Viðreisn

Málefnin

Menntamál

Landsþing 24. september 2016

Menntunarstig á öllum sviðum hefur veigamikil áhrif á efnahag, nýsköpun og almenna velferð í samfélagi. Hátt menntunarstig helst m.a. í hendur við stjórnmálalegan stöðugleika og þroskaða þjóðmálaumræðu, öfluga lýðræðisvitund og lýðheilsu.

Menntastofnanir og skólakerfi eiga að fylgja því leiðarstefi að veita einstaklingum tækifæri til þess að afla sér þekkingar og skilnings, þroska sína hæfileika og hæfni til að móta sér farsælt líf sem sjálfstæðir einstaklingar. Jafnframt er það hlutverk menntakerfis að stuðla að framgangi þeirrar fjölþættu þekkingar, hugvitssemi og framtakssemi sem sérhvert samfélag þarf á að halda til þess að standa undir verðmætasköpun, velsæld og auðugu menningarlífi. Nám mótar einstaklinga til frambúðar, lífssýn þeirra og atvinnutækifæri. Stefna í menntamálum á ævinlega að byggja á hugmyndum réttlætis, fjölbreytni og jafnaðar.

Leik-, grunn- og framhaldsskóli

Meiri samfella milli skólastiga
Sett verði skýr markmið og rammi um starfsemi menntastofnana. Unnið verði að heildstæðri löggjöf um íslenskt menntakerfi, sem auðveldi samfellu á milli skólastiga. Einstökum stofnunum verði jafnframt veitt frelsi til að finna vænlegustu leið að markmiðum.

Styttri skólaganga og meiri sveigjanleiki
Leikskólinn er fyrsta stig skólagöngu og ber að samþætta það síðari stigum. Stefnt skal að því að stytta námstíma til loka framhaldsskóla í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum. Horft skal til skilvirkrar samþættingar fyrstu skólastiga. Þjóðhagslegur ávinningur af styttingu námstímans skili sér í betra námsumhverfi og bættum innviðum. Stefnt skal að sveigjanleika í starfsemi menntastofnana sem og sveigjanlegum námshraða.

Grunnfærni á fyrstu skólastigum
Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að íslensk börn standi jafnöldrum sínum að baki í lestri og stærðfræði. Auka þarf grunnfærni nemenda í þessum greinum á fyrstu stigum skólagöngu.

Draga þarf úr brotthvarfi með fjölbreytni
Til þess að sporna gegn brotthvarfi úr námi þarf að bjóða upp á fjölbreyttara nám og gera skapandi og starfstengdu námi hærra undir höfði. Sérstaklega á að horfa til hópa þar sem brotthvarf er hlutfallslega hátt, t.d. meðal drengja og nemenda af erlendum uppruna.

Starfsmenntun verður að endurskoða og bæta
Umgjörð starfsmenntunar á að taka til gagngerrar endurskoðunar og horfa til breyttra kennsluhátta sem mæti þörfum atvinnulífs. Áhersla á að vera á samvinnu atvinnulífs og skóla á öllum skólastigum með það að leiðarljósi að nám fari fram þar sem best hentar á hverjum tíma og að nám leiði til atvinnuþátttöku. Efla þarf náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum.

Hagnýtar námsleiðir og fjarnámskennsla
Bjóða þarf upp á sveigjanlegan námshraða, í samræmi við færni hvers og eins, fjölga viðurkenndum styttri og hagnýtum námsleiðum á framhaldsskólastigi. Nýta á  tækninýjungar í skólastarfi. Vert er að þróa fjarnámskennslu enn frekar, ekki síst til þess að auðvelda aðgengi að námi í dreifbýli.

Framhaldsfræðsla verði óháð aldri
Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu og jafna aðgang að námi óháð aldri.

Góðir kennarar eru forsenda menntunar
Gæði kennslu er ein forsenda góðrar menntunar. Búa þarf kennurum gott starfsumhverfi og vanda þarf umgjörð kennaramenntunar, sem á að taka mið af þörfum nemenda og skóla. Mikilvægt er að styrkja þátt stærðfræði og raungreina í kennaramenntun.

Sporna þarf gegn staðalmyndum og kynjahyggju
Kynja- og jafnréttisfræðsla er mikilvæg á öllum skólastigum. Jafnréttissjónarmið eiga að vera til hliðsjónar í allri kennslu til að vinna markvisst gegn staðalmyndum og kynjahyggju. Menntamálayfirvöld þurfa að vera meðvituð um forsendur kynjaðs námsvals og leita leiða til þess að stuðla að jafnri stöðu kynjanna í einstaka námsgreinum og á vinnumarkaði.

Huga þarf að andlegri og líkamlegri vellíðan
Rétt er að hafa hugmyndafræði heilsueflandi skóla til hliðsjónar við þróun skólastarfs. Huga þarf að hreyfingu nemenda, næringu og geðrækt.

Háskólanám, vísindi, rannsóknir og nýsköpun

Jöfn tækifæri til náms
Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til háskólanáms óháð efnahag og búsetu. Bjóða á sveigjanlegan námshraða og fjölga viðurkenndum styttri og hagnýtum námsleiðum á háskólastigi. Nýta þarf tækninýjungar í skólastarfi, til dæmis að þróa fjarnámskennslu enn frekar, ekki síst til þess að auðvelda aðgengi að námi í dreifbýli.

Námslán og styrkir eiga að hvetja
Námslán og skólagjöld taki mið af því að allir eiga að hafa jöfn tækifæri til háskólanáms óháð efnahag og búsetu. Kjör námslána taki tillit til námshraða, árangurs og framgangs í námi. Beinn stuðningur við námsmenn í námslánakerfi á að vera sýnilegur og í formi styrkja. Námslánakerfi þarf að vera árangurshvetjandi. Afborganir námslána eiga að vera tekjutengdar.

Gæði og hagkvæmni með meira fjármagni
Auka þarf fjárframlög til menntastofnana hér á landi. Íslendingar standa Norðurlandaþjóðunum, sem og öðrum OECD-ríkjum, langt að baki í þessu efni. Ráðstafa þarf fjármunum af hagkvæmni og stefna að aukinni samvinnu og/eða sameiningu skóla, þó þannig að æskilegri samkeppni sé haldið. Gæðasjónarmið eiga að vera í forgangi í öllu skólastarfi og stefnumótun.

Samvinna um nýsköpun og vísindi
Háskólar, rannsóknastofnanir og atvinnulíf vinni meira og betur saman, og skapi umgjörð fyrir þróttmikið nýsköpunarstarf og stuðli að því að sprotar geti dafnað. Efla þarf innlenda samkeppnissjóði og auka sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði meðal annars með skilvirku stoðkerfi fyrir vísindafólk. Stefna verður að því að fjárframlög til rannsókna og þróunar verði aukin enn frekar. Til að svo megi verða þurfa hið opinbera og atvinnulífið að taka höndum saman.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
María Kristín Gylfadóttir, er formaður málefnanefndar um mennta- og menningarmál.