Viðreisn

Málefnin

Menningarmál

Landsþing 24. september 2016

Menning og sjálfsvitund samfélags eru tengd órofa böndum. Sérhverri sjálfstæðri þjóð er mikilvægt að hlúa að, skilja og skapa sína menningararfleifð, en um leið að vera opin fyrir alþjóðlegum straumum. Menning er hin virka menntun manna í víðasta skilningi.

Margþætt gildi menningar
Stefna í menningarmálum þarf að taka mið af tvíþættu hlutverki og gildi menningarstarfsemi og skapandi greina.  Annars vegar hin óáþreifanlegu gæði sem felast í menningararfleifð og þátttöku í skapandi umhverfi. Þau eru mikilvæg fyrir þroska okkar sem einstaklinga og fyrir sjálfsvitund okkar sem samfélags.  Hins vegar þarf að horfa til efnahagslegrar þýðingar skapandi greina, sem verða sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar í hefðbundnum skilningi.

Öflugar menningarstofnanir gegna miklu hlutverki
Standa á vörð um menningarstofnanir og efla þær eftir mætti. Almenningsútvarp hefur bæði menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Fólk þarf að eiga þess kost að njóta menningar óháð efnahag eða búsetu. Stuðlað skal að því að einstaklingar geti tekið þátt í skapandi starfi óháð fötlun.

Menntun í skapandi greinum er mikilvæg
Aðgengi að góðri menntun í skapandi greinum þarf að vera á öllum skólastigum. Styrkja verður umgjörð háskólanáms í listgreinum, efla fræðilegt starf og rannsóknir á þeim sviðum.

Menning er fjárfesting
Líta ber á opinberan stuðning við menningarstarfsemi sem fjárfestingu. Hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að skapa umgjörð og gott starfsumhverfi fyrir skapandi greinar. Efla þarf menningartengda samkeppnissjóði, þ.e. launa- og verkefnasjóði og úthlutun á að vera opin og fagleg. Þá skal gert ráð fyrir því að vísindasjóðir styðji rannsóknir á sviði skapandi greina. Gæta ber að kynjasjónarmiðum á þessu sviði sem öðrum.

Samhæfðari og styrkari stjórnsýsla
Umhverfi menningarstarfs á að vera sambærilegt við það sem gerist best í helstu samanburðarlöndum. Stefnt skal að því að styrkja stjórnsýslu skapandi greina. Hún þarf að vera heildstæð, stöðug, fagleg og byggja á langtíma framtíðarsýn.

Listamenn njóti ávaxta síns erfiðis
Starfskjör listafólks eiga að taka mið af þeirri grundvallarreglu að einstaklingar fái greitt fyrir vinnu sína. Opinberar stofnanir eiga að ganga á undan með góðu fordæmi.

Höfundarrétt ber að virða en laga að nýjum tímum
Það er ófrávíkjanlegt að höfundarrétt beri að virða. Hins vegar á að uppfæra löggjöf í samræmi við þróun í tækni, tækjabúnaði, afritun og dreifingu höfundarréttarvarins efnis. Rétt er að skattleggja tekjur af höfundarrétti líkt og fjármagnstekjur.

Íslensk tunga í stafrænum heimi
Hlúa þarf að íslenskri tungu og gera hana gjaldgenga í stafrænu samskiptaumhverfi. Styðja þarf við verkefni sem hafa þetta að markmiði. Tungumálið er mikilvægasti miðill menningarinnar og ein undirstaða sjálfsvitundar þjóðar. Tungan er menningarverðmæti í sjálfu sér.

Alþjóðlegir straumar leiki um íslenska menningu
Menning er síkvik framþróun sem fléttar saman fortíð nútíð og framtíð. Menning er menntun samfélags. Hún þarf að vera víðsýn og opin fyrir ytri straumum. Því er virk þátttaka í alþjóðasamstarfi nauðsynleg á þessu sviði sem öðrum.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
María Kristín Gylfadóttir, er formaður málefnanefndar um mennta- og menningarmál.