Viðreisn

Málefnin

Innanríkismál

Landsþing 11. mars 2018

Þjóðin þrífst best í blómlegri byggð með góðum samgöngum, atvinnutækifærum, háhraðanettengingu og aðgangi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Innviði á að byggja upp á grunni jafnréttis, jafnræðis borgaranna og ákvarðanir á að taka með góðum stjórnarháttum.

Íslenskt samfélag á að tryggja mannréttindi og öryggi borgaranna. Vægi atkvæða landsmanna á að vera jafnt. Hagsmunir neytenda skulu vera í fyrirrúmi. Dómstólar þurfa að vera skilvirkir og njóta trausts almennings.

ALMANNAÖRYGGI
Skapa þarf lögreglunni lagaumhverfi sem gerir henni kleift að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Treysta þarf samstarf við erlendar löggæslustofnanir. Tryggja þarf fjárveitingar til að standa undir fullnægjandi tækjakaupum og eflingu löggæslu í samræmi við breyttar þarfir, þannig að störf við löggæslu verði eftirsóknarverð.

Efla þarf markvisst og náið samstarf allra sem sinna almannavörnum og björgunarstarfi. Jafnframt þarf að stytta þann tíma sem þarf til þess að koma slösuðum eða bráðveikum undir læknishendur. Skoða þarf hagkvæmni smærri og sérhæfðari sjúkraþyrlna. Kannaður verði möguleikinn á því að víkka út hlutverk Landhelgisgæslunnar til að sinna sjúkraflutningum í lofti. Björgunarmiðstöð á að starfrækja á Íslandi í samstarfi við aðrar þjóðir sem eiga hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi.

Efla þarf varnir gegn netárásum. Almenningi getur stafað ógn af glæpum sem finna sér farveg um netið. Varnir gegn árásum af þessu tagi og fræðslu til almennings um öryggi á netinu þarf að efla í samstarfi við bandalagsþjóðir Íslands, sér í lagi Norðurlandaþjóðir og aðrar þjóðir Evrópu.

INNVIÐIR
Ljúka þarf við að aðskilja akstursstefnu á stofnbrautum frá höfuðborgarsvæðinu með t.d. tvöföldum vega. Til að fjármagna slíkar framkvæmdir og flýta þeim sem kostur er, verði skoðað nánar að taka upp tímabundna sértæka fjármögnun með beinni gjaldtöku á þeim vegum. Að auki verði skoðaðar nýjungar við gjaldtöku í samgöngumálum til að standa straum af kostnaði við rekstur og framkvæmd í tengslum við orkuskipti í samgöngum. Uppbyggingu og viðhald vega þarf jafnframt að bæta markvisst um allt land. Brýnt er að lögbundin samgönguáætlun sé metnaðarfull og raunhæf. Jafnframt er eðlilegt að hið opinbera styðji við almenningssamgöngur um allt land.

Leigubílaakstur verði gefinn frjáls. Afnema skal hámark leyfisfjölda og leyfa öllum sem uppfylla lögboðin skilyrði að stunda leigubílaakstur. Þess skal gætt að löggjöf hindri ekki nýsköpun í greininni, þ.m.t. tækniþróun og nýjar aðferðir til gjaldtöku.

Einkaaðilum verði leyft að standa að gerð gjaldskyldra samgöngumannvirkja sem valkosti við opinber samgöngumannvirki, enda sé tryggt að þar beri opinberir aðilar ekki áhættu.

Samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar í millilandaflugi verði tryggð með stækkun og eflingu alþjóðlegra flugvalla, hugsanlega í samstarfi við einkaaðila. Tryggja skal öflugar almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar frá höfuðborgarsvæðinu. Öryggi og viðhald flugvalla verði tryggt um allt land.

Finna þarf nýja lausn á innanlandsflugi til Reykjavíkur. Þar til sú lausn finnst verður flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni. Bæta þarf aðstöðu og tryggja búnað á alþjóðaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum þannig að þeir geti betur sinnt sínu hlutverki. Kanna skal vel aðra valkosti í flugvallarmálum, svo sem flugvöll í Hvassahrauni.

Þjóðhagslega hagkvæmt er að auka vægi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið þarf því að koma að málaflokknum á afgerandi hátt, til dæmis með þátttöku í fjármögnun Borgarlínu.

