Viðreisn

Málefnin

Utanríkismál

Landsþing 24. september 2016

Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, viðskipti og stuðla að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða sem styðja hliðstætt gildismat. Utanríkisþjónustan skal í öllu alþjóða samstarfi styðja við jafnréttismál í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Samstarf og virk þátttaka

Ísland í samstarfi vestrænna ríkja
Grunnstoðir utanríkisstefnu Íslands eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og vestrænt friðar- og öryggissamstarf. Mikilvægt er að efla og styrkja enn frekar samvinnu Íslands og annarra ríkja á vettvangi Norðurlandanna, Evrópusamstarfs, Sameinuðu þjóðanna,Norðurskautsráðsins og Vestnorræna ráðsins.

Íslendingar virkir og ábyrgir þátttakendur
Í samstarfi þjóða eiga Íslendingar að vera virkir og ábyrgir þátttakendur. Hagsmunir Íslands verða að vera vel skilgreindir og jafnframt þarf að forgangsraða þeim.

Áskoranir alþjóðavæðingar teknar alvarlega
Aukinni alþjóðavæðingu fylgja áskoranir sem Viðreisn tekur alvarlega. Fjölmörg ríki og alþjóðastofnanir vinna að því að draga úr möguleikum einstaklinga og fyrirtækja til að komast hjá lögum og reglum í skjóli alþjóðlegrar starfsemi. Ísland á að taka þátt í því starfi.

Evrópusamvinna

Ísland er hluti af Evrópu
Hagsmunir Íslands eru samofnir hagsmunum Evrópuríkja á sviðum menningar, efnahags- og viðskipta. Ísland deilir gildum með Evrópuríkjum og leggur þar áherslu á mannréttindi, athafnafrelsi, neytendavernd, réttlæti í samskiptum borgaranna við hið opinbera og óháð eftirlit með framkvæmd milliríkjasamninga. Styrkur Íslands í samskiptum við umheiminn er fólginn í skýrri samstöðu og samvinnu við þau ríki sem byggja á sömu gildum.

Ísland verði virkari þátttakandi í EES samstarfinu
EES samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópu. Nauðsynlegt er að Ísland verði virkari þátttakandi í EES samstarfinu svo að einstaklingar og fyrirtæki njóti þeirra kosta sem samningurinn felur í sér. Til að svo megi verða þarf að gera stjórnsýslunni betur kleift að takast á við verkefni á sviði EES samstarfsins.

Kosið verði um áframhald aðildarviðræðna við ESB
Aðild að Evrópusambandinu fylgja margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna á að bera undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Viðreisn hvetur til þess að þeim viðræðum verði haldið áfram og lokið með hagfelldum aðildarsamningi, sem borinn verði undir þjóðina og farið að niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu.

Mannréttindi, friðar- og öryggismál

Mannréttindi varða alla
Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Viðreisn vill að Ísland leggi sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og vegna móttöku flóttafólks.

Áhersla á friðar- og öryggismál
Unnið skal að því að tryggja frið og öryggi í heiminum í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir. Það skal meðal annars gera á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, innan ramma varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna ásamt nánu samstarfi við þær stofnanir Evrópusambandsins sem fást við innra öryggi og landamæraeftirlit. Þegar kemur að netöryggismálum og baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi, ofbeldi öfgahópa, mansali, eiturlyfjasmygli og peningaþvætti er mikilvægt að efla vestræna samvinnu. Viðreisn vill að Ísland verði áfram ötull talsmaður ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1.325 um konur, frið og öryggi í alþjóðasamstarfi.

Alþjóðleg umhverfismál

Langtímamarkmið um efnahagslega sjálfbærni
Viðreisn leggur áherslu á að staðinn sé vörður um stefnu sjálfbærra nytja náttúruauðlinda á faglegum forsendum og vísindalegri ráðgjöf. Langtímamarkmið um efnahagslega sjálfbærni með tilliti til auðlinda-, orku- og umhverfismála eiga að ráða för á grundvelli Parísarsamningsins um sameiginlegar varnir gegn loftslagsbreytingum. Íslendingar eiga að láta að sér kveða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, stofnana þeirra og innan svæðasamtaka nágrannaríkja, til að tryggja og verja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og vinna gegn skaðlegum áhrifum á loftslag og umhverfi. Efla skal deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála.

Heildaráhrif loftlagsbreytinga varða norðurslóðir
Innan Norðurskautsráðsins skal Ísland leggja áherslu á víðtækt samstarf þjóða í málefnum norðurslóða með tilliti til legu landsins. Þrátt fyrir að áhrif hnattrænnar hlýnunar séu sýnilegri á norðurhveli jarðar en víða annarstaðar er nauðsynlegt að horfa á heildaráhrif loftslagsbreytinga á heimsvísu og vinna náið með þeim þjóðum sem láta sig málin varða.

Skilvirk, nútímaleg og öflug utanríkisþjónusta

Fagleg utanríkisþjónusta skapar verðmæt tækifæri
Utanríkisþjónustan þarf að styðja við menningu, listir og viðskipti og geta staðið vörð um íslenska hagsmuni á erlendum vettvangi. Hún kemur íslenskum sjónarmiðum á framfæri og vinnur þeim framgang á faglegan hátt gagnvart einstökum ríkjum og alþjóðastofnunum. Utanríkisþjónustan á skapa tækifæri og aðstoða við að koma á tengslum á sem flestum sviðum og hjálpa til við að efla hvers kyns samskipti. Utanríkisþjónustan þarf að vera í stakk búin að tryggja gerð viðskiptasamninga fyrir hönd Íslands og greiða þannig fyrir aðgangi íslenskra fyrirtækja að erlendum mörkuðum.

Jafnrétti að leiðarljósi í utanríkismálum
Utanríkisþjónustan skal í öllu alþjóða samstarfi styðja við jafnréttismál í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Jafnrétti og jafn aðgangur kynjanna að menntun, atvinnu, heilbrigðisþjónustu og ákvarðanatöku er nauðsynleg forsenda friðar, hagsældar og sjálfbærni í heiminum.

Endurskoða skal ráðningarferli og skipan í stöður utanríkisþjónustunnar. Þar skal sérstaklega litið til þess að ná markmiði um 40/60 hlutfalli milli kynjanna og að tryggt verði að faglegar forsendur liggi að baki ráðningum í sendiherrastöður.

------

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið [email protected].
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Ellisif Tinna Víðisdóttir, er formaður málefnanefndar um utanríkismál.