Viðreisn

Málefnin

Menningarmál

Landsþing 11. mars 2018

Á sviði menningarmála er hlutverk stjórnvalda fyrst og fremst að skapa umgjörð og gott starfsumhverfi fyrir skapandi greinar og menningarstarfsemi. Horfa skal til efnahagslegrar þýðingar menningarstarfsemi og skapandi greina, sem verða sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar í hefðbundnum skilningi.

ÖFLUGAR MENNINGARSTOFNANIR GEGNA MIKILVÆGU HLUTVERKI
Standa á vörð um menningarstofnanir og efla þær eftir mætti.

Almannaútvarp hefur bæði menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Rétt er að huga að samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og stuðningi hins opinbera, sérstaklega við innlenda dagskrárgerð.

Aðgengi að góðri menntun í skapandi greinum þarf að vera á öllum skólastigum. Styrkja verður umgjörð háskólanáms í listgreinum, efla fræðilegt starf og rannsóknir á þeim sviðum.

Líta má á opinberan stuðning við menningarstarfsemi sem fjárfestingu. Endurskoða þarf menningartengda samkeppnissjóði, þ.e. launa-, rannsókna- og verkefnasjóði í því miði að efla þá enn frekar og tryggja fagleg og gegnsæ vinnubrögð við úthlutun. Skjóta skal styrkari stoðum undir menningarstarfsemi fyrir börn.

SAMHÆFÐARI OG STYRKARI STJÓRNSÝSLA
Styrkja þarf umhverfi menningarstarfs svo það verði sambærilegt við það sem gerist best í helstu samanburðarlöndum og efla jafnframt stjórnsýslu skapandi greina. Hún þarf að vera heildstæð, stöðug, fagleg og byggjast á langtíma framtíðarsýn.

Það er ófrávíkjanlegt að höfundarrétt beri að virða. Uppfæra þarf löggjöf í samræmi við þróun á sviði tækni, tækjabúnaðar, afritunar og dreifingar höfundarréttarvarins efnis. Skoðað verði að skattleggja tekjur af höfundarrétti líkt og fjármagnstekjur.

Hlúa þarf sem best að íslenskri tungu og gera hana gjaldgenga í stafrænu samskiptaumhverfi. Styðja þarf við verkefni sem hafa þetta að markmiði.

Menning þarf að vera opin fyrir ytri straumum. Því er virk þátttaka í alþjóðasamstarfi nauðsynleg á þessu sviði sem öðrum.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Sara Dögg Svanhildardóttir er formaður málefnanefndar um mennta- og menningarmál.