Flutningskerfi raforku þarf að byggja upp þannig að það sinni með öruggum hætti orkuþörf almennings og atvinnulífs hvar sem er á landinu. Tryggja þarf aðgengi allra landsmanna að þriggja fasa rafmagni. Haga þarf lagningu raflína þannig að þær valdi sem minnstri röskun og grafa í jörð eftir föngum þegar umhverfisrök eru sterk.

Uppbyggingu fyrsta flokks netsambands verður að hraða um allt land. Netsamband Íslands við umheiminn þarf að sama skapi að vera öflugt og traust þannig að það rofni ekki.

Póstþjónusta skal gefin frjáls. Um leið skal tryggja aðgengi allra landsmanna að grunnpóstþjónustu, til dæmis með opinberum útboðum.

MANNRÉTTINDI
Standa á vörð um mannréttindi og virðingu allra, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og borgaraleg réttindi.

Samskipti fólks á netinu eiga ekki að lúta sérstöku eftirliti. Þau eiga að njóta sömu verndar gegn íhlutun stjórnvalda og friðhelgi einkalífsins á heimilum fólks.

Upplýsingafrelsi á að tryggja með lögum. Skýrari réttur einstaklinga til upplýsingamiðlunar og -öflunar eykur gagnsæi, bæði í stjórnsýslu og viðskiptum.

Trú og trúarbrögð eiga að vera án afskipta ríkisins og eðlilegt er að aðskilja ríki og kirkju. Ríkið á ekki að skipta sér af skráningu í trúfélög né innheimtu gjalda til trúfélaga. Rekstur trúfélaga skal vera á kostnað iðkenda.

Meiðyrðalöggjöf verði endurskoðuð og tryggt að hún sé í samræmi við kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu.

Fólk utan EES eigi greiðari leið að vinnu og búsetu. Bæta þarf í lög ákvæðum sem heimila dvöl fólks í sjálfstæðum atvinnurekstri, vinnu fólks með starfsstöðvar á netinu og vinnu og dvöl fólks með sérhæfða þekkingu eða hæfni sem sóst er eftir.

Ríkisfang frá EES-ríki á ekki að vera skilyrði fyrir vinnu hjá opinberum aðilum.

Bæta þarf rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast hér að þegar námi lýkur. Öll lögleg dvöl myndi rétt til ótímabundins dvalarleyfis.

Tryggja þarf rétt barna til að fylgja foreldrum sínum til landsins, sér í lagi vegna náms eða tímabundinnar atvinnu foreldra.

Gerðir verði samningar við ríki utan EES til að auðvelda frjálsari för fólks á aldrinum 18-26 ára til og frá þeim ríkjum.

Fræða verður innflytjendur um réttindi á vinnumarkaði. Sporna þarf við að réttur sé brotinn á innflytjendum og erlendu vinnuafli á Íslandi. Virkasta leiðin til þess er að stórauka fræðslu og upplýsingastreymi til þessa fólks og greiða aðgengi að slíkum upplýsingum á erlendum tungum.

Íslendingar, líkt og aðrar auðugar þjóðir, bera ríka ábyrgð á örlögum fólks sem lagt hefur á flotta vegna hörmunga í heimalöndum sínum. Stjórnvöld þurfa að mæta þessari ábyrgð með móttöku flóttafólks í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir. Málefni hælisleitenda þurfa að fara í mannúðlegan farveg. Stytta þarf málsmeðferðartíma eins og kostur er og auðvelda þeim sem hingað flytjast að verða virkir samfélagsþegnar og laga sig að nýjum heimkynnum með námi, vinnu og íslenskukennslu.

STJÓRNSKIPAN OG RÉTTARFAR
Ná þarf samkomulagi um skýrt og tímasett ferli varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar verði tekið mið af tillögum Stjórnlagaráðs og annarri vinnu að breytingum á síðari stigum.

Ráðast þarf í nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja að atkvæðisréttur allra landsmanna verði jafn, óháð búsetu.

Auka þarf tiltrú almennings á dómstólunum, meðal annars með því að styrkja stjórnsýslu dómstólanna og tryggja að sjónarmið sem dómar byggja á heyrist í opinberri umræðu um þá dóma. Skapa þarf sátt um skipan dómara. Tryggja þarf dómstólum viðunandi aðstöðu, ekki síst Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti. Kanna þarf hvort rétt sé að sameina alla héraðsdómstólana í einn dómstól sem gæti haft margar starfsstöðvar.

