Viðreisn

Málefnin

Umhverfis - og auðlindamál

Landsþing 24. september 2016

Ísland býr yfir einstakri náttúru og ríkulegum auðlindum sem ber að virða og varðveita. Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúru og auðlinda er undirstaða velsældar. Stefnu í umhverfis- og auðlindamálum og ákvarðanir um ráðstöfun og nýtingu á að byggja á rannsóknum.

Ákvarðanir um óafturkræfa ráðstöfun umhverfis og auðlinda eiga að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum, þar með talið umhverfisáhrifum. Verðmæti ósnortinnar náttúru verði viðurkennt.

Heildstæð auðlindastefna
Ríkið móti heildstæða auðlindastefnu til langs tíma þar sem umhverfisvernd, heildarhagsmunir samfélags, hagsmunir sveitarfélaga, fjárfesting í innviðum og hagsmunir komandi kynslóða eru í forgrunni. Sett verði fram nýtingarstefna um auðlindir sem byggist á vísindalegum grunni.

Kortleggja þarf umfang auðlinda og stöðu nýtingar, ásamt því að forgangsraða áætlunum um rannsóknir, nýtingu og vernd. Markmiðið er sjálfbær nýting og samræmt umfang nýtingar og gjaldtöku.

Efla þarf samvinnu milli einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera um nýtingu auðlinda. Taka á tillit til sjónarmiða um náttúruvernd, þannig að saman fari heilbrigð samkeppni, framþróun og aukin hagsæld. Leggja ber áherslu á að nýta afurðir auðlinda sem best m.a. með áherslu á nýsköpun.

Markaðsgjald
Markaðstengt afgjald verði tekið upp fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu. Afgjaldið nemi að lágmarki þeim umhverfiskostnaði sem nýtingin veldur. Með því móti verði tryggt að meiri hagsmunum verði aldrei fórnað fyrir minni við ákvarðanir um nýtingu umhverfis og auðlinda.

Ísland taki virkan þátt í að berjast gegn hnattrænum umhverfisvandamálum, eins og loftslagsbreytingum, með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi gegn þeim.

Einstök náttúra og verðmæt í sjálfu sér
Samræma þarf vernd og nýtingu á náttúrverndarsvæðum hvort sem er til ferðamennsku, samgangna, orkuvinnslu eða annars atvinnurekstrar, svo að langtímahagsmuna íslensks samfélags sé gætt. Tekið verði upp afgjald í ferðaþjónustu til að stuðla að ábyrgri aðgangsstýringu, uppbyggingu innviða og vernd náttúru landsins.

Auðlindir hafsins
Ísland verði áfram í forystu um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og  aukna verðmætasköpun. Tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi. Íslendingar beiti sér af afli gegn mengun hafsins varðandi þrávirk efni og aðra mengunarvalda.

Auðlindir landgæða
Styðja þarf við umhverfisvænan og fjölbreyttan landbúnað á þann hátt að stuðningskerfið hvetji til landverndar og sjálfbærra framleiðsluhátta. Nýta skal jákvæða efnahagslega hvata og ráðgjöf til að breyta álagi á landsvæði og stýra beit sauðfjár og hrossa. Ráðist verði í aukna skógrækt og endurheimt votlendis.

Jarðrænar auðlindir
Vinna þarf verðmætalíkan fyrir jarðrænar auðlindir með það fyrir augum að þeir sem fái heimild til að nýta þær á samkeppnislegum forsendum séu skuldbundnir til að greiða sanngjarnt auðlindagjald fyrir afnotaréttinn. Gera þarf arðsemiskröfu til nýrra virkjana út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar. Stuðla ber að fjölnýtingu jarðvarma og nýsköpun.

Rannsaka þarf grunnvatnsauðlindina og koma í veg fyrir mengun hennar af mannavöldum. Koma þarf böndum á vinnslu jarðefna á yfirborði og á sjávarbotni og stöðva skemmdir sem þær valda á sérstæðum jarðminjum og landslagi. Gæta þarf hagsmuna Íslands vegna hafsbotnsréttinda utan 200 mílna efnahagslögsögu.

Orkuskipti
Loftlagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn umhverfisvandi enda virðir mengun engin landamæri. Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt í baráttunni gegn þessum vanda í alþjóðlegu samstarfi. Endurheimt votlendis, rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipaflotans, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og aukin skógrækt eru sóknarfæri sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga.

Sett verði metnaðarfull markmið um orkuskipti íslenska hagkerfisins og þeim fylgt eftir með hagrænum hvötum þannig að einstaklingar og fyrirtæki leiti hagkvæmustu leiða til að ná settu marki.

Áhersla á hagræna hvata
Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi en skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og annarra mótvægisaðgerða. Tryggt verði að sá sem mengar borgi.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Jón Þorvaldsson, er formaður málefnanefndar um umhverfis- og auðlindamál.