmra leiða til þess að auka öryggi og stytta þann tíma sem tekur að koma bráðveikum með hraði á spítala. Horfa þarf á alla þætti frá upphafi til enda ferðar sjúklings, s.s. staðsetningar og tegundar flutningatækja.

Varnir gegn netárásum þarf að efla
Almannaöryggi getur stafað ógn af glæpum sem finna sér farveg um internetið þegar þeir beinast að innviðum og þjónustu sem er háð þeim miðli. Varnir gegn árásum af þessu tagi þarf að efla og jafnframt auka fræðslu til almennings um öryggi á internetinu.

Innviðir

Samgöngumannvirki mæti kröfum nútímans
Landsmenn og ekki síður ferðamenn eiga að komast um öruggar samgönguæðar um allt land árið um kring. Án tafar þarf að gera úrbætur á fjölförnum vegum þar sem dæmin sýna að slys eru tíð. Leggja þarf áherslu á fjölbreyttar samgöngur og greiða fyrir samgöngumáta sem stuðlar að heilbrigðari lífsstíl. Gæta skal þess að hagsmunir heildarinnar séu hafðir í fyrirrúmi við stefnumótun í samgöngumálum.

Öruggur aðgangur að rafmagni
Flutningskerfi raforku þarf byggja upp þannig að það sinni orkuþörf almennings og atvinnulífs með öryggi hvar sem er á landinu. Haga þarf lagningu raflína þannig að það valdi sem minnstri röskun og grafa í jörð eftir föngum þegar umhverfisrök eru sterk.

Háhraða netsamband til allra
Fyrsta flokks netsamband er órjúfanlegur þáttur þess að gott atvinnu- og mannlíf fái þrifist um land allt. Þeirri uppbyggingu verður að hraða. Netsamband Íslands við umheiminn þarf að sama skapi að vera öflugt og traust. Gera þarf nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að tryggja að það rofni ekki.

Mannréttindi

Eflum lýðræði og borgaraleg réttindi
Standa á vörð um mannréttindi og virðingu allra, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og borgaraleg réttindi.

Stjórnvöld virði friðhelgi einkalífs á internetinu
Samskipti fólks á internetinu eiga ekki að lúta sérstöku eftirliti. Þau eiga að njóta sömu verndar gegn íhlutun stjórnvalda og friðhelgi einkalífsins á heimilum fólks.

Allir njóti upplýsingafrelsis
Upplýsingafrelsi á að tryggja með lögum. Skýrari réttur einstaklinga til upplýsingamiðlunar og upplýsingaöflunar eykur gagnsæi bæði í stjórnsýslu og viðskiptum.

Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af trú
Trú og trúarbrögð eiga að vera án afskipta ríkisins. Ríkið á ekki að skipta sér af skráningu í trúfélög né innheimtu gjalda til trúfélaga. Tímabært er að ræða aðskilnað ríkis og kirkju og bera breytingar á kirkjuskipan undir þjóðina.

Málefni innflytjenda og flóttamanna

Fólk utan EES eigi greiðari leið að vinnu og búsetu
Bæta þarf í lög ákvæðum sem heimila dvöl fólks í sjálfstæðum atvinnurekstri, vinnu fólks með starfstöðvar á internetinu og vinnu og dvöl fólks með sérhæfða þekkingu eða hæfni sem sóst er eftir. Bæta á rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast hér að þegar námi lýkur.

Fræða verður innflytjendur um réttindi á vinnumarkaði
Sporna þarf við að réttur sé brotinn á innflytjendum og erlendu vinnuafli á Íslandi. Virkasta leiðin til þess er að stórauka fræðslu og upplýsingastreymi til þessa fólks og greiða aðgengi að slíkum upplýsingum á erlendum tungum.

Mannúðleg móttaka flóttamanna og hælisleitenda
Íslendingar, eins og aðrar þjóðir, bera ríka ábyrgð gagnvart flóttafólki og hælisleitendum. Taka þarf á málefnum þessa fólks með mannúð og samkennd. Stytta þarf málsmeðferðartíma eins og kostur er og auðvelda þeim sem hingað flytja að verða virkir samfélagsþegnar og laga sig að nýjum heimkynnum með námi og vinnu.

Stjórnskipan og réttarfar

Ný stjórnarskrá verði til í áföngum
Ná þarf samkomulagi um heildstætt, skýrt og tímasett ferli sem hefur að markmiði að til verði ný stjórnarskrá. Það ferli á að taka mið af tillögum Stjórnlagaráðs og annarri vinnu að breytingum á síðari stigum.

Atkvæðisréttur verði jafn
Ráðast þarf í nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja að atkvæðisréttur allra landsmanna verði jafn óháð búsetu. Jafn atkvæðisréttur og jafnt vægi atkvæða er nauðsyn í lýðræðisríki.

Dómstólar verða að njóta trausts
Efla á dómstólana og treysta sjálfstæði þeirra. Auka þarf tiltrú almennings á dómstólunum, meðal annars með því að styrkja stjórnsýslu dómstólanna og jafna kynjahlutföll meðal dómara. Heimila á dómstólum að ráða sér opinberan talsmann sem talar máli dómstóla í fjölmiðlum.

Nýtt líf að lokinni refsivist
Málefni fanga á að taka til endurskoðunar. Menntun og annar stuðningur þarf að gera föngum betur kleift að hefja nýtt líf að lokinni afplánun. Tryggja þarf að fangelsisstofnanir geti sinnt betur hlutverki sínu sem betrunarstofnanir og veitt föngum stuðning til sjálfseflingar meðan á afplánun stendur. Fjölga þarf fangelsisplássum til að tryggja að afplánun refsidóma hefjist sem fyrst að uppkveðnum dómi. Fjölga þarf úrræðum við fyrsta brot og efla þarf sérstaklega úrræði fyrir andlega veika afbrotamenn.

Forvarnir og hjálp í stað refsinga við fíkniefnaneyslu
Neysla ávana- og fíkniefna á ekki að varða refsingu. Þess í stað á að stórauka forvarnir, fræðslu og úrræði til þess að hjálpa þeim sem hafa ánetjast neyslu.

Ráðist gegn kynbundnu ofbeldi
Kynbundið ofbeldi þarf að uppræta. Vinna þarf markvisst gegn kynbundu ofbeldi með forvörnum og fræðslu með samstilltu átaki stjórnvalda, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka. Samfélag sem skilur alvarleika kynbundins ofbeldis og kynferðisbrota á að verja fjármagni til að rannsaka og saksækja þau mál. Lögregla og ákæruvald verða að fá fjármagn til að sinna þessum mikilvægu og erfiðu málum. Hrelliklám verði skilgreint refsivert í hegningarlögum.

Sporna verður við mansali
Mansal er vandamál sem teygir sig til Íslands. Við því verður að bregðast og gæta sérstaklega að því að tryggja þolendum mansals fullnægjandi réttarvernd og stuðning þegar þeim er bjargað úr ánauð.

Neytendamál

Neytendur settir í öndvegi
Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru og þjónustu. Með samkeppni þarf skilvirkt eftirlit og almenna neytendavernd. Samkeppnislög og sterk neytendasjónarmið eiga að taka til allra atvinnugreina.

Neytendur og bændur þurfa úrbætur
Búvörusamningar leiða til skerts vöruúrvals og vöruverð er hátt. Þeir stuðla ekki nægilega að hagkvæmni, nýsköpun og svigrúmi til að stunda arðbæran búskap. Hvoru tveggja verður að breyta. Landbúnaðarkerfið á að skoða sem hluta af markvissri byggða- og atvinnustefnu. Ekki er víst að búvörusamningar séu rétta aðferðin til þess.

Auðveldari netverslun
Skynsamlegt er að fella niður aðflutningsgjöld af sendingum frá útlöndum undir tilteknu verðmæti. Með því móti má einfalda stjórnsýslu, styrkja samkeppni og auðvelda almenningi að kaupa ýmsan smávarning frá útlöndum án þess að opinber gjöld geri slíkan innflutning óhagstæðan úr hófi.

Sveitarfélög

Þjóðin þrífst best með blómlegri byggð
Til að landsmenn eigi raunverulegt val um búsetu þarf að tryggja góðar samgöngur, atvinnutækifæri, aðgang að menntun, aðgang að heilbrigðisþjónustu og háhraðanettengingu um allt land.

Sjálfstæð og skilvirk sveitarfélög
Almennt á að færa verkefni og þjónustu nær þeim sem eiga að njóta. Styrkja á sveitarstjórnarstigið, ýmist með því að styðja sveitarfélög við að sinna verkefnum í sameiningu eða styðja þau til að sameinast. Öflugri einingar geta betur uppfyllt lagalegar skyldur og sinnt þörfum og kröfum íbúa.

Skipulagsvald til sjávar
Vaxandi fiskeldi við strendur landsins krefst þess að skoðað verði hvort ekki sé nauðsynlegt að skipulagsvald sveitarfélaga verði víkkað út fyrir netlög, þ.e. 115 metra frá stórstraumsfjöruborði.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Andrés Þorleifsson, er formaður málefnanefndar um innanríkismál.