Menntun og annar stuðningur þarf að gera föngum betur kleift að hefja nýtt líf að lokinni afplánun. Ein slík leið er að tryggja að afplánun veiti rétt til atvinnuleysisbóta.

Fangelsisstofnanir geti sinnt betur hlutverki sínu sem betrunarstofnanir og veitt föngum stuðning til sjálfseflingar meðan á afplánun stendur. Fjölga þarf fangelsisrýmum svo að afplánun refsidóma hefjist sem fyrst. Fjölga þarf úrræðum við fyrsta brot og efla sérstaklega úrræði fyrir andlega veika afbrotamenn. Sérstaklega skal hlúð að ungum brotamönnum og skulu þeir að meginstefnu til ekki afplána dóm með eldri föngum.

Ljúka þarf sem fyrst endurskoðun laga sem snúa að því hvernig fólk sem afplánað hefur lengri fangelsisdóma geti endurheimt ýmis borgaraleg réttindi sín.

Kannabis er hættulegt, ávanabindandi efni. Engu að síður verður að horfast í augu við að núverandi refsistefna skilar engu, glæpahópar stórgræða á sölunni og ganga fram með vaxandi ofbeldi. Viðreisn vill feta í fótspor ýmissa vestrænna þjóða og færa söluna upp á yfirborðið og úr höndum glæpahópa. Samhliða verði forvarnar- og rannsóknarstarf aukið ásamt því að aðgengi að góðri aðstöðu fyrir fólk með fíknivanda verði tryggt.

Ríkið skal efla stuðning við meðferðarúrræði og fjölga skaðaminnkandi úrræðum fyrir notendur vímuefna, t.a.m. neyslurými.

Framleiðsla áfengis til einkanota á ekki að varða refsingu.

Vinna þarf markvisst gegn kynbundu ofbeldi með forvörnum og fræðslu í samstilltu átaki stjórnvalda, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka. Verja þarf fjármagni til að rannsaka mál af því tagi og sækja til saka í þeim. Stafrænt kynferðisofbeldi verði skilgreint refsivert í hegningarlögum.

Þolendum mansals verði tryggð fullnægjandi réttarvernd og stuðningur.

NEYTENDUR Í ÖNDVEGI
Netvæða skal stofnanir ríkisins. Auknir verði möguleikar á því að eiga samskipti við ríkið og afgreiða fleiri mál í gegnum netið. Með tilkomu rafrænna skilríkja á netvæðingin að vera öruggur möguleiki sem kemur sér ekki síst vel fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru og þjónustu. Samkeppnislög og sterk neytendasjónarmið eiga að taka til allra atvinnugreina.

Uppfæra þarf löggjöf landsins um veðmálastarfsemi og afnema einkarétt örfárra aðila til þátttöku á veðmálamarkaði. Samhliða því auknu jafnræði á veðmálamarkaði þarf að tryggja virkt eftirlit með slíkri starfsemi og gæta þess að hluti hagnaðar sé greiddur í sjóð til eflingar forvörnum og meðferðum við spilafíkn.

Auka skal vöruúrval og stuðla að lækkuðu vöruverði með endurskoðun tollaumhverfis landbúnaðarins og auknu frelsi bænda til heimaframleiðslu og sölu afurða beint frá býli.

Skynsamlegt er að fella niður aðflutningsgjöld af öllum sendingum frá útlöndum undir tilteknu verðmæti. Með því móti má einfalda stjórnsýslu, styrkja samkeppni og auðvelda almenningi að kaupa ýmsan smávarning frá útlöndum.

Afnema skal einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og skal ríkið draga sig alfarið út úr smásölu og vörudreifingu.

SJÁLFSTÆÐ OG SKILVIRK SVEITARFÉLÖG
Almennt á að færa verkefni og þjónustu nær þeim sem eiga að njóta. Styrkja þarf sveitarstjórnarstigið með sameiningu og samvinnu sveitarfélaga.

Skoðað verði út frá vaxandi fiskeldi hvort ekki sé nauðsynlegt að skipulagsvald sveitarfélaga verði víkkað.

Efla skal tekjustofna sveitarfélaga með því að gistináttagjald renni til sveitarfélaga.

Hluti af auðlindagjöldum renni til uppbyggingar í þeim landshluta þar sem verðmætin verða til.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Aron Freyr Jóhannsson er formaður málefnanefndar um innanríkismál.