Plastlaus Hafnarfjörður

Hvernig getum við sem einstaklingar sett okkur markmið um að gera bæinn okkar plastpokalausan og lausan við einnota plastáhöld, er það raunhæft markmið og hvaða  hagsmunir eru í húfi? Flest höfum við séð myndbönd á netinu eða fréttir þar sem verið er að fjalla um plastmengun og hvernig heilu eyjarnar úr plastrusli eru farnar að myndast í sjónum. Tölur sýna að í dag eru rúmlega  270.000 tonn af plasti fljótandi á yfirborði hafsins. Ímyndum okkur 24 milljón manna þjóð, t.d. Ástrali sem notar 6,9 billjón tonn af plastpokum á ári, ef við bindum þessa poka saman er hægt að vefja þeim 42 sinnum hringinn í kringum jörðina.  En hvað er að gerast á Íslandi? Áætluð plastpokanotkun er um 70.000 tonn á ári sem þýðir að hver Íslendingur notar um 200 poka á ári og hvert heimili fargar 36 kg árlega af einnota plasti. Hvað getum við gert til að minnka plastnotkun? Ef við, íbúar Hafnarfjarðar, setjum okkur það markmið að draga úr plastnotkun um 15% á ári á næstu fjórum árum náum við að minnka hana  um 65% árið 2022 og því  væri raunhæft að setja sér markmið um plastlausan Hafnarfjörð fyrir árið 2030.

Með það í huga gæti stjórnsýsla bæjarins komið til móts við bæjarbúa við að finna betri lausnir og leiðir til flokkunar plasts.

Við í Viðreisn viljum einfalda flokkun plasts, fjölga grenndargámum og auðvelda aðgengi að þeim og hvetja fyrirtækin í bænum til samvinnu. Við viljum bæta tölfræði á þessu sviði og líta þarf á þennan úrgang sem verðmæti og finna hugvitsamlegar leiðir þegar kemur að endurvinnslu.

Að lokum þarf að tryggja að upplýsingar um flokkun sorps og staðsetningu móttökustöðva nái til allra, ekki síst erlendra ferðamanna.

Þórey S. Þórisdóttir
viðskiptafræðingur og formaður Viðreisnar í Hafnarfirði

Jón Ingi Hákonarson
ráðgjafi í starfsendurhæfingu, MBA.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 9. maí 2018