Viðreisn

Orkuskipti í bílaflota Íslendinga

10.03.17

Gestur Viðreisnar á næsta þriðjudagsfundi, 14. mars kl. 17.00, verður Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins. Hann mun flytja erindi sem ber yfirskriftina: "Hvernig getum við Íslendingar náð alþjóðlegri forystu í notkun umhverfisvænna ökutækja?“ 

Í erindinu og umræðunum á eftir verður leitast við að svara spurningum á borð við: „Hver hefur þróunin verið í CO2 losun bíla hér á landi? Hvar stöndum við þar í samanburði við aðrar þjóðir? Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar á hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum að vera komið í 40% árið 2030. Hvað mun Bílgreinasambandið leggja af mörkum til að þetta markmið náist? Hver er nauðsynlegur fjöldi rafhleðslustöðva til að rafvæðing bílaflotans heppnist?

Fundurinn er skipulagður af málefnahópi Viðreisnar um Umhverfis- og auðlindamál. Fundarstjóri er Soffía Guðmundsdóttir, umhverfisverkfræðingur og forstöðumaður Pame.

Fundinum verður að vanda streymt af Facebook síðu Viðreisnar.

Heitt á könnunni í Ármúla 42 og allir velkomnir!

Opið hús Viðreisnar er haldið alla þriðjudaga kl. 17-18 í Ármúla 42, Reykjavík. Fundirnir eru skipulagðir af málefnahópum Viðreisnar til að frjóvga og fræða málefnastarf flokksins.