Vandi hinnar óstöðugu krónu

Sú stjórn er tók við völdum í janúar hefur m.a. sett sér það markmið að minnka vaxtakostnað hér á landi sem er mun þyngri fyrir heimili og atvinnulíf en í öðrum löndum. Jafnframt er heitið að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar, en þær hafa stuðlað að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir hérlendis eru að jafnaði mun hærri en í okkar helstu viðmiðunarlöndum. Fleira kemur einnig til s.s. smæð gjaldmiðilsins og óstöðugleiki í ríkisfjármálum og útflutningstekjum.

Nýverið var skipuð verkefnisstjórn til að endurmeta peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands. Hún skal kanna hvaða umbætur hægt er að gera á núverandi peningastefnu, sem og að meta hvaða aðrar útfærslur á gengisstefnu koma til greina, svo sem hefðbundið fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs. Í þessari vinnu er afar mikilvægt að opin og hleypidómalaus umræða fari fram um kosti og galla mismunandi leiða í peningamálum, þ.m.t. atriði er varða alla kostnaðarþætti viðkomandi peningastefnu – sem ekki hefur verið gert til þessa. Þetta er brýnt þar sem fagleg og rétt greining er forsenda árangursríkrar stefnumótunar. Almenningur á rétt á því að vita meira um þessi mál þar sem kostnaður núverandi peningastefnu er umtalsverður og varðar bæði fólk og fyrirtæki.

Allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldar hefur stjórn peningamála á Íslandi verið í ólestri og gengi krónunnar verið fellt til að rétta af þjóðarskútuna eftir efnahagsleg áföll sem oftar en ekki stöfuðu af mistökum í hagstjórn. Eftir mikið fall krónunnar kringum hrun hefur krónan styrkst aftur. Síðastliðin tvö ár hefur gengi hennar hækkað um 35% gagnvart sterlingspundi, um 22% gagnvart evru og um 20% gagnvart Bandaríkjadal þrátt fyrir mikil inngrip Seðlabankans.
Veikir samkeppnisstöðu
Þessi gengishækkun veldur vanda hjá útflutningsgreinum, ekki síst sjávarútvegi, sprotafyrirtækjum og ferðaþjónustu, til viðbótar við háa vexti hér á landi. Þetta veikir samkeppnisaðstöðu landsins og hætta er á að grafið sé undan stöðugleika og sjálfbærum hagvexti og kaupmætti til lengri tíma. Hæpið er að reikna með að niðursveiflur séu úr sögunni þótt vel ári í bili. Þær raddir gerast nú háværari að íslensk stjórnvöld grípi í taumana og reyni að spyrna við fótum gagnvart frekari styrkingu krónunnar. Hvernig ætti að gera það í núverandi peningakerfi án verulegs kostnaðar er hins vegar ekki augljóst.

Vandi krónunnar endurspeglast í ýmsum myndum, s.s. mun hærri vöxtum en erlendis, miklum gengissveiflum, gjaldeyrishöftum sem að hluta eru enn til staðar, erfiðu aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum, krónan er hvergi skráð á erlendum mörkuðum, meiri viðskiptakostnaði o.fl. Þessi vandi lendir ekki bara á fyrirtækjum – heldur einnig og ekki síður á almenningi, í formi hærri vaxta og stökkbreyttra lána á umliðnum árum.

Viðreisn hefur lagt þunga áherslu á að tekið verði upp myntráð í stað núverandi peningastefnu. Þannig er gengisstöðugleiki tryggður, dregið úr vaxtamun við útlönd og skapaðar forsendur fyrir langtímaverðstöðugleika og samkeppnishæft atvinnulíf.

Til að þroska faglega og málefnalega umræðu um þessi mál, sem er grunnur að árangursríkri stefnumótun, mun Viðreisn halda fundi á næstunni sem auglýstir verða, þar sem flutt verða fagleg erindi og reynslusögur einstaklinga sagðar. Við hvetjum alla áhugasama um lækkun á kostnaði vegna hárra vaxta, gengisbreytingar og annan kostnað krónunnar til að fylgjast með og mæta.

Baldur Pétursson
Björn Ólafsson
Sveinbjörn Finnsson
Sveinn Agnarsson
í efnahagsnefnd Viðreisnar

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. mars 2